Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson (fæddur 14. mars 1972) er íslenskur knattspyrnumaður, þjálfari og sjúkraþjálfari.
Knattspyrnuferill
[breyta | breyta frumkóða]Ásmundur fæddist á Húsavík, sonur hjónanna Arnars S. Guðlaugssonar og Bergþóru Ásmundsdóttur. Þau áttu bæði að baki íþróttaferil hjá Fram, Arnar í knattspyrnu og handknattleik og Bergþóra í handbolta. Systkini hans eru Guðlaugur handknattleiksþjálfari og Elva Björg handknattleikskona.
Meistaraflokksferill Ásmundar hófst sumarið 1988 þegar hann lék með liði Völsungs, sextán ára að aldri. Hann skoraði sitt fyrsta mark í leik gegn Valsmönnum á Hlíðarenda. Völsungar féllu þetta sumar og lék Ásmundur með liðinu í annari og þriðju efstu deild næstu misserin. Hann lék með Þór frá Akureyri á árunum 1991-93, uns hann gekk aftur til liðs við uppeldisfélagið Völsung árið 1994. Hann var fyrirliði Húsvíkinga sem unnu sér sæti í næstefstu deild haustið 1995 eftir nokkra bið og lék með liðinu árið eftir.
Ásmundur gekk í herbúðir Framara fyrir sumarið 1997. Hann varð annar af tveimur markahæstu mönnum liðsins, með sex mörk í sautján leikjum á sinni fyrstu leiktíð. Árið eftir varð hann markakóngur með átta mörk, þrátt fyrir að leika sem kantmaður en ekki framherji. Sumarið 1999 datt hann snemma móts úr byrjunarliði Fram og var þá lánaður til Skallagríms í næstefstu deild. Aftur hóf Ásmundur leik með Framliðinu sumarið 2000 en hvarf fljótlega á braut. Hann gekk til liðs við Breiðablik, þar sem hann skoraði fjögur mörk í sex leikjum, þar af eitt í lokaumferðinni á móti Fram, sem var nærri búið að senda Framliðið niður um deild.
Enn á ný gekk Ásmundur til liðs við Fram fyrir leiktíðina 2001. Hann lék í stöðu framherja og skoraði 10 mörk, sem tryggði honum silfurskóinn í deildinni það ár. Ásmundur lék fáeina leiki með Framliðinu sumarið 2002 uns hann gekk aftur í raðir Völsunga og varð markahæstur leikmanna liðsins með ellefu mörk í tíu leikjum.
Þjálfaraferill
[breyta | breyta frumkóða]Ásmundur tók við þjálfun Völsungsliðsins fyrir sumarið 2003, auk þess að leika með liðinu. Húsvíkingar höfðu mikla yfirburði og sigruðu í 2. deild. Árið eftir hafnaði liðið í sjötta sæti í næstefstu deild undir stjórn Ásmundar, sem lagði skóna á hilluna í lok leiktíðar.
2005 tók hann við stjórn 1. deildarliðs Fjölnis. Fjölnir tefldi fram mikið breyttu liði frá fyrra ári. Fjölnismenn höfnuðu í fjórða sæti í deildinni, þrátt fyrir að tapa tíu af átján leikjum sínum. Var þetta þó besti árangur Grafarvogsliðsins fram að því. Árið eftir gerðu Fjölnismenn enn betur þegar liðið náði þriðja sæti eftir harða baráttu við HK og Þrótt um úrvalsdeildarsætið. Fjölnismönnum tókst loks í þriðju tilraun að komast upp í efstu deild með því að hafna í þriðja sæti 1. deildar sumarið 2007, en þrjú lið fóru upp vegna fjölgunar í úrvalsdeild. Jafnframt komst Fjölnir í fyrsta sinn í úrslitaleik bikarkeppninnar, þar sem liðið tapaði fyrir FH í framlengdum leik.
Fjölnir hafnaði í sjötta sæti á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeild sumarið 2008 og er það enn í dag besti árangur liðsins í deildarkeppni. Jafnframt komst Fjölnir í undanúrslit bikarkeppni KSÍ. Árið eftir gekk hins vegar allt á afturfótunum og Fjölnir hafnaði í tólfta og neðsta sæti. Félagið hélt þó tryggð við þjálfarann, sem stýrði Fjölnisliðinu sumrin 2010 og 2011 í næstefstu deild. Niðurstaðan varð fjórða og fimmta sæti.
Haustið 2011 sagði Ásmundur skilið við Fjölnisliðið en færði sig í Árbæinn þar sem hann tók við stjórn Fylkis. Fylkisliðið hafnaði í sjöunda sæti úrvalsdeildar árið 2012, áttunda sumarið 2013 og því sjötta sumarið 2014, sem alltaf var heldur betri árangur en spá forráðamanna úrvalsdeildarfélaganna gerði ráð fyrir. Í júlíbyrjun 2015 ákvað stjórn knattspyrnudeildar Fylkis að segja Ásmundi upp störfum, en liðið var um þær mundir í sjöunda sæti deildarinnar. Síðar í sama mánuði tók Ásmundur við stjórn ÍBV-liðsins, sem þá sat í fallsæti. Hann stýrði liðinu til loka leiktíðar og héldu Eyjamenn sæti sínu í deildinni. Skömmu efitr lok Íslandsmótsins var tilkynnt um ráðningu Ásmundar Arnarssonar sem aðalþjálfara 1. deildar liðs Fram.
Ásmundi var óvænt sagt upp störfum á miðju sumrinu 2017, þrátt fyrir að Framliðið væri í efri hluta deildarinnar. Hann þjálfaði stúlknalið Breiðabliks sumarið 2018 en tók við karlaliði Fjölnis fyrir leiktíðina 2019.