Arinbjörn Sveinbjarnarson
Arinbjörn Sveinbjarnarson (25. júní 1866 – 28. mars 1932) var bókbindari, bóksali og bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1910 til 1916.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Arinbjörn fæddist á Ökrum í Hraunhreppi í Mýrasýslu. Hann ólst upp hjá Eiríki Kúld Alþingismanni á Ökrum en fluttist til Reykjavíkur árið 1884 þar sem hann nam bókbandsiðn og leitaði sér síðar frekari æfingar í þeirri list í Kaupmannahöfn. Hann rak bókbandsvinnustofu, bókaverslun og -útgáfu í Reykjavík frá 1889. Árið 1898 varð hann fyrsti eigandi hússins að Laugavegi 41, sem enn stendur og lét hann stækka það og bæta í nokkrum áföngum. Meðal bóka sem Arinbjörn gaf út voru verk eftir rithöfundinn Jón Trausta.
Hann var kjörinn í bæjarstjórn fyrir Heimastjórnarflokkinn í kosningunum 1910 og sat þar í eitt sex ára kjörtímabil. Í sömu kosningum náði Pétur G. Guðmundsson kjöri fyrir Jafnaðarmenn en Pétur hafði numið bókband hká Arinbirni.
Arinbjörn var í hópi stofnenda Fríkirkjusafnaðarins og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann.
Sonur Arinbjarnar var listmálarinn Snorri Arinbjarnar.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Páll Líndal & Torfi Jónsson (1986). Reykjavík: Bæjar- og borgarfulltrúatal 1836-1986. Reykjavíkurborg.