Fara í innihald

Anne Bonny

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af Anne Bonny í hollenskri útgáfu af sjóræningjabók Charles Johnson skipstjóra.

Anne Bonny (hugsanlega fædd 1697; hugsanlega dáin í apríl 1782)[1][2] var írskur sjóræningi sem rændi skip á Karíbahafi. Hún er einn þekktasti kvenkyns sjóræningi allra tíma.[3] Flestar heimildir um líf hennar koma úr bókinni A General History of the Pyrates eftir Charles Johnson skipstjóra.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Anne Bonny fæddist en talið er að það hafi verið í kringum aldamótin 1700.[4] Sagt er að hún hafi fæðst í Kinsale,[5] í County Cork á Írlandi.[6] Hún var dóttir vinnukonunnar Mary Brennan og húsbónda hennar, lögfræðingsins Williams Cormac. Lítið er vitað um æskuár Anne en helstu upplýsingar um uppvöxt hennar koma úr bókinni A General History of the Pyrates eftir Charles Johnson.[7]

Faðir Anne hafði flutt til Lundúna til þess að forðast tengdafjölskyldu sína. Hann ól dóttur sína upp en dulbjó hana sem dreng og kallaði hana „Andy“. Þegar eiginkona Cormac komst að því að William hefði eignast dóttur utan hjónabandsins og væri að ala hana upp og leyfði henni að starfa sem aðstoðarmaður á lögmannsskrifstofu sinni hætti hún að senda honum vasapeninga.[8]

Cormac flutti í kjölfarið til bresku nýlendunnar Karólínu í Ameríku og tók Anne og móður hennar með sér. Cormac eignaðist plantekru í grennd við Charleston og gerðist síðar kaupmaður eftir að móðir Anne lést.[9]

Anne var rauðhærð og þótti mjög álitleg en hugsanlega var hún nokkuð skapstór. Sagt er að hún hafi stungið þernu föður síns með hníf þegar hún var þrettán ára.[7] Anne giftist fátækum sjómanni og sjóræningja að nafni James Bonny.[10] James vonaðist til þess að með ráðahagnum myndi hann erfa plantekru og ríkidæmi tengdaföður síns en þar sem Cormac var ekki hrifinn af James Bonny gerði hann Anne arflausa og rak hana að heiman.[11]

Sögur fara um að Bonny hafi kveikt í plantekru föður síns í hefndarskyni en engar traustar heimildir eru til um að þetta hafi gerst. Einhvern tímann á bilinu 1714 til 1718 fluttu Anne og James Bonny til Nassá á New Providence í Bahamaeyjum, sem þá var nokkurs konar griðastaður fyrir enska sjóræningja. Margir íbúar borgarinnar hlutu náðun konungsins eða komust hjá refsingu fyrir gamla glæpi. Vitað er að eftir að landstjórinn Woodes Rogers kom til eyjunnar árið 1718 gerðist James Bonny uppljóstrari hans.[12] James kom upp um starfsemi fjölmargra sjóræningja á svæðinu með því að leka upplýsingum í landstjórann og kom þeim þannig í fangelsi. Anne var ekki hrifin af því að eiginmaður hennar ynni fyrir Rogers landstjóra á þennan máta.

Í bandalagi með Rackham

[breyta | breyta frumkóða]

Á meðan hjónin bjuggu á Bahamaeyjum fór Anne Bonny að blanda geði við sjóræningja sem sóttu krárnar í nágrenninu. Hún kynntist John „Calico Jack“ Rackham, skipstjóra sjóræningjaslúppunnar Revenge, og gerðist ástkona hans. Rackham reyndi að múta James Bonny til að fá hann til að skilja við Anne en James neitaði. Að endingu flúðu Anne og Rackham saman frá eyjunni og Anne Bonny gekk til liðs við sjóræningjaáhöfn Rackham. Hún dulbjó sig sem karlmann og aðeins Rackham og síðar Mary Read fengu að vita um raunverulegt kyn hennar.[11] Þegar Anne varð ólétt skildi Rackham hana eftir á eyjunni Kúbu, þar sem hún eignaðist son. Óljóst er hvort sonurinn var skilinn eftir hjá fjölskyldu sinni eða hvort foreldrar hans losuðu sig einfaldlega við hann. Eftir fæðinguna gekk Bonny aftur til liðs við áhöfn Rackham. Hún hafði nú skilið við eiginmann sinn og gifst Rackham. Bonny, Rackham og Mary Read stálu skipinu William frá höfninni í Nassá, héldu til hafs[13] og réðu nýja áhöfn. Áhöfnin hélt til í kringum Jamaíku næstu árin.[14] Næstu mánuðina rændu þau fjölmörg skip og söfnuðu talsverðum auðæfum.

Bonny greip til vopna ásamt karlmönnum áhafnarinnar þegar þau réðust á skip og barðist með þeim í sjóránum. Frásagnir benda til þess að hún hafi verið góður bardagamaður og notið virðingar áhafnarinnar. Rogers landstjóri setti Bonny á lista yfir eftirlýsta sjóræningja í The Boston News-Letter, eina dagblaði álfunnar.[12] Bonny varð mjög frægur sjóræningi en hún réð þó aldrei yfir eigin skipi eða áhöfn.

Handtaka og fangavist Bonny

[breyta | breyta frumkóða]

Í október árið 1720 réðst slúppa undir stjórn skipstjórans Jonathans Barnet á skip Rackhams með handtökuheimild frá landstjóra Jamaíku upp á vasann. Flestir sjóræningjarnir voru of drukknir til þess að berjast að ráði en sagt er að Read og Bonny hafi barist með kjafti og klóm og tekist að bægja burt áhöfn Barnets í stuttan tíma. Að endingu var öll áhöfn Rackhams handtekin og flutt til Jamaíku, þar sem sjóræningjarnir voru dæmdir til hengingar.[15] Að sögn Charles Johnsons var það síðasta sem Bonny sagði við Rackham: „Ef þú hefðir barist eins og maður yrðir þú ekki núna hengdur eins og hundur“.[16][17]

Eftir að dómur var felldur báðust Read og Bonny báðar vægðar með þem röksemdum að þær væru óléttar.[18] Í samræmi við ensk lög var aftöku kvennanna því frestað þar til eftir fæðingu barna þeirra. Read lést í fangelsi, líklega af barnsförum.[12] Anne var áfram í fangelsi þar til hún fæddi barn og var í kjölfarið sleppt.[8]

Hvarf Anne Bonny

[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni A General History of the Robberies and Murders of the most notorious Pyrates, sem birt var árið 1724, segir Charles Johnson um Bonny að hún hafi verið áfram í fangelsi um hríð en að óvíst sé hvað varð um hana. Það eina sem víst væri sé að hún hafi aldrei verið tekin af lífi.[19] Engar skriflegar heimildir eru til um að Bonny hafi verið sleppt úr fangelsi né um að hún hafi verið tekin af lífi. Því eru tilgátur um að faðir Anne hafi greitt lausnargjald fyrir hana, um að hún hafi snúið aftur til eiginmanns síns á Bahamaeyjum, eða jafnvel að hún hafi haldið sjóránum áfram undir nýju nafni.[20]

Í grein sem skrifuð var árið 2015[21] er lagt til að eftir að Bonny var sleppt hafi hún snúið aftur til Suður-Karólínu og eignast fjölskyldu. Sögusagnir eru til um að Bonny hafi látist í fangelsi en aðrar segja að hún hafi sloppið úr fangelsi og gerst sjóræningi á ný. Það eru ekki til ritaðar heimildir um dauða Bonny en sumir sagnfræðingar telja að hún hafi látist í apríl árið 1782 í Suður-Karólínu.[22]

  • „Hver var sjóræninginn Anne Bonny?“. Vísindavefurinn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Anne Bonny - Famous Pirate - The Way of the Pirates“. www.thewayofthepirates.com. Sótt 16. júní 2018.
  2. „Anne Bonny - Irish American pirate“. Sótt 16. júní 2018.
  3. „Anne Bonny and Famous Female Pirates“. www.annebonnypirate.com (enska). Sótt 3. mars 2018.
  4. „The Story of Female Pirate Anne Bonny“. ThoughtCo. Sótt 3. mars 2018.
  5. Rediker, Marcus (1993). „When Women Pirates Sailed the Seas“. The Wilson Quarterly (1976-). 17 (4): 102–110.
  6. „Anne Bonny - Famous Female Pirate“. www.famous-pirates.com. Sótt 16. júní 2018.
  7. 7,0 7,1 Meltzer, Milton; Waldman, Bruce (2001). Piracy & Plunder: A Murderous Business. New York: Dutton Children's Books.
  8. 8,0 8,1 Joan., Druett, (2005) [2000]. She captains : heroines and hellions of the sea. New York: Barnes & Noble Books. OCLC 70236194.
  9. Johnson, Captain Charles (1724). Hayward, Arthur L. (ritstjóri). A history of the robberies and murders of the most notorious pirates from their first rise and settlement in the island of Providence to the present year. London: George Routledge & Sons, Ltd.
  10. Lorimer, Sara; Synarski, Susan (2002). Booty: Girl Pirates on the High Seas. San Francisco: Chronicle Books.
  11. 11,0 11,1 Johnson, Charles (14. maí 1724). The General History of Pyrates. Ch. Rivington, J. Lacy, and J. Stone.
  12. 12,0 12,1 12,2 Woodard, Colin (2007). The Republic of Pirates. Harcourt, Inc. bls. 139, 316–318.
  13. Druett, Joan (2000). She Captains : Heroines and Hellions of the Sea. New York: Simon & Schuster.
  14. Canfield, Rob (2001). „Something's Mizzen: Anne Bonny, Mary Read, "Polly", and Female Counter-Roles on the Imperialist Stage“. South Atlantic Review: 50.
  15. Zettle, LuAnn. „Anne Bonny The Last Pirate“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2019.
  16. „Ann Bonny and Mary Read's Trial“. Pirate Documents. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. apríl 2014. Sótt 16. júní 2018.
  17. „When women pirates sailed the seas“. link.galegroup.com (enska). Sótt 18. mars 2018.
  18. Yolen, Jane; Shannon, David (1995). The Ballad of the Pirate Queens. San Diego: Harcourt Brace. bls. 23–24.
  19. Captain Charles Johnson, A General History of the Robberies and Murders of the most notorious Pyrates, Chapter 8 https://ebooks.adelaide.edu.au/d/defoe/daniel/pyrates1/complete.html#section2 Geymt 18 september 2015 í Wayback Machine, skoðað 16. júní 2018.
  20. Carmichael, Sherman (2011). Forgotten Tales of South Carolina. The History Press. bls. 72.[óvirkur tengill]
  21. „Anne Bonny | Irish American pirate“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 3. mars 2018.
  22. „Anne Bonny and Famous Female Pirates“. www.annebonnypirate.com (enska). Sótt 3. mars 2018.