Fara í innihald

Árni Thorsteinson (tónskáld)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Árni Thorsteinson (15. október 187016. október 1962) var tónskáld og ljósmyndari í Reykjavík. Foreldrar hans voru Árni Thorsteinson, landfógeti og alþingismaður, og kona hans Soffía Kristjana Johnsen.

Árni ólst upp í Landfógetahúsinu við Austurstræti í Reykjavík. Eftir stúdentspróf frá Lærða skólanum árið 1890 hélt hann til lögfræðináms í Kaupmannahöfn. Þar sneri hann sér smám saman að tónlistinni auk þess sem hann lærði ljósmyndun, en lögfræðiáhuginn dofnaði.

Eftir heimkomuna 1897 stofnaði hann ljósmyndastofu og starfrækti fram á ár fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mikill hluti þeirra mannamynda sem hann tók á þessu tímabili komst síðar í vörslu Þjóðminjasafnsins.

Samhliða ljósmyndastörfunum hafði Árni umsjón með brunavirðingum húsa í Reykjavík í umboði dansks tryggingafélags. 1918–1929 starfaði hann hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands og hjá Landsbanka Íslands 1929–1940.

Árni tók virkan þátt í tónlistarlífi Reykjavíkur, enda söngmaður mikill. Söng hann m.a. með söngflokkunum kátir piltar og 17. júní. Þekktastur varð hann þó fyrir tónsmíðar sínar. Um aldamótin tók hann til við að semja lög við kvæði ýmissa góðskálda og urðu mörg þeirra fljótt vinsæl, einkum eftir að þau fyrstu komu út á prenti árið 1907.

Árni kvæntist Helgu Einarsdóttur 15. september 1900 og áttu þau fjögur börn: Árna, Soffíu, Jóhönnu og Sigríði.

Lög eftir Árna Thorsteinson

[breyta | breyta frumkóða]
  • Við ljóð eftir Steingrím Thorsteinson:
    • Björkin
    • Blómið og sólin
    • Dagur er liðinn
    • Draumur hjarðsveinsins
    • Ég veit eitt hljóð svo heljarþungt
    • Kvöldklukkan (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Nafnið (12 einsöngslög, prentuð 1907)
    • Oft finnst oss vort land eins og helgrinda hjarn [Miðsumarsdraumur]
    • Sof nú, mitt barn
  • Sólskinsskúrir (12 einsöngslög, prentuð 1907)
    • Sólu særinn skýlir (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Svanasöngur á heiði
    • Tí-tí (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Verndi þig englar
    • Vetrarnótt
  • Við ljóð eftir Guðmund Guðmundsson:
    • Austurfjöll
    • Dáin er Svava
    • Fallin en frá fegursta rósin í dalnum (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Fjólan
    • Friður á jörðu (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Fögur sem forðum (12 einsöngslög, prentuð 1907; Einsöngslög, 1922)
    • Hafmærin syngur
    • Heim til fjalla
    • Kirkjuhvoll (12 einsöngslög, prentuð 1907; Einsöngslög, 1922)
    • Kveðja (minningarljóð um Jón Þorkelsson rektor)
    • Rósin (12 einsöngslög, prentuð 1907; Einsöngslög, 1922)
    • Rýkur mjöll yfir rennslétt svell (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Sumarkvöld til fjalla
    • Vorgyðjan kemur (12 einsöngslög, prentuð 1907; Einsöngslög, 1922)
  • Við ljóð eftir Jónas Hallgrímsson:
    • Dalvísur (12 einsöngslög, prentuð 1907)
    • Einbúinn
    • Illur lækur
    • Nú er vetur úr bæ
    • Skrælingjagrátur
    • Vorið góða, grænt og hlýtt (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Þar, sem háir hólar
    • Þú stóðst á tindi Heklu hám (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
  • Við ljóð eftir Hannes Hafstein:
    • Áfram (12 einsöngslög, prentuð 1907; Einsöngslög, 1922)
    • Er sólin hnígur
    • Gleði
    • Meðalið (12 einsöngslög, prentuð 1907)
    • Söngkonan
    • Vagga, vagga
    • Valagilsá (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Þess bera menn sár (12 einsöngslög, prentuð 1907)
  • Við ljóð eftir Þorstein Gíslason:
    • Drynja sköll í skýjahöll [Þrumur]
    • Hún sveif þar yfir vogi (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Lát koma vor með klið og söng (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Ljómar sjór af sólarloga
    • Ljósið loftin fyllir (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Sóleyjan
    • Sumarkvöld
    • Við Geysi 1921 [Konungskoman]
    • Örninn (12 einsöngslög, prentuð 1907)
  • Við ljóð eftir Einar H. Kvaran:
    • Dauðinn ríður (Þrjú lög úr Lénharði fógeta, prentuð 1913)
    • Landið mitt (Þrjú lög úr Lénharði fógeta, prentuð 1913)
    • Taflið (Þrjú lög úr Lénharði fógeta, prentuð 1913)
  • Við ljóð eftir Jón Thoroddsen:
    • Hlíðin mín fríða
    • Ó, fögur er vor fósturjörð (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
    • Vindur blæs og voðir fyllir breiðar
  • Við ljóð eftir Bjarna Jónsson frá Vogi:
    • Móðurkveðja
    • Nú lætur æskan lúðra gjalla
    • Sumargleði
    • Til Íslands
    • Öll él birtir upp um síðir (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
  • Við ljóð eftir Grím Thomsen:
    • Kvöldriður á galdraöldinni (Einsöngslög, prentuð 1922)
    • Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn (10 sönglög fyrir karlakóra, prentuð 1921)
  • Við eigið ljóð:
    • Ísland, vort land (í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930)
  • Annað:
    • Sigursöngur (á 25 ára afmæli G.T.-reglunnar á Íslandi)
    • Liberty (við enskt kvæði)
    • Hier in diesen erdbeklommen Lüften (við þýskt kvæði)
    • ýmis nafnlaus lög við ýmis tækifæri.