Fara í innihald

Útlendingurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útlendingurinn
HöfundurAlbert Camus
Upprunalegur titillL'Étranger
ÞýðandiBjarni Benediktsson (1961)
Ásdís R. Magnúsdóttir (2008)
LandFáni Frakklands Frakkland
TungumálFranska
StefnaHeimspekileg skáldsaga
ÚtgefandiGallimard
Útgáfudagur
19. maí 1942
Síður159
ISBNISBN 9979316233

Útlendingurinn (franska: L'Étranger) er skáldsaga eftir franska rithöfundinn Albert Camus sem kom út árið 1942. Fyrstu drögin að henni voru skrifuð árið 1938 en bókin tók ekki á sig mynd fyrr en 1940 og Camus vann að henni til ársins 1941. Bókin er hluti af fjórleik sem Camus kallaði „hring fáránleikans“ og fjallaði um heimspekistefnu hans, sem fólst í absúrdisma. Hin verkin í fjórleiknum voru ritgerðin Le Mythe de Sisyphe og leikritin Caligula og Le Malentendu.

Bókin hefur verið þýdd á 68 tungumál og er þriðja mest lesna skáldsaga sem rituð hefur verið á frönsku, á eftir Litla prinsinum eftir Saint-Exupéry og Sæfaranum eftir Jules Verne. Kvikmynd eftir bókinni kom út í leikstjórn Luchino Visconti árið 1967.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Saga Útlendingsins gerist í Alsír, sem þá var frönsk nýlenda. Aðalpersónan er skrifstofumaður að nafni Meursalt sem biður einn dag um frí í vinnunni til að vera viðstaddur jarðarför móður sinnar, sem hefur dvalið á elliheimili síðustu ár ævinnar. Við kistu látinnar móður sinnar sýnir Meursalt engar sterkar tilfinningar, heldur kveikir hann á sígarettu og fær sér kaffi.[1] Daginn eftir jarðarförina hefur Meursalt ástarsamband við fyrrverandi samstarfskonu sína, Marie.[2]

Dag einn býður nágranni Meursalt, Raymond, þeim Marie að verja sunnudegi með sér í húsi við ströndina. Á ströndinni hitta þau alsírskan Araba sem Raymond á í deilum við og Raymond særist í áflogum við hann. Stuttu síðar er Meursalt einn á ströndinni og mætir þá aftur Arabanum, sem dregur upp hníf. Meursalt skýtur Arabann fjórum skotum með byssu Raymonds með þeim afleiðingum að Arabinn lætur lífið.[2]

Seinni hluti sögunnar fjallar um fangavist, yfirheyrslur og réttarhöld Meursalt vegna drápsins. Í þessum hluta hefur Meursalt lítið til málanna að leggja og svarar spurningum af hreinskilni. Réttinum misbýður svo mjög skeytingsleysi Meursalt, sér í lagi í lagi fálæti hans við jarðarför móður hans, að svo fer að hann er dæmdur til dauða. Prestur býður honum flóttaleið undan dauðadómnum með því að fá hann til að afneita trúleysi sínu en Meursalt neitar að fara eftir þessu. Sögunni lýkur með Meursalt í fangaklefanum þar sem hann bíður aftöku sinnar.[2] Látið er í veðri vaka að hann hafi ekki verið dæmdur til dauða fyrir morðið á Arabanum, heldur fyrir að vera samkvæmur sjálfum sér og neita að fara eftir óskráðum leikreglum hins borgaralega samfélags.[3]

Viðtökur[breyta | breyta frumkóða]

Útlendingurinn fékk blendnar viðtökur þegar bókin kom upphaflega út. Einu ári eftir að verkið kom út skrifaði Jean-Paul Sartre grein um það þar sem hann staðhæfði að Camus væri „betri rithöfundur en heimspekingur“.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ásdís R. Magnúsdóttir (1. júní 2017). „Maður á strönd og leitin að jafnvægi: Um Útlendinginn eftir Albert Camus og Meursault, contre-enquête eftir Kamel Daoud“. Tímarit Máls og menningar. bls. 78-89.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Ásdís R. Magnúsdóttir (1. janúar 2011). „Útlendingur og óviti: Um Útlendinginn eftir Albert Camus og Söguna um gralinn eftir Chrétien de Troyes“. Milli mála. bls. 11-28.
  3. Albert Camus (2008). „Eftirmáli“. Útlendingurinn. Þýðing eftir Ásdísi R. Magnúsdóttur. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. bls. 256–257. ISBN 9979316233.