Ástríkur og bændaglíman
Ástríkur og bændaglíman (franska: Le Combat des chefs) er frönsk teiknimyndasaga og sjöunda bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1966, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote frá október 1964 til ágúst 1965. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1975.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Rómversku foringjarnir Glóbus Glákasíkus (franska: Langélus) og Falskus Fláríkus (franska: Perclus) í herbúðunum Tótórum leggja á ráðin um hvernig sigrast megi á íbúum Gaulverjabæjar. Þeir hyggjast nýta gamla hefð, bændaglímu, sem felst í því að gallverskir höfðingjar mega skora hver annan á hólm og leggja völd sín að veði. Í þessu skyni ákveða þeir að notast við Ofrík Hrokríkus (franska: Aplusbégalix), Gallahöfðingja sem er mikill Rómverjavinur. Ofríkur treystir sér ekki til að etja kappi við Aðalrík allsgáða fyrr en Rómverjarnir heita því að losna fyrst við seiðkarlinn Sjóðrík.
Hópur rómverskra hermanna gerir misheppnaða tilraun til að ræna Sjóðríki, en Steinríkur alvaski hendir óvart bautasteini í höfuð Sjóðríks sem missir ráð og rænu. Íbúar Gaulverjabæjar eru því töfradrykkslausir þegar Ofríkur skorar Aðalrík á hólm. Þeir láta Sjóðrík sulla saman seyðum í veikri von um að rambi á töfradrykkinn fyrir slysni, en afráða loks að sækja annan seiðkarl sem jafnframt stundar geðlækningar, Sálsýk Geðveilan (franska: Amnésix) í von um hjálp. Illu heilli verður Sálsýkur einnig fyrir bautasteini Steinríks og glatar glórunni.
Bændaglímudagurinn rennur upp og útlitið er dökkt. Fyrir tilviljun rambar Sjóðríkur þó á að sulla saman seyði sem læknar hann af minnisleysinu. Hann bruggar töfradrykkinn í skyndi og mætir á vettvang bardagans. Við það eitt að sjá seiðkarlinn heilbrigðan hleypur Aðalríki kapp í kinn og hann sigrar bardagann töfradrykkjarlaus. Rómversku hermennirnir vilja ekki una úrslitunum en eru gjörsigraðir í bardaganum. Aðalríkur fyrirgefur Ofríki og leyfir honum að halda völdum, enda sá síðarnefndi orðinn ljúfur sem lamb eftir þungt höfuðhögg.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Bókin nefnist Ástríkur og bændaglíman á titilsíðu og kili íslensku útgáfunnar, en á forsíðu er hún þó kölluð Ástríkur og æðisleg bændaglíman.
- Aðalbjörg, eiginkona þorpshöfðingjans Aðalríks birtist í fyrsta sinn í bókaflokknum. Hún er þó ekki nafngreind og útlit persónunnar átti eftir að breytast mikið í seinni sögum.
- Sagan er ein fárra í bókaflokknum þar sem Ástríkur og Steinríkur leggjast ekki í ferðalög, heldur halda sig heima í þorpinu allan tímann.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Ástríkur og bændaglíman var gefinn út af Fjölvaútgáfunni árið 1975 í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar.