Fara í innihald

Fógetagarðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fógetagarðurinn með silfurreynirinn vinstra megin.

Fógetagarðurinn er garður við Aðalstræti í miðborg Reykjavíkur, suður af Miðbæjarmarkaðnum og austur af Hótel Uppsölum. Fógetagarðurinn er einn elsti almenningsgarður í Reykjavík. Þar er elsta gróðursetta tré í Reykjavík en það er silfurreynir sem gróðursettur var 1884. Garðurinn er á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis fyrir aftan Landssímahúsið. Í dag er garðurinn að mestu leyti hellulagður en ennþá standa upprunaleg tré. Garðurinn stendur þar sem áður var Víkurkirkjugarður, elsti kirkjugarður Reykjavíkur.

Víkurgarður var upphaflega kirkjugarður Víkurkirkju sem var lítil torfkirkja og stóð í garðinum miðjum. Hún hefur hugsanlega staðið þar allt frá upphafi kristni á Íslandi, gegnt Víkurbænum við vestanvert núverandi Aðalstræti, en elstu heimildir um hana eru kirknatal frá um 1200. Þegar til stóð að reisa dómkirkju í Reykjavík á 9. áratug 18. aldar var upphaflega hugmyndin að byggja hana utan um Víkurkirkju. Þegar grafið var í garðinum komu þar í ljós grafir fólks sem hafði látist úr bólusótt fyrr á öldinni. Því var ákveðið að velja dómkirkjunni stað austar. Þegar dómkirkjan var vígð árið 1796 var Víkurkirkja rifin. Kirkjugarðurinn var þó notaður áfram allt þar til Hólavallakirkjugarður var tekinn í notkun árið 1838.

Hans J. G. Schierbeck landlæknir reisti hús við norðurenda garðsins 1883 og fékk leyfi til að hefja þar garðrækt.[1] Garðurinn varð frægur tilraunagarður með hinar ýmsu garðjurtir og tré. Þar stendur silfurreynir sem talinn er elsta tré í Reykjavík. Þegar Schierbeck flutti til Danmerkur 1894 eignaðist Halldór Daníelsson bæjarfógeti fljótlega garðinn. Önnuðust þau hjónin Halldór og Anna María kona hans garðinn lengi af mestu kostgæfni og hlaut hann þá nafnið Bæjarfógetagarðurinn.[2] Garðurinn varð eign Reykjavíkurborgar árið 1904.[3]

Árið 1952 var hús Schierbecks flutt af lóðinni og hafist handa við að reisa þar viðbyggingu við Landssímahúsið við Austurvöll. Þar var afhjúpuð stytta af Skúla Magnússyni á vegum Verslunamannafélags Reykjavíkur þann 18. ágúst 1954, en styttan er verk Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Árið 1967 eyðilagðist húsið sem stóð við Aðalstræti 9 í eldi og var þá reist þar tveggja hæða steinsteypt verslunarhúsnæði sem fékk heitið Miðbæjarmarkaðurinn.[4] Það hús var svo hækkað um 3 hæðir árið 1993.

Árið 2017 risu miklar deilur þegar samþykkt var breyting á deiliskipulagi til að heimila stækkun hótelbyggingar í gamla Landssímahúsinu út í garðinn norðaustanverðan. Sóknarnefnd Dómkirkjunnar í Reykjavík hélt því þá fram að framkvæmdin færi í bága við yfirráðarétt Dómkirkjunnar yfir hinum forna Víkurkirkjugarði, sem hefði auk þess aldrei verið formlega aflagður. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði kæru sóknarnefndarinnar frá árið 2018 á þeim forsendum að Reykjavík hefði eignast garðinn með bréfi ráðherra Íslands frá 1904 og að garðurinn hefði verið lagður niður í reynd að minnsta kosti frá 1883.[5] Sóknarnefndin kærði þá framkvæmdina, en lögreglustjóri vísaði kærunni frá sumarið 2019.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Árni Óla (12. febrúar 1961). „Úr sögu Reykjavíkur: Fyrsti kirkjugarðurinn, seinni hluti“. Lesbók Morgunblaðsins.
  2. Ingólfur Davíðsson (19. maí 1987). „Sögulegur garður við Aðalstræti“. Tíminn.
  3. „21 og 84/2018 Kvosin – Landsímareitur“. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. 8. nóvember 2018. Sótt 13.9.2022.
  4. Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Drífa Kristín Þrastardóttir (2011). Ingólfstorg og nágrenni: Skrá yfir fornleifar og hús í vesturhluta Kvosarinnar (PDF). Minjasafn Reykjavíkur. bls. 57. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. júní 2021. Sótt 13. september 2022.
  5. „21 og 84/2018 Kvosin – Landsímareitur“. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. 8. nóvember 2018. Sótt 13.9.2022.
  6. „Lögreglustjóri vísar frá kæru vegna Víkurgarðs“. ruv.is. Sótt 13.9.2022.