Fjalakötturinn
Fjalakötturinn var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi og var í sama sal og Breiðfjörðsleikhúsið, Aðalstræti 8, Reykjavík. Þar var tekið að sýna kvikmyndir 2. nóvember 1906 og tók salurinn 300 manns í sæti. Kvikmyndasýningum lauk í Fjalakettinum 1926 og þar á eftir var salurinn notaður til allavega fundarhalda. Til dæmis voru þar uppboð (aksjón), stúkufundir góðtemplara og t.d. stjórnmálafundir kommúnistaflokksins um 1932.
Saga Reykjavíkur Biograftheater
[breyta | breyta frumkóða]Hús Valgarðs Ö. Breiðfjörðs, sem síðan var kallað Fjalakötturinn þegar húsið var farið að láta á sjá, var einnig nefnt Reykjavíkur Biograftheater, eða einfaldlega Bíó í daglegu tali þegar enn fóru fram kvikmyndasýningar í húsinu. Kvikmyndahúsið var til húsa við Aðalstræti 8, við hlið núverandi Morgunblaðshallar. Gengið var inn í kvikmyndasalinn (og leikhúsið) frá Bröttugötu í Grjótaþorpinu, en verslun Breiðfjörðs sneri út að Aðalstrætinu.
Fjalakötturinn var ekki lengi eina kvikmyndahúsið á Íslandi því árið 1912 tók Nýja bíó til starfa. Við það varð Reykjavíkur Biograftheater að Gamla bíói í hugum bæjarbúa þó það hefði vart slitið barnsskónum. Gamla bíó flutti svo á þriðja áratugnum upp á Ingólfsstræti þar sem kvikmyndasýningum var fram haldið þar til 1980. Íslenska óperan var þar frá 1980 til 2011 þegar hún flutti í Hörpuna.
Saga hússins
[breyta | breyta frumkóða]Indriði Guðmundsson sem vann við verslun Breiðfjörðs í Aðalstræti 8 segir svo frá starfsemi í húsinu: „Ég vann við afgreiðslu í nýlenduvörubúðinni, en hún var þar sem verið hefur Skóbúð Reykjavíkur. Dömubúð var þar sem nú er veitingastofa, og rak Guðrún Jónasson, síðar bæjarfulltrúi, þá búð um skeið. Bak við verzlunina var pakkhús og þar var sekkjavaran geymd og afgreidd. Undir pakkhúsinu var kjallari og þar voru vínföng. Þar var vínið tappað af ánum og þar var Rabbecks-Allé-ölið geymt. Eins og kunnugt er, er húsið geysistórt. Það var kallað „Fjalakötturinn",en ekki man ég nú af hverju sú nafngift kom. Þetta er mjög frægt hús í sögu Reykjavíkur. Þar fóru fram leiksýningar og þar hóf Leikfélag Reykjavíkur starfsemi sína, og þarna var og veitingasalur á þriðju hæð. Allt var húsið notað fyrir verzlunina, leikstarfsemina og veitingasöluna, nema hvað fjölskylda Breiðfjörðs hafði og bústað í því á annarri hæð. Einnig bjó starfsfólk og vinnufólk Breiðfjörðs. Seinna eignaðist Jóhann próki, bróðir Sig. Júl. Jóhannessonar skálds og læknis, húsið."[1]
Niðurrif
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir að þarna hafi verið rekið sögufrægt leikhús og síðar kvikmyndahús, sem sagt var elsta uppistandandi kvikmyndahús í heimi [2] var Fjalakötturinn rifinn árið 1985. Nú stendur hús Tryggingamiðstöðvarinnar á sömu lóð. Ákvörðunin um niðurrif hússins var mjög umdeild og um hana stóð töluverður styr.
Í Háskóla Íslands á áttunda áratug 20. aldar tók kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn sér nafn eftir hinum sögufræga kvikmyndasal. Nafnið var líka notað á dagskrárlið frá fyrstu árum Stöðvar 2 þar sem sýndar voru sígildar kvikmyndir á laugardögum.
Árið 2005 var opnaður veitingastaður með nafninu Fjalakötturinn í nýju hóteli Hotel Reykjavik Centrum en það var teiknað með það fyrir augum að það liti út eins og þau þrjú hús sem áður stóðu við Aðalstræti, og sá hluti byggingarinnar sem veitingastaðurinn er í er teiknaður eftir Fjalakettinum (þ.e.a.s. Breiðfjörðshúsi).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Björn Ingi Hrafnsson, Ljósin slökkt og filman rúllar [1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ V.S.V. skrifar sögu Indriða Guðmundssonar,Sunnudagsblaðið, 13. Tölublað (07.04.1963), Blaðsíða 6
- ↑ Morgunblaðið 1983,
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Fjalakötturinn; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1969
- Hákonsenshús (Fjaðrafok); grein í Lesbók Morgunblaðsins 1961
- Leikhús W.Ó. Breiðfjörðs; grein í Reykvíkingi 1896
- Hvern varðar um varðveislu Fjalarkattarins?; grein í Morgunblaðinu 1983
- Aðalstræti 8; grein í Morgunblaðinu 1984
- Fjalakötturinn rifinn; grein í Morgunblaðinu 1985
- Hvað merkir Fjalaköttur; grein í Morgunblaðinu 1984
- Greinagerð borgarminjavarðar um Fjalaköttinn; grein í Morgunblaðinu 1984