Aðalskipulag Reykjavíkurborgar
Aðalskipulag Reykjavíkurborgar er skipulagsáætlun í samræmi við skipulagslög. Aðalskipulagið er gert í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem sýnir þróun alls höfuðborgarsvæðisins í megindráttum. Deiliskipulagsáætlanir í Reykjavík eru gerðar í samræmi við aðalskipulag að hverju sinni. Taka skal ákvörðun um endurskoðun aðalskipulags á fjögurra ára fresti og skal það gilda í minnst 12 ár. Hér er farið yfir helstu upplýsingar um allar aðalskipulagsáætlanir Reykjavíkurborgar.
2010-2030
[breyta | breyta frumkóða]Upplýsingasíða Geymt 9 ágúst 2018 í Wayback Machine um aðalskipulagið með öllum texta þess og yfirliti yfir breytingar er á vef Reykjavíkurborgar.
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 sem oft er vísað til með skammstöfuninni AR2010-30, var samþykkt í borgarstjórn hinn 26. nóvember 2013. Aðalskipulagið tók gildi þann 26. febrúar 2014 með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Jón Gnarr var borgarstjóri þegar skipulagið var samþykkt. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs var Páll Hjaltason, arkitekt. Sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs var Ólöf Örvarsdóttir, arkitekt. Verkefnisstjóri aðalskipulags var Haraldur Sigurðsson, skipulagsfræðingur.
AR2010-30 var gefið út á prenti af Crymogeu 29. maí 2014[1] og ber bókin svipmót aðalskipulags Reykjavíkurborgar frá 1962 með strigaklæddri kápu.
Áherslur skipulagsins
[breyta | breyta frumkóða]Í stuttri kynningarútgáfu[2] AR2010-30 er farið yfir helstu áhersluþætti skipulagsins og breytingar frá fyrra skipulagi. Þeir eru:
- Þéttari og blandaðri byggð.
- Minna landnám og minni landfyllingar.
- Vistvænni samgöngur.
- Ákveðnari verndun opinna svæða.
- Húsnæði fyrir alla.
- Skýrari kröfur um gæði byggðar.
2001-2024
[breyta | breyta frumkóða]Aðalskipulagið öðlast gildi með auglýsingu í B deild Stjórnartíðinda 20. desember 2002. Jafnframt fellur úr gildi aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 frá 18. ágúst 1997 og aðalskipulag Kjalarness 1990-2010 frá 1. júní 1990.
Borgarstjóri var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Formaður skipulags- og bygginganefndar var Árni Þór Sigurðsson.
Áherslur skipulagsins
[breyta | breyta frumkóða]1. Að stuðla að öflugu atvinnulífi með því að:
a) Efla meginkjarna borgarinnar sem kjarna höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.
b) Styrkja framgang Þróunaráætlunar miðborgar.
c) Skapa rými fyrir fjölbreytta verslun. Svæðið frá Hlemmi til og með Fenjum og afmarkað svæði í Höfðahverfi, sem áður voru athafnasvæði, verða miðsvæði.
d) Efla miðkjarna í einstökum borgarhlutum. Svæðiskjarni í Mjódd, bæjarkjarni í Hamrahlíðarlöndum og þjónustukjarnar í Spönginni og Gufunesinu.
e) Skapa rými fyrir starfsemi í þekkingar-, tækni- og viðskiptageiranum. Þekkingar- og tæknigarðar verði á miðsvæði í Vatnsmýri og á Keldum, fjármál og skyld starfsemi í Borgartúni ásamt almennu skrifstofuhúsnæði.
f) Skapa rými fyrir fjölbreytta athafna- og þjónustustarfsemi. Athafnasvæði í Höfða- og Hálsahverfi.
g) Skapa rými fyrir landfrekar atvinnugreinar. Atvinnusvæði á Hólmsheiði, Esjumelum og Geldinganesi. Ekki skilyrt að atvinnustarfsemi á Geldinganesi tengist höfn. Vöxtur hafnar verður á fyllingum við núverandi hafnarsvæði og í Eiðsvík.
h) Stuðla að aukinni sérhæfingu atvinnusvæða.
2. Að auka gæði byggðar með því að:
a) Setja skilmála um umhverfisgæði í deiliskipulagi. Unnin verði rit um 1) þróun og uppbyggingu vistvænnar byggðar, 2) gæði byggðar í íbúðarhverfum og á atvinnusvæðum og 3) mótun hönnunarstefnu Reykjavíkur. Ritin verði leiðbeinandi við deiliskipulagsgerð. Greinargerð I, m.s.br. – síðast uppfærð 3.ágúst 2010 5 Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024
b) Stytta fjarlægðir milli íbúa og starfa. Í blandaðri byggð verði gert ráð fyrir ákveðnu hlutfalli lands undir atvinnustarfsemi til viðbótar við þjónustu og stofnanir sem þjóna íbúum viðkomandi hverfis.
c) Fjölbreytt framboð íbúðarsvæða. Á hverjum tíma verði tryggt fjölbreytt framboð íbúða á nýjum svæðum jafnt og á þéttingarsvæðum sem taki mið af þörfum húsnæðismarkaðarins hverju sinni.
d) Setja skilmála um byggðamynstur og yfirbragð byggðar. Setja ákvæði um þéttleika byggðar, blöndun landnotkunar og yfirbragð byggðar í hverju hverfi. Innan hvers skólahverfis verði fjölbreytt framboð húsagerða, minni og stærri íbúða í fjölbýli jafnt og sérbýli, til að tryggja félagslega fjölbreytni. Stefnt er að því að í deiliskipulagi íbúðarhverfa verði allt að 20% íbúða miðaðar við þarfir tekjuminni hópa og þarfir ungs fólks sem er að hefja búskap auk námsmanna, bæði hvað varðar gerð og stærð íbúða og bílastæðakröfur.
e) Viðhalda fjölbreytileika byggðar og lands. Sérkenni eldri byggðar og náttúrulegan fjölbreytileika lands og lífríkis skal varðveita sbr. ákvæði um hverfisvernd í skipulagsreglugerð. Stefnumörkun í þemaheftunum við Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016, Húsvernd í Reykjavík og Umhverfi og útivist, útgefnum 1998, gildir áfram við gerð deiliskipulags. Rit um hús- og minjavernd, sem ná til borgarinnar í heild, verði unnin innan þriggja ára. Lokið verði við aðal- og deiliskráningu fornleifa í öllu landi borgarinnar innan árs frá staðfestingu aðalskipulagsins.
f) Styrkja tengsl byggðar við náttúru- og útivistarsvæði. Mynda samfelldan vef útivistarsvæða um borgarlandið sem tengir saman hverfi, heimili, þjónustu og atvinnusvæði og tryggja góð tengsl íbúðarbyggðar við fjölbreytt náttúru- og útivistarsvæði. Fylgja skal eftir stefnumörkun í þemaheftinu Umhverfi og útivist", útgefnu 1998, við deilskipulagsgerð.
3. Að leggja áherslu á hagkvæma nýtingu lands og þjónustukerfa með því að:
a) Takmarka útþenslu þéttbýlis.
b) Mynda samfellda byggð. Byggt verði á Gufunesi og Norðlingaholti, í landi Keldna, Höllum, Hamrahlíðarlöndum og hlíðum Úlfarsfells. Sjá töflu 1. Byggt á Álfsnesi eftir 2024.
c) Þétta núverandi byggð. Gera ráð fyrir að byggðar verði um 2015 íbúðir vestan Elliðaáa og 570 íbúðir austan Elliðaáa auk þéttingar innan atvinnusvæða.
d) Endurskipuleggja vannýtt svæði. Blönduð byggð íbúða og atvinnustarfsemi rísi í Vatnsmýrinni, í Elliðaárvogi og Gufunesi.
e) Auka þéttleika byggðar. Á nýjum íbúðarsvæðum í útjaðri byggðar verði þéttleiki byggðar að jafnaði um 25 íbúðir/ha í stað stefnu um 15-20 íbúðir/ha í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.
4. Að samgöngur verði skilvirkar, öruggar og vistvænar með því að:
a) Byggja skilvirkt og öruggt samgöngukerfi. Með nýjum stofnbrautum, m.a. tengingu yfir Kleppsvík, Öskjuhlíðargöngum og Holtsgöngum ásamt afkastamiklum gatnamótum og göngubrúm. Kannaður verði möguleiki á að framlengja fyrirhugaðan stokk á Miklubraut, milli Reykjahlíðar og Snorrabrautar, lengra til austurs eftir Miklubrautinni. Einnig verði kannaður til hlítar möguleiki þess að gera göng/stokk fyrir bílaumferð eftir Hringbrautinni, frá Sæmundargötu og vestur fyrir Suðurgötu.
b) Að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar. Við hönnun umferðarmannvirkja verði umferðaröryggi haft að leiðarljósi en jafnframt verði leitast við að lágmarka sjónræn áhrif, hávaðamengun og kröfur til landrýmis. Haldið verði áfram að afmarka 30 km hverfi og tekið verði tillit til samþykktra umferðaröryggisáætlana.
c) Að auka skilvirkni vöruflutninga. Staðsetning hafnar- og athafnasvæða gagnvart helstu viðskiptasvæðum tryggi skilvirkni og efli vistvænar samgöngur.
c) Efla vistvænar samgöngur.
1996-2016
[breyta | breyta frumkóða]Samþykkt í Umferðar- og skipulagsnefnd 16. júní 1997, samþykkt í Borgarstjórn 3. júlí 1997, afgreitt af Skipulagi Ríkisins 11. ágúst 1997 og staðfest af Umhverfisráðherra 18. ágúst 1997.
Borgarstjóri var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Formaður Umferðar- og skipulagsnefndar var Guðrún Ágústsdóttir. Skipulagsstjóri var Þorvaldur S. Þorvaldsson og borgarverkfræðingur Stefán Hermansson. Aðstoðarskipulagsstjóri var Bjarni Reynarsson.
Greinargerðin var gefin út í mjúku bandi í öskju ásamt uppdráttum.
Áherslur skipulagsins
[breyta | breyta frumkóða]Helstu þættir og markmið skipulagsins eru dregnir saman í inngangi greinargerðarinnar.[3] Í framtíðarsýn eru eftirtalin atriði nefnd:
- Að Reykjavík verði vistvæn höfuðborg norðursins.
- Borgin verði miðstöð atvinnulífs, þjónustu og samgangna með hreinu yfirbragði, verndun náttúru og nýsköpun.
- Almenningssamgöngur verði góðar og aðlaðandi umhverfi fyrir hjólandi og gangandi.
- Fráveitumál verði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar
- Sorp verði flokkað og endurunnið.
- Íbúðahverfi taki mið af góðu samspili við náttúru og stuðli að heilbrigðu og fjölskrúðugu mannlífi.
- Byggingaarfurinn verði varðveittur.
- Opinberar byggingar og umhverfi þeirra sýni bygggingarlist í háum gæðaflokki
- Útivistarsvæði myndi samfellda heild og tengist útmörkinni.
- Búið sé vel að barnafólki.
- Allir íbúar búið við fjárhagslegt og félagslegt öryggi á grundvelli samhjálpar.
Þau nýmæli verða að umræðan um umhverfismál er komin á dagskrá með Ríósáttmála Sameinuðu þjóðanna 1992 og innleiðingu Staðardagskrár 21 í þessu skipulagi. Nýjar áherslur eru því tíundaðar:
- Vinna skal að sérstakri áætlun um umhverfi og samgöngur þar sem áherslur sem lúta að vistvænni samgöngum, umferðaröryggi og vistlegu umhverfi eru í forgrunni.
- Borgarvernd er endurskilgreind og nær nú til mannvirkja og hins náttúrulega umhverfis.
- Gerð er tilraun með að stofna hverfisstjórn í Grafarvogi sem vinni með þjónustumiðstöðinni en hverfisráð eru nú starfandi í öllum borgarhlutum.
- Ekki eru tilgreind ný svæði til þéttingar byggðar nema að því marki sem gildandi áætlanir segja til um en áherslan er lög á uppbyggingu í Grafarholti auk þess sem uppbygging í Geldinganesi er tilgreind. Uppbygging á Spönginni í Grafarvogi er nefnd auk iðnaðarsvæða við Gylfaflöt og í Fossaleyni og víðar við austur jaðar byggðarinnar.
- Þung áhersla er lögð á uppbyggingu Sundabrautar.
- Dregið skuli úr óheftri aukningu umferðar einkabíla.
Sameining Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps í júní 1997 hefur þau áhrif að skipulagssvæði borgarinnar stækkar sem því nemur.
1990-2010
[breyta | breyta frumkóða]Staðfest 20. febrúar 1992. Samþykkt í Borgarstjórn 17. október 1991. Samþykkt af Skipulagsstjórn ríkisins 4. desember 1991. Vinna hófst við endurskoðunina í janúar 1990. Borgarstjóri var Markús Örn Antonsson. Umsjón hafði aðstoðar forstöðumaður borgarskipulags Dr. Bjarni Reynarsson. Skipulagið var gefið út á einum uppdrætti A1 með greinargerð á bakhliðinni.
Í skipulaginu er kynnt til sögunnar uppbygging á nyrstu hverfum Grafarvogs, norðan Borgarvegar.
Nýjungar í samgöngumálum er s.k. Ósabraut sem skyldi þvera ósa Elliðaáa nyrst og tengja Ártúnshöfðann við Gelgjutanga þar sem nú er Kleppsmýrarvegur.
Gert er ráð fyrir höfn í Eiðsvík á landfyllingu sem spannar Geldinganes og Gufunes.
1984-2004
[breyta | breyta frumkóða]Staðfest af félagsmálaráðherra 27. júlí 1988. Vinna við skipulagið hófst á árinu 1984.[4]
Borgarstjóri var Davíð Oddsson. Formaður skipulagsnefndar var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Forstöðumaður Borgarskipulags var Þorvaldur S. Þorvaldsson.
þegar skipulag þetta er samþykkt tekur það við af skipulaginu 1962-1983 enda hafði aðalskipulag aldrei verið endurskoðað í heild sinni á tímabilinu. Greinargerðin var gefin út í harðspjaldabók í öskju ásamt uppdráttum.
Áherslur skipulagsins
[breyta | breyta frumkóða]Jöfn áhersla er lögð á uppbyggingu innan og utan núverandi byggðar en hafnað er áherslum sem byggja eingöngu á fyrir byggðum svæðum eða eingöngu á nýjum svæðum.[5] Þétting byggðar er með því komin á dagskrá skipulagsumræðunnar. Jafnframt koma fram áherslur um að endurlífga eldri byggð og rakin fækkun íbúa vestast í borginni sem snúa mætti við. Í útdrætti á bls XI-XII kemur eftirfarandi fram:
- Íbúðir: Lögð er til uppbygging vestan til við Meistaravelli, Granda og Skúlagötu. Austan til er ráðgert að byggja þrjú hverfi í Grafarvogi, Ártúnsholti og Selás í samræmi við breytingu þá sem gerð var á austursvæðum borgarinnar 1981.
- Miðhverfi: Lög er áhersla á að byggja upp verslun í nýju hverfunum auk Mjóddar og í Kringlunni en að gera skuli gömlu miðborgina samkeppnishæfa við verslunarmiðstöðvarnar.
- Athafnasvæði: Meginuppbygging atvinnuhúsnæðis verði í austurhluta borgarinnar.
- Samgöngur: Stofnbrautin Miklabraut-Vesturlandsvegur verði aðalumferðaræð borgarinnar áfram. Nýjar ökuleiðir sem eru nefndar: Fossvogsbraut/Hlíðarfótur, framlenging Kleppsvegar að Gullinbrú, tenging Breiðholtsbrautar að Suðurlandsvegi, frá Gullinbrú að Geldinganesi, Hringbraut verði flutt suður fyrir Landspítala. Bílastæðaþörf miðborgar er talin aukast úr 1.800 í 2.400 stæði. Ekki verði gerðar miklar breytingar á leiðkerfi SVR. Engar breytingar verði á hlutverki flugvallarins. Rými hafnarinnar vestan til verði aukið um 45% með landfyllingum og verði miðstöð fiskveiða og skipaviðgerða en Sundahöfn miðstöð flutninga.
- Opin svæði: Elliðaárdalur verði verndaður. Sunnanverður Laugardalur verði þróaður fyrir íþróttastarfsemi.
Óstaðfest skipulag 1975-1995
[breyta | breyta frumkóða]Þróunarstofnun Reykjavíkur tók til starfa árið 1972 til að endurskoða aðalskipulagið. Tillaga hennar að nýju aðalskipulagi hlaut samþykki borgarstjórnar vorið 1977, en var ekki lögð fram samkvæmt skipulagslögum og hlaut því aldrei fullnaðarafgreiðslu.[6]
Breyting - Austursvæði 1981-1998
[breyta | breyta frumkóða]Gert var sérstakt aðalskipulag fyrir austursvæði borgarinnar 1981, var Egill Skúli Ingibergsson þá borgarstjóri. Tilgangur breytingarinnar var að flytja áherslu uppbyggingar á nýju hverfi frá nágrenni Rauðavatns að Gufunesi og Keldum líkt og þá var vísað til.[7] Áherslubreytingu þessa má telja að marki upphaf þróunar Grafarvogshverfisins.
1962-1983
[breyta | breyta frumkóða]Vönduð greinargerð og tímamótaverk í íslenskri skipulagssögu. Þar komu fram ýmsar nýjungar, svo sem tvískipting skipulagsáætlana í aðal- og deiliskipulag og flokkun gatna í stofn-, tengi- og safnbrautir auk húsagatna.[6] Skipulagið er talið hafa slegið tóninn fyrir þróun Reykjavíkur fram til loka 20. aldarinnar og ráði miklu um þær áherslur sem borgin var byggð á á miklu vaxtarskeiði eftirstríðsáranna.
Oft kallað "danska skipulagið" enda var ráðgjöf í höndum danskra ráðgjafa. Greinargerðin var gefin út í strigaklæddri harðspjaldabók í stóru broti ásamt uppdráttum.
Borgarstjóri var Geir Hallgrímsson.
Tillaga 1927
[breyta | breyta frumkóða]Skipulagsuppdráttur af Reykjavík innan Hringbrautar þar sem má sjá hugmyndir um að stakstæð hús í austurbænum víki fyrir samfelldri randbyggð, lestarstöð er sýnd í Norðurmýri og íþróttavöllur sunnan Sundhallarinnar svo eitthvað sé nefnt.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Crymogea [1][óvirkur tengill]
- ↑ Kynningarrit um nýtt aðalskipulag.[2] Geymt 15 maí 2016 í Wayback Machine
- ↑ Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016, bls 9-12.
- ↑ Sveitarstjórnarmál 52. árgangur 1992, bls 143.
- ↑ Aðalskipulag Reykjavíkur 1984-2004, bls 31
- ↑ 6,0 6,1 Aðalskipulag Reykjavíkur 1984-2004, bls. 9
- ↑ Vísir, 30. apríl 1981, bls 16-17