Fara í innihald

Þýska ríkjasambandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þýska ríkjabandalagið)
Þýska ríkjasambandið árið 1820. Prússland er sýnt blátt, austurríska keisaradæmið gult og önnur aðildarríki grá. Rauða línan markar endimörk sambandsins.

Þýska ríkjasambandið (Deutscher Bund á þýsku) var samband 39 þýskra ríkja í Mið-Evrópu sem varð til eftir Vínarfundinn árið 1815 til þess að samhæfa efnahagi þýskumælandi landa og koma í stað hins Heilaga rómverska ríkis sem Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hafði leyst upp árið 1805.[1] Flestir sagnfræðingar telja ríkjasambandið hafa verið veikburða og jafnvel þrándur í götu stofnunar Þýskalands sem þjóðríkis.[2] Þýska ríkjasambandið hrundi vegna ágreinings milli Prússlands og austurríska keisaradæmisins, vegna hernaðar í kjölfar ýmissa evrópskra byltinga árið 1848, þýskra byltinga árið 1849 og skorts á vilja ríkjanna til að miðla málum.

Árið 1848 reyndu byltingarmenn úr röðum frjálslyndis- og þjóðernissinna að mynda sameinað þýskt þjóðríki með frjálslynda stjórnarskrá eftir nefnd skipaða í Frankfurt. Viðræður milli þýsku ríkjanna mistókust sama ár og ríkjasambandið var lagt niður í stuttan tíma en endurreist stuttu síðar, árið 1850.[3] Ríkjasambandið var ekki leyst upp fyrir fullt og allt fyrr en eftir ósigur Austurríkismanna í stríði þeirra við Prússa árið 1866.

Ágreiningur milli tveggja voldugustu aðildarríkjanna, Austurríkis og Prússlands, um það hvort ríkið ætti tilkall til að ríkja yfir Þýskalandi, endaði eftir sigur Prússa gegn Austurríkismönnum árið 1866. Þetta leiddi til stofnunar norður-þýska ríkjasambandsins undir forystu Prússa árið 1867. Mörg suður-þýsku ríkjanna urðu áfram sjálfstæð þar til þau gengu til liðs við norður-þýska ríkjasambandið, sem varð síðan að þýska keisaraveldinu árið 1871. Konungur Prússlands varð keisari þess eftir sigurinn gegn Napóleon III Frakkakeisara í fransk-prússneska stríðinu árið 1870.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. German Confederation, Encyclopædia Britannica.
  2. Lee, Loyd E. (1985). „The German Confederation and the Consolidation of State Power in the South German States, 1815–1848“. Consortium on Revolutionary Europe, 1750–1850: Proceedings. 15: 332–346. ISSN 0093-2574.
  3. Deutsche Geschichte 1848/49 Geymt 18 október 2007 í Wayback Machine, Meyers Konversationslexikon 1885–1892