Fara í innihald

Anne Holtsmark

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Anne Holtsmark – fullu nafni Anne Elisabeth Holtsmark – (21. júní 189619. maí 1974 i Osló) var fyrsta konan sem varð prófessor í norrænni textafræði við Háskólann í Osló.

Anne Holtsmark fæddist í Kristjaníu og ólst þar upp að mestu, næst elst fimm systkina. Foreldrar hennar voru Gabriel Gabrielsen Holtsmark (1867–1954), dr. phil., forstjóri, og Margrete Weisse (1871–1933).

Eftir nám í iðnskóla og verslunarskóla, og starf í banka 1913–15, ákvað hún að afla sér háskólamenntunar. Eftir stúdentspróf 1917 og háskólanám varð hún cand.philol. 1924 með norsku sem aðalgrein og frönsku og sagnfræði sem aukagreinar. Til þess að framfleyta sér vann hún við tímakennslu og skrifstofustörf samhliða náminu.

Eftir embættisprófið starfaði Anne Holtsmark sem aðstoðarmaður við Háskólabókasafnið í Osló til 1928 og síðan sem fastur starfsmaður til 1930, nema árið 1925–26 þegar hún var dósent í norsku við Háskólann í Hamborg. Hún varð dósent í norrænni textafræði við Háskólann í Osló 1931, og 1949 tók hún við af Magnúsi Olsen sem prófessor í þeirri grein. Skömmu eftir 1950 greindist hún með MS-sjúkdóm, en hún hélt samt áfram störfum þrátt fyrir að vera í hjólastól. Hún sagði starfi sínu lausu í ársbyrjun 1961, nokkru áður en aldursmörkum var náð, en hélt þó áfram rannsóknum og fræðistörfum fram undir sitt síðasta.

Árið 1936 tók hún doktorspróf með ritgerðinni En islandsk scholasticus fra det 12. århundrede, sem fjallar um höfund fyrstu málfræðiritgerðarinnar.

Holtsmark samdi margar greinar og ritgerðir, einkum á sviði norrænnar textafræði. Bók hennar Norrøn mytologi. Tru og mytar i vikingtida, Oslo 1970, hefur komið í nokkrum útgáfum og einnig verið þýdd á önnur mál. Bókin heldur enn gildi sínu sem gott yfirlitsrit um heimsmynd og trúarbrögð norrænna manna í fornöld. Hún er byggð á íslenskum heimildum, en einnig stuðst við forna myndlist, rannsóknir í fornleifafræði, rúnaristur og örnefni.

Hún þýddi mörg íslensk fornrit yfir á norsku, svo sem Snorra-Eddu, Helgisögu Ólafs helga, Heimskringlu, Sverris sögu, Hákonar sögu og Orkneyinga sögu.

Hún samdi fjölda greina um norræn fræði í Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder.

Árið 1941 var Anne Holtsmark tekin í Norsku vísindaakademíuna, hún hlaut St. Ólafs-orðuna 1958, og var útnefnd heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1961.