Þorleifur Repp
Þorleifur Repp (1794 – 4. desember 1857) var íslenskur fræðimaður, þýðandi. Hann var talinn með gáfuðustu mönnum landsins. Hann var einnig kennari, fornminja- og bókasafnari, stjórnmálamaður og blaðamaður. Hann bjó 12 ár í Edinborg, þar sem hann starfaði sem bókavörður við The Advocates' Library. Hann átti þar 4 börn. Afkomendur þeirra búa enn í Bretlandi. Þorleifur var nafnkunnur víða erlendis að gáfum, málfræði og annarri fjölvísi. Hann er einnig þekktur í hugum almennings fyrir að hafa misst skapið við meistaravörn sína. Hann var rekinn úr henni og vörnin dæmd ógild.
Þýðandinn Repp
[breyta | breyta frumkóða]Þorleifur var fæddur í Reykjadal í Hrunamannahreppi 6.júlí 1794, sonur Guðmundar prests Böðvarssonar prests þar og á Kálfatjörn. Reppsnafnið mun dregið af nafni sveitarinnar, sem þá var oftast kölluð Hreppar eða Ytri-Hreppur. Þorleifur lagði mikla stund á málvísindi, heimspeki og fagurfræði. Hann hataðist við Dani og flutti því til Bretlands, þar sem hann gerðist aðstoðarbókavörður við The Advocates' Library. Frítíma sínum eyddi hann í fræðistörfin og þýðingar af ýmsu tagi. Repp kunni fjölda tungumála: Hann talaði minnst 5 mál, var vel skrifandi á um 12 og rannsakaði í kringum 40. Andrew Wawn hefur sagt um Repp að hann hafi verið frábær þýðandi og bætti við: „Sagt er að menn eigi ekki að þýða [Íslendinga]sögurnar á ensku nema vera jafnvígir á bæði tungumálin og það var raunin með Repp, hann var því sem næst tvítyngdur“. Fátt kom út eftir hann af þýðingum hans. Andrew heldur því þó fram að slík bók, þ.e. þýðingar hans á fornsögunum, hefði breytt sögu íslenskra fræða á Bretlandi á nitjándu öld. Hann hefði sett ný viðmið í þýðingum íslenskra fornbókmennta á ensku. [1] Þorleifur þýddi einnig margt annað, t.d. ensk kvæði á dönsku og Laxdæla sögu á latínu.
Aðstoðarbókavörðurinn Repp
[breyta | breyta frumkóða]Repp fékk stöðu aðstoðarbókavarðar í The Advocates' Library gegnum Rasmus Rask. Hann hafði bent yfirmönnum bókasafnsins á Repp. Repp var einstaklega hæfur í starfið. Hann var mjög vel lesinn á latínu og grísku. Repp var mjög spenntur fyrir starfinu en það endist ekki lengi. Þar heyrði hann undir David Irving aðalbókavörð en þeim kom mjög illa saman. Eftir stuttan tíma fór Irving að ásaka Repp um lygar og rangfærslur. Þessi rýgur endist allan þann tíma sem Repp vann undir honum. Dæmi má nefna að Repp skildi eitt sinn eftir nafnlausan miða á skrifborði Irvings. Á miðanum var sonnettubrot á ítölsku eftir Ludovico Ariosto, þar mátti lesa úr að bókavörðurinn væri latur og illa innrættur. Þar var auðvelt að rekja miðann til Repps, eina meðlims bókasafnsins sem talaði reiprennandi ítölsku. Árið 1837 var ákveðið að kjósa um hvort Repp skyldi halda áfram störfum sínum. Hann var kosinn í burtu með litlum mun.[2]
Andlát Repps og greftrun
[breyta | breyta frumkóða]Þorleifur lést í Kaupmannahöfn eftir langa og þunga legu. Síðasta ósk Þorleifs var að hann yrði fluttur til Íslands til greftrunar. Hann hafði illan bifur á Danmörk og Dönum. Dr. Jacobsen, borgarlæknir í Höfn og tryggðarvinur Repps, balsamaði lík hans. Hann var síðan settur í kistu, alfóðraða innan með blýi. Hún beið í Holmens kirkju-kapellunni í Kaupmannahöfn fram að vori. Þá var hún send heim með póstgufuskipinu. [3] Líkið var borið í hús tryggðarvinar hans, Helga biskups Thordersens. Hann gerði þá ættingjum og tengdafólki viðvart. Hann fékk líka Prestaskólastúdenta, góða söngvara, til þess að hefja hinn framliðna til kirkju.
Þorleifur Repp var svo jarðsettur frá Dómkirkjunni. Allt fyrirkomulag við jarðarförina var á borð við landshöfðingja. Dómkirkjan var full, allir embættismenn í Reykjavík voru viðstaddir og allir skólasveinar sem fengu leyfi. [4]
Eitt og annað
[breyta | breyta frumkóða]- Þorleifur hafði mikla skömm á Dönum. Hann sagði t.d. eitt sinn að aldrei hefði nokkur maður haft nokkurt gagn af nokkurri danskri bók. [5]
- Þorleifur hafði að orðtaki: Gaa aldrig paa akkord med sletheden, þ.e. sættu þig aldrei við óþokkaskapinn. [6] Stephan G. Stephansson íslenskaði „Vertu aldrei vinnumaður varmennskunnar." [7]
- Gísla Brynjúlfssyni, skáldi, þótti höfuðkostur Repps að hann íslenskaði allt með afli í Fjölni . [8]
- Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson hafði að orðtaki, að menn væru fátækir eins og Repp. Hann dó í Danmörku við sárustu fátækt. [9]
- Andrew Wawn, prófessor við Leeds á Englandi, skrifaði bókina The Anglo Man, Studia Islandica um Repp. Hún fjallar um störf Repps í Bretlandi.
Nokkrar bækur eftir Repp
[breyta | breyta frumkóða]- Et classisk Hexameter: eller en Epistel Vers med en Commentar om og til Dr. Gustav Ludvig Baden - 1823, Kaupmannahöfn.
- "Bør et Digt oversættes i samme Versart, hvori det er skrevet?": en Undersøgelse henhørende til Metriken og den empiriske Sprogphilosophie - 1824, Kaupmannahöfn.
- Laxdæla-saga: sive historia de rebus gestis Laxdölensium: ex manuscriptis Lagati Magnæani cum interpretatione Latina, tribus dissertationibus ad calcem adjectis et indicibus tam rerum qvam nominum propriorum - 1826, Kaupmannahöfn.
- Carmen ad illustrissimum conitem Carolum Grey - 1834, Edinborg.
- Classical and modern philolgy. - 1834, Edinborg.
- Dano-Magyariske opdagelser. - 1843, Kaupmannahöfn.
- Ferrall og Repps dansk-engelske ordbog. - A dictionary of the Danish and English languages - 1845, Kaupmannhöfn. (Fyrsta útg), 1845, London. (Fyrsta útg).
- Udkast til en organisk constitution for Danmark - 1848, Kaupmannahöfn.
- Select poems with a literal Danish version and notes: udsögte engelske digte for damer, for skoler og for studerende: med en bogstavelig dansk oversættelse afdelt i verslinier, samt nogle noter - 1852, Kaupmannahöfn.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Lesbók Morgunblaðsins 13. sept. 2008
- ↑ Andrew Wawn. 1991. The Anglo Man: Þorleifur Repp, Philology and Nineteenth-Century Britain. Studia Islandica. Nr. 49. Bls. 175.
- ↑ Þjóðólfur 1858[óvirkur tengill]
- ↑ Morgunblaðið 1958[óvirkur tengill]
- ↑ Morgunblaðið 1989[óvirkur tengill]
- ↑ „Morgunblaðið 1968“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. mars 2016. Sótt 13. september 2008.
- ↑ Grein í Samtíðinni 1944
- ↑ „Lesbók Morgunblaðsins 1991“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júlí 2011. Sótt 13. september 2008.
- ↑ Lesbók Morgunblaðsins 13. sept. 2008