Alberto Ohaco
Alberto Ohaco | ||
Upplýsingar | ||
---|---|---|
Fullt nafn | Alberto Ohaco | |
Fæðingardagur | 12. janúar 1889 | |
Fæðingarstaður | Avellaneda, Argentína | |
Dánardagur | 8. mars 1950 (61 árs) | |
Dánarstaður | Lomas de Zamora, Argentína | |
Leikstaða | Framherji | |
Meistaraflokksferill1 | ||
Ár | Lið | Leikir (mörk) |
1911-21 | Racing Club | 278 (244) |
Landsliðsferill | ||
1912-1918 | Argentína | 23 (7) |
1 Leikir með meistaraflokkum og mörk |
Alberto Bernardino Ohaco (f. 12. janúar 1889 - d. 8. mars 1950) var knattspyrnumaður frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem lék á tveimur fyrstu Suður-Ameríkukeppnunum og er einn dáðasti leikmaður í sögu Racing Club.
Líf og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Alberto Ohaco hóf að leika með aðalliði Racing Club aðeins sextán ára að aldri, en faðir hans var einn af stofnendum félagsins. Racing Club var þá í þriðju deild en efldist hratt á þessum árum og komst í efstu deild árið 1911 með Ohaco innanborðs. Hann lék allar stöður á vellinum, jafnt í vörn sókn og jafnvel í marki, en var þó oftast nær framherji.
Racing Club átti sannkallað blómaskeið á öðrum áratugnum og í byrjun þess þriðja. Félagið varð átta sinnum argentínskur meistari á árabilinu 1913 til 1921 og kom Ohaco við sögu í öllum titlunum. Að auki vann félagið ýmsar bikarkeppnir og keppnir við lið frá grannríkinu Úrúgvæ og urðu titlar Ohaco því alls tuttugu talsins.
Ohaco lék 23 leiki með argentínska landsliðinu á tímabilinu 1912 til 1918. Í fyrstu Suður-Ameríkukeppninni sem fram fór í Argentínu 1916 skoraði hann fyrsta mark þjóðar sinnar í leik gegn Síle og varð markahæstur heimamanna á mótinu með tvö mörk. Í næstu keppni árið eftir skoraði hann aftur tvö mörk, bæði úr vítaspyrnu gegn Brasilíumönnum.
Alberto Ohaco þótti bæði prúður og tignarlegur á velli, sem skapaði honum aðdáun stuðningsmanna. Það jók einnig á dulúð hans að á flestum liðsmyndum af Racing Club var hann með slútandi hatt á höfði, sem ýtti undir sögusagnir um að hann væri að flýja skuggalega fortíð. Veruleikinn var þó sá að hann stóð í stappi við ljósmyndara félagsins sem hafði neitað að gefa leikmanninum afrit af myndum og kaus Ohaco því að hylja andlit sitt í hefndarskyni.
Hann lést árið 1950, 61 árs að aldri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Alberto Ohaco“ á spænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. desember 2023.