Fara í innihald

Valkostur fyrir Þýskaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá AfD)
Valkostur fyrir Þýskaland
Alternative für Deutschland
Fylgi 10,1%¹
Leiðtogi Tino Chrupalla og Alice Weidel
Varaleiðtogi Stephan Brandner
Peter Boehringer
Mariana Harder-Kühnel
Þingflokksformaður Tino Chrupalla og Alice Weidel
Stofnár 6. febrúar 2013; fyrir 11 árum (2013-02-06)
Höfuðstöðvar Schillstraße 9, 10785 Berlín
Félagatal 30.776 (2021)[1]
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Þýsk þjóðernishyggja, hægrilýðhyggja, öfgahægristefna
Einkennislitur Blár  
Sæti á sambandsþinginu
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða afd.de
¹Fylgi eftir þingkosningarnar 2021

Valkostur fyrir Þýskaland (þýska: Alternative für Deutschland eða AfD) er þýskur stjórnmálaflokkur sem stofnaður var árið 2013. Flokkurinn er andvígur Evrópusambandinu og er talinn íhaldssamur, þjóðernissinnaður og popúlískur auk þess sem fylkingar innan hans eru taldar öfgahægrisinnaðar og fjandsamlegar í garð innflytjenda, sér í lagi múslima.

Valkostur fyrir Þýskaland varð þriðji stærsti flokkurinn og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þýska þinginu eftir þingkosningar árið 2017. Frá þingkosningum ársins 2021 hefur flokkurinn verið fjórði stærsti þingflokkurinn og næststærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Valkostur fyrir Þýskaland var stofnaður í Berlín árið 2013 til þess að andmæla aðgerðum Evrópusambandsins til að koma aðildarríkjum evrusamstarfsins til hjálpar á tíma evrópsku skuldakreppunnar. Forveri flokksins voru samtökin Wahlalternative 2013, sem litu Evrópusambandið gagnrýnu auga.[2] Flokkurinn var formlega stofnaður þann 6. febrúar 2013 og hélt fyrsta landsþing sitt þann 14. apríl sama ár. Í upphafi voru margir fræðimenn og hagfræðingar meðal leiðtoga AfD, sem leiddi til þess að flokkurinn var stundum kallaður „prófessoraflokkurinn“.[3]

Flokkurinn hlaut 4,7 % atkvæða í kosningum á þýska sambandsþingið í september 2013. Hann náði því ekki yfir fimm prósenta þröskuldinn til að fá sæti á þinginu. Í Evrópuþingskosningunum 2014 vann AfD 7 % atkvæðanna og hlaut sjö af 96 sætum Þýskalands á Evrópuþinginu. Fimm af þessum sjö Evrópuþingmönnum sögðu sig síðar úr AfD og gengu til liðs við klofningsflokkinn ALFA.

Valkostur fyrir Þýskaland fékk fyrst kjörna fulltrúa innan Þýskalands í kosningum á landsþing Saxlands árið 2014. Sama ár náði flokkurinn kjöri á sambandsþingin í Brandenborg og Þýringalandi. Árið 2015 náðu fulltrúar hans kjöri í borgarráð Hamborgar og Bremen og næsta ár á landsþing Baden-Württemberg, Saxlands-Anhalt, Rínarlands-Pfalz, Mecklenburg-Vorpommern og Berlín. Í Mecklenburg-Vorpommern náði flokkurinn 21 prósentum atkvæða, tveimur prósentum meira en Kristilegi demókrataflokkurinn. Þótti þetta mikill táknrænn sigur gegn Angelu Merkel Þýskalandskanslara þar sem Mecklenburg-Vorpommern er heimaland hennar.[4] Í kosningum ársins 2017 fékk flokkurinn einnig kjörna þingmenn á landsþingum Saarlands, Slésvíkur-Holtsetalands og Norðurrínar-Vestfalíu.

Frá árinu 2015 voru talsmenn flokksins þau Bernd Lucke, Frauke Petry og Konrad Adam. Eftir langvarandi innanflokksdeilur voru Frauke Petry og Jörg Meuthen kjörin leiðtogar flokksins árið 2015. Bernd Lucke sagði sig hins vegar úr AfD og stofnaði nýjan flokk, ALFA. Ástæða afsagnar hans var sú að honum þótti flokkurinn, sem upphaflega hafði sér í lagi verið stofnaður til höfuðs evrunnar, hafa færst of langt til hægri í öðrum málum og væri farinn að einbeita sér um of af andstöðu gegn komu innflytjenda til Þýskalands.[5]

Eftir þingkosningar ársins 2017, þar sem Valkostur fyrir Þýskaland hlaut 94 sæti, tilkynnti Petry að hún hygðist ekki sitja með þinghópi AfD á sambandsþinginu og lýsti því yfir að flokkurinn væri „stjórnlaus“ og „gæti ekki boðið upp á trúverðuga stefnuskrá“.[6] Petry hafði átt í deilum við harðlínumenn innan flokksins á meðan á kosningabaráttunni stóð. Í kosningunum hlaut flokkurinn 12,6 % atkvæða og varð þriðji stærsti flokkurinn á sambandsþinginu á eftir Kristilegum demókrötum og Jafnaðarmönnum.[7]

Eftir brotthvarf Petry úr flokknum tók Alexander Gauland við af henni sem leiðtogi flokksins ásamt Meuthen.[8] Í nóvember 2019 tók Tino Chrupalla við af Gauland.[9]

Fylgisaukning flokksins í kosningunum 2016 og 2017 skýrist meðal annars af flóttamannakreppunni í Evrópu og andófi gegn ákvörðun Angelu Merkel kanslara um að hleypa um milljón hælisleitendum til Þýskalands.[10]

Í Evrópuþingskosningunum 2019 hlaut AfD 11 kjörna fulltrúa.[11]

Í janúar árið 2021 spurðist út að þýska leyniþjónustan hefði tekið til greina að hefja eftirlit með meðlimum AfD vegna hótana flokksmeðlima sem gengju gegn lýðræði í Þýskalandi.[12][13] Dómstólar synjuðu leyniþjónustunni síðar um eftirlitsheimild með AfD á þeirri forsendu að flokkurinn væri ekki alvarleg ógn við þjóðaröryggi Þýskalands.

Í aðdraganda Evrópuþingskosninga ársins 2024 var AfD-flokknum vísað úr Evrópuþinghópnum Sjálfsmynd og lýðræði (ID) vegna umdeildra yfirlýsinga Maximillians Krah, oddvita AfD í kosningunum, um að meðlimir SS-sveitanna hefðu ekki endilega allir verið ódæðismenn.[14] Flokkurinn hlaut um 16% atkvæða í Evrópuþingskosningunum og lenti í öðru sæti á eftir Kristilegum demókrötum.[15]

Hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Frauke Petry varð leiðtogi flokksins jók AfD andstöðu sína gegn komu innflytjenda til Þýskalands og lýsti yfir að „íslam [ætti] ekki heima í Þýskalandi“. Aðrir talsmenn flokksins hafa jafnframt gagnrýnt umræðu um mannréttindabrot og stríðsglæpi Þýskalands á tíma þriðja ríkisins og lýst yfir að Þjóðverjar ættu að mega vera stoltir af hernaðarafrekum landsins. Björn Höcke, einn af talsmönnum flokksins, hefur meðal annars gagnrýnt helfararminnismerkið í Berlín og sagt að Þýskaland væri „eina þjóð í heimi sem hefur reist minnismerki um eigin skömm í miðri höfuðborginni“.[16]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Parteimitglieder: Grüne legen zu, AfD und SPD verlieren“. RedaktionsNetzwerk Deutschland (þýska). 14. febrúar 2021.
  2. „Alternative für Deutschland will Euro abschaffen“ (þýska). Die Zeit. 3. mars 2013. Sótt 15. apríl 2021.
  3. Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 143. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 978-3-030-41772-7.
  4. Jón Bjarki Magnússon (13. mars 2017). „Þýska öfgahægrið missir flugið“. Stundin. Sótt 15. apríl 2021.
  5. Atli Ísleifsson (14. mars 2016). „Alternativ für Deutschland: Flokkur evruandstæðinga sem varð að hægriöfgaflokki“. Vísir. Sótt 15. apríl 2021.
  6. Arnhildur Hálfdánardóttir (25. september 2017). „Hugtök sem hafa ekki heyrst frá tímum Hitlers“. RÚV. Sótt 15. apríl 2021.
  7. „Merkel boðar nýja stjórn fyrir jól – klofningur innan AfD“. Varðberg. 25. september 2017. Sótt 15. apríl 2021.
  8. „„Sie war mal eine intelligente Frau" (þýska). Handelsblatt. 4. desember 2017. Sótt 15. apríl 2021.
  9. Jens Schneider; Markus Balser. „AfD-Vorsitz: Chrupalla wird Nachfolger von Gauland“ (þýska). Süddeutsche. Sótt 15. apríl 2021.
  10. „Brakvalg for høyrepopulistene i Tyskland“. VG. Sótt 15. apríl 2021.
  11. „Ergebnisse - Der Bundeswahlleiter“. bundeswahlleiter.de. Sótt 15. apríl 2021.
  12. „Íhuga eft­ir­lit með AfD“. mbl.is. 26. janúar 2021. Sótt 15. apríl 2021.
  13. Ásgeir Tómasson (3. mars 2021). „Þýskaland: Fylgst verður með AfD flokknum“. RÚV. Sótt 15. apríl 2021.
  14. Björn Malmquist (23. maí 2024). „Væringar í samstarfi hægri flokka á Evrópuþinginu“. RÚV. Sótt 12. júní 2024.
  15. Hallgrímur Indriðason (14. júní 2024). „Breytt landslag á Evrópuþinginu – áfall fyrir Macron og Scholz“. RÚV. Sótt 10. júní 2024.
  16. Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. bls. 145.