Fara í innihald

Étienne Cabet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Étienne Cabet. Mynd eftir Antoine Maurin.

Étienne Cabet (1. janúar 1788 - 9. nóvember 1856) var franskur lögfræðingur, stjórnmálamaður, blaðamaður, upphafsmaður Íkaríuhreyfingarinnar og einn af mörgum hugsuðum útópísks sósíalisma.

Ævi og störf í Evrópu

[breyta | breyta frumkóða]

Cabet fæddist í Dijon í Frakklandi 1. janúar 1788. Faðir hans var beykir en Cabet fékk að stunda nám við lögfræði. Hann starfaði í Dijon sem lögfræðingur til 1825 þegar hann flutti til Parísar. Í París hélt hann í félagsskap lýðveldissinna og tók þátt í júlíbyltingunni 1830. Ári seinna var hann kosinn til fulltrúadeildinnar sem fulltrúi Dijon.

Cabet mislíkaði íhaldssemi nýju ríkisstjórnarinnar og gekk til liðs við rótæka vinstrimenn. Hann gagnrýndi júlíbyltinguna harðlega í ritum sínum 1832 og ári seinna stofnaði hann vinstrisinnaða dagblaðið La Populaire, eða Hið vinsæla.

Árið 1834 var Cabet ákærður og dæmdur sekur um uppreisn og fékk að velja um tveggja ára fangelsisdóm eða fimm ára útlegð. Cabet kaus útlegðina og flutti til Englands. Í Englandi kynnti hann sér betur verk útópíska sósíalistans Robert Owen.[1]

Cabet sneri aftur heim til Frakklands 1839 og þar skrifaði hann skáldverkið Voyage en Icarie, eða Ferðin til Íkaríu, sem fjalar um útópíska samfélagið í hinu ímyndaða landi Íkaríu.[1] Í Íkaríu er allt einsleitt og samrætt og ríkið ræður lögum og lofum í þágu almúgans. Þessa stefnu kallaði Cabet kommúnisma og var hann fyrstur til að nota hugtakið.[2]

Árið 1847 ákvað Cabet að láta Íkaríu verða að veruleika og auglýsti að hann hafði keypt eina milljón ekrur af landi við Red River í Texas og óskaði eftir sjálfboðaliðum til að stofna samfélag eins og hann lagði fyrir í Ferðinni til Íkaríu. Ári seinna lögðu 70 landnámsmenn af stað frá Frakklandi en Cabet sjálfur varð eftir til að fylgjast með framför febrúarbyltingarinnar í von um að vinstri öfl myndu taka völdin. Cabet stofnaði félag fyrir róttæka vinstrisinna og aðra útópíska sósíalista en félagið entist stutt og Cabet var handtekinn enn á ný. Cabet sat ekki lengi inni og lagði leið sína til Íkaríu 1849.[1]

Búferli til Íkaríu

[breyta | breyta frumkóða]

Landnámsmönnum hafði fjölgað umfram hina upprunalegu 70 en Íkaría leystist upp vegna amalegs loftslags og sóttar auk deilna um útdeilingu landsvæðisins. Cabet safnaði þeim Íkörum sem eftir voru og 480 landnámsmenn numu nýtt land við Nauvoo sem er á landamærum Missouri og Illinois sem Mormónar höfðu áður numið en síðar yfirgefið.

Í september 1849 var Cabet dæmdur sekur að honum fjarverandi í Frakklandi og hann sneri aftur heim til að áfrýja máli sínu. Hann var sýknaður en sneri ekki aftur til Íkaríu og dvaldi í Frakklandi nokkurt skeið. Hann íhugaði að ganga í frönsk stjórnmál enn á ný, jafnvel bjóða sig fram til forseta, en afnám annars franska lýðveldisins fékk hann til að snúa aftur til Íkaríu 1852.[1]

Útlegð og andlát

[breyta | breyta frumkóða]

Cabet bjó í Íkaríu þangað til í október 1856 þegar Íkaríubúar gerðu Cabet og hans helstu stuðningsmenn útlæga vegna harðstjórnarlega aðferða hans. Cabet hraktist til St. Louis þar sem hann dó úr heilablæðingu í nóvember sama ár.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Etienne Cabet“. www.hetwebsite.net. Sótt 8. september 2024.
  2. Tesfa Yesus Mehari (2002). A short history of economic thought. University of Groningen. bls. 150-151. ISBN 90-367-1748-5.