Únst

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimsins þægilegasta strætóskýli?

Únst er ein af nyrstu eyjum Hjaltlandseyja og tilheyrir Skotlandi. Hún er nyrsta byggða ból Bretlandseyja.

Únst er að mestu grasi vaxin og sjávarhamrar margir. Helsta þorpið heitir Baltasund, og var áður fyrr næststærsti síldarútgerðarstaður Hjaltlandseyja, á eftir Leirvík. Þar er flugvöllur eyjarinnar. Meðal annarra byggða má nefna Eyjasund, þar sem eru forn vöruskemma Hansakaupmanna og kastali, (byggður 1598). Haraldarvík er annað þorp, þar sem er bátasafn og byggðasafn.

Fólk með fasta búsetu á Únst, og nágrannaeynni Fetlar, var 806 talsins samkvæmt manntali 2001; af þeim unnu margir við ratsjárstöð breska flughersins þar til henni var lokað 2006, þannig að yfir 100 manns misstu vinnuna. [1].

Únst gerir tilkall til margra „nyrstu“ meta Bretlandseyja. Smáþorpið Skaw er til að mynda nyrsta byggð Bretlandseyja. Vitinn á Miklu-Flugey rétt undan norðurströnd Únst var tekinn í notkun 1858 og er nyrsti viti Bretlandseyja og er ekki fjarri Útstakki, nyrsta skeri Bretlandseyja.

Únst býr yfir fjölskrúðugu fuglalífi, ekki síst í Hermaness-friðlandinu. Þar þrífst einnig hjaltneskt músareyra, afbrigði sem ekki þekkist annars staðar.

PURE Geymt 4 febrúar 2016 í Wayback Machine (Promoting Unst Renewable Energy) er verkefni sem er í gangi á Únst, og miðar að því að koma upp félagslega rekinni orkuveitu, byggðri á vetnisframleiðslu.

Frá Belmont á Únst sigla ferjur til Gutcher á Yell-eyju og Oddsstaðar á Fetlar.

Á eynni er strætóskýli sem þykir dæmalaust snoturt og heitir Bobby's Bus Shelter. Það hefur verið innréttað af íbúunum og skartar legubekk, sjónvarpi, tölvu og fleiri heimilislegum þægindum.

Ekki er vitað hvað nafn eyjarinnar þýðir, en talið er að það gæti verið komið úr tungumáli Pikta.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1]