Aleksandr Oparín
Lífefnafræði 20. öld | |
---|---|
Nafn: | Aleksandr Oparín Александр Опарин |
Fæddur: | 2. mars 1894 Úglítsj, rússneska keisaradæminu |
Látinn | 21. apríl 1980 (86 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Helstu ritverk: | Uppruni lífsins |
Alma mater: | Ríkisháskóli Moskvu |
Helstu vinnustaðir: |
Ríkisháskóli Moskvu Vísindaakademía Sovétríkjanna |
Verðlaun og nafnbætur: |
Hetja sósíalísks verkalýðs (1969) Lenín-verðaunin (1974) Kalinga-verðlaunin (1976) Lomonosov-gullorðan (1979) |
Aleksandr Ívanovítsj Oparín (rússneska: Александр Иванович Опарин; 2. mars 1894 – 21. apríl 1980) var sovéskur lífefnafræðingur sem var þekktur fyrir kenningar sínar um uppruna lífsins.
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Aleksandr Oparín fæddist þann 2. mars árið 1894. Hann fæddist í rússneska keisaradæminu, í litlum bæ í útjaðri Moskvu að nafni Úglítsj. Hann var yngstur af þremur systkinum og í Úglítsj bjó hann til níu ára aldurs áður en hann og fjölskylda hans fluttist til Moskvu svo hann kæmist í nám.[1]
Í Moskvu útskrifaðist hann árið 1912 frá góðum einkaskóla og komst kjölfarið í nám við Ríkisháskólann í Moskvu, sem var mjög virtur. Aleksandr var ekki kominn af efnuði fólki og þurfti alfarið að halda sér uppi með vinnu utan skóla. Hann fékk vinnu í lyfjaverksmiðju og reyndist það honum dýrmæt reynsla. Sem nemandi við Háskólann í Moskvu komst hann snemma í kynni við vísindamenn sem áttu eftir að breyta hugsun hans til frambúðar, en margir af virtustu vísindamönnum landsins kenndu þar. Maður að nafni Aleksej N. Bakh var þeirra helstur og má segja að hann hafi verið sá aðili sem hvað mestu áhrifin hafði á Aleksandr, mikill fræðimaður og mjög virtur.[2]
Hinn þekkti Klíment Tímírjazev, lífeðlisfræðingur og einn helsti talsmaður þróunarkenningar Darwins í fyrrverandi Sovétríkjunum, átti einnig sinn þátt í að móta þann fræðimann sem Aleksandr átti eftir að verða.[3]
Í skólanum aflaði Oparín sér mikillar þekkingar á mörgum sviðum, þærra helst voru náttúrufræði, lífefnafræði og plöntulífeðlisfræði. Auk þess las hann nánast allar þær bókmenntir sem til voru og tengdust þróun lífs, og það sem meira var þá var hann búinn að kynnast Darwin og hans hugsjónum.[4]
Aleksandr útskrifaðist úr Háskólanum í Moskvu árið 1917, þá 23 ára að aldri. Það voru tímar óeirða í Sovétríkjunum þar sem Lenín og bolsévikar voru nýkomnir til valda og rússneska borgarastyrjöldin hafin. Aleksandr lét það lítið á sig fá enda hafði hann um mun mikilvægari málefni að hugsa. Það var ein spurning sem brann á honum meira en nokkuð annað, spurning sem hann gat ekki látið vera að glíma við, hvernig skyldi lífið hafa byrjað.[5]
Leitin að uppruna lífsins
[breyta | breyta frumkóða]Eftir útskrift vann Oparín við skólann sem aðstoðarkennari, samhliða því að taka nokkur fög til viðbótar í námi. Árið 1922 valdi skólinn hann svo til að fara til Heidelberg í Þýskalandi til rannsóknarvinnu og í kjölfarið fékk hann tækifæri á að vinna á hinum ýmsu stofum í Evrópu, sem hann og gerði.[2]
Þrátt fyrir miklar annir gat Oparín ekki hætt að þróa svör við spurningu sinni og varð það til þess að árið 1924 birti hann hugmyndir sínar í litlu riti, bækling, sem bar hið einfalda nafn Uppruni lífsins. Það má segja að með þeim kenningum sem Oparín setti fram þar hafi hann á vissan hátt brotið blað miðað við hugsunarhátt samtímamanna hans.[5]
Í bæklinginum komu fram margar kenningar sem ekki pössuðu inn í þann ramma sem vísindaheimurinn var búinn að setja sér, stönguðust á við viðurkenntar kenningar á þeim tíma. Þetta var rit eftir ungan, efnilegan og óhræddan mann og bæklingurinn alls ekki gallalaus.[4] Þrátt fyrir að vera lítið vinsæll og margbent á galla hans var lítið hægt að setja út á ýmsar pælingar sem komu fyrir í honum, sem margar eru jafnvel lykillinn af því sem vitað er í dag um uppruna lífsins.[6]
Samkvæmt Oparín gat líf aðeins orðið til eftir röð fjölda efnahvarfa sem spönnuðu langt tímabil, þúsundir milljónir ára.[7] Hann hélt því meðal annars fram að fyrsta lífveran til að koma fram í loftfirrtu umhverfi frumjarðar hlyti að hafa verið ófrumbjarga baktería. Hann áleit að ófrumbjarga baktería ætti að myndast á undan fyrstu frumbjarga bakteríunni þar sem efnaskipti ófrumbjarga bakteríu eru minna flókin en hjá frumbjarga, rökrétt að það einfaldasta kæmi fyrst fram.[4] Hann stakk einnig upp á því að líf hafi byrjað með samruna lífræns efnasambands í loftfirrðu umhverfi sem með tímanum safnaðist saman og varð að því sem í dag er kallað frumsúpa, þ.e. safnast saman í heitu vatni og við það mynduðust amínósýrur sem áttu eftir að byggja grunninn undir fyrsta lífið. Voru þetta fyrstu tilraunir „til þess að skýra í einstökum atriðum frumulífsþróun úr ólífrænu efni í hinar smæstu lífverur.“[8]
Uppruni lífsins
[breyta | breyta frumkóða]Samhliða því að þróa hugmyndir sínar áfram kenndi Oparín nú alfarið sitt eigið námskeið, lífefnafræði við háskólann. Aleksej N. Bakh, lærifaðirinn fyrrverandi, sneri aftur til Rússlands eftir að hafa flúið land í óeirðunum og hófu þeir félagarnir samstarf. Oparín hjálpaði meðal annars Bakh að koma á fót stofnun til lífefnafræðirannsókna sem fjármögnuð var af ríkinu og nefnd í höfuðið á Bakh.[1]
Bakh komst fljótlega til mikilla valda innan Kommúnistaflokksins sem varð til þess að lærlingur hans, Oparín, komst fljótlega í valdamiklar stöður. Frá 1927-1934 gegndi hann stöðu aðstoðarforstjóra Vísindastofnunar Sykuriðnaðarins. Samhliða því starfaði hann svo sem prófesor við Vísindastofnun D.I. Mendelejev og Vísindastofnun Hveitiðnaðarins. Á þessum tíma gerði Oparín fjöldann allan af rannsóknum á tei, hveiti, sykri og korni.[2]
Þrátt fyrir allt náði Oparín ekki að leggja frá sér þessa erfiðu spurningu sem hann hafði spurt sig að svo oft áður og svo kom að útkoman rannsókna hans leit dagsins ljós árið 1936, bók að nafni Uppruni lífsins. Samfélag Sovétríkjanna lék á reiðisskjálfi og kannski ekki skrítið þar sem verið var að fjalla um mjög viðkvæmt þema.[9] Flestir voru algjörlega andsnúnir þeim nýstárlegu hugmyndum sem Oparín kastaði framan í vísindasamfélagið og var það ekki fyrr en að Oparín gaf bókina út á ensku tveimur árum síðar að hjól kenninga hans fóru að snúast. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og áhrifanna gættu nú mun víðar en áður, fólk utan Sovétríkjanna kynntust hugmyndum Oparíns.[5]
Oparín sagði í fyrsta sinn skilið við efnishyggjuna og kom fram með nýjar kenningar auk þess sem hann þróaði þær eldri [10] Útfrá eigin rannsóknum ályktaði hann nú að í hinu frumstæða umhverfi hefði kolvetni myndast við hvarf gufu við kolefnissambönd af jarðfræðilegum uppruna. Oxunin myndi gefa af sér alkahól, ketón og aldehýð sem í kjölfarið myndu hvarfast við ammóníak og mynda amín, amíð og ammoníumsölt. Að lokum myndu þessi efnasambönd, svipuð próteinum, og aðrar tegundir sameinda sameinast og mynda það kerfi sem fyrstu ófrumbjarga lífverurnar hafi sprottið úr. Í bókinni kom hann einnig inná það að sameindir í kerfum fyrstu frumna hljóti að haf verið nauðsynlegar til að frumurnar gætu þróast og að hið upphaflega, loftfirrta andrúmsloft hafi verið samsett af blöndu af CH4 og H20, stórt skref fram á við frá kenningum þess tíma.[4]
Síðari æviár
[breyta | breyta frumkóða]Oparín hætti í raun aldrei að leita svara við spurningu sinni og gaf margoft út greinar og rit eftir því sem hann þróaði kenningar sínar frekar, má þar nefna aðra og þriðju útgáfur Uppruna lífsins sem komu út árin 1941 og 1957.[2]
Hann hélt fyrirlestra víða um heiminn þar sem hann kynnti hugmyndir sínar. Hann skipulagði fyrstu alþjóðlegu ráðstefnuna um uppruna lífsins í Moskvu árið 1957 þar sem fulltrúar 16 mismunandi landa tóku þátt og í framhaldinu fylgdu aðrar í kjölfarið. Oparín sinnti mörgum veigamiklum störfum í gegnum ævina og var fulltrúi Sovétríkjanna á mörgum vettvanginum, nægir þar að nefna starf hans sem forseta Alþjóðlegu lífefnafræðistofnunarinnar og forstjórastöðu hans hjá Alþjóðasambandi vísindamanna. Hann hafði þar gífurleg áhrif á allt vísindasamfélagið.[2] Hann varð heimsþekktur og var jafnvel dáður af fólki sem ekki starfaði í vísindageiranum, en gott dæmi um það er þegar Salvador Dalí fór fram á að fá að hitta hann.[11]
Fyrir framlög sín til vísindanna hlaut Oparín fjölda viðurkenninga og verðlauna en meðal þeirra eru: Orða rauna verkalýðsborðans, Bakh-verðlaunin, Metsjníkov-orðan, Lenínsorðan, Hetja sósíalísks verkalýðs, Lenín-verðlaunin og Lomonosov-gullorðan.[2]
Oparín var virkur alla ævi og vann allt til dauðadags sem forstjóri A. N. Bakh-vísindastofnunarinnar sem hann hafði hjálpað til að stofna. Hann lést að lokum eftir nokkur veikindi þann 21. apríl 1980, þá 86 ára að aldri.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Aleksandr Oparin“. Britannica Academic Edition. 2011. Sótt 5. okt. 2011.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Britannica School Edition. „Oparin, Aleksandr“. Britannica School Edition. Sótt 3. okt. 2011 2011.
- ↑ Chela-Flores, Julian. (2011). The Science of Astrobiology : A Personal View on Learning to Read the Book of Life. London:Springer Science B.V.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 Lazcano, Antonio (2011). „Historical Development of Origins Research“. New York:Cold Spring Harbor Laboratory Press: 5–10.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 Deamer, David (2011). First life: Discovering the Connections between stars, cells, and how life began. London: University of California Press, Ltd.
- ↑ Koonin, V. Eugene (2011). The Logic of Change: The Nature and Origin of Biological Evolution. New Jersey: Pearson Science.
- ↑ Meyer, C. Stephan (2000). „DNA and Other Designs“. A Monthly Journal of Religion & Public Life (102): 30–38.
- ↑ Náttúrufræðingurinn (1967). „Uppruni Lífssins“. 3 (36): 114–115.
- ↑ Boden, A. Margaret (2006). Mind as Machine: A history of cognitive science, volume 2. New York: Oxford University Press Inc.
- ↑ Fry, Iris (2000). The Emergence of Life on Earth. New Jersey: Rudgers University.
- ↑ Kritsky, M. S. (2005). „Memoirs of Aleksandr Ivanovich Oparin“. Applied Biochemistry and Microbiology. 3 (41): 316–318.