Fara í innihald

Sauðfé

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sauðfé
Swaledale-kind
Swaledale-kind
Ástand stofns
Húsdýr
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Klaufdýr (Artiodactyla)
Ætt: Slíðurhyrningar (Bovidae)
Undirætt: Geitfé (Caprinae)
Ættkvísl: Ovis
Tegund:
O. aries

Tvínefni
Ovis aries
Linnaeus (1758)
Hjörð af sauðfé í Patagonia, Argentína

Sauðfé (fræðiheiti: Ovis aries) eru ullarklædd, fjórfætt jórturdýr (ættkvísl Ovis). Sauðfjárkyn eru talin upprunin í fjallendum Tyrklands og Írans (fræðiheiti Ovis orientalis), en vísbendingar eru um það sauðfjárkyn frá því um 9.000 f.Kr.[1]

Sauðfé er hóp- og flóttadýr sem getur hlaupið undan óvini sínum. Við meiri ræktun og aukna áherslu á kjötgæði hefur hraði dýrsins minnkað umtalsvert. Þó hefur náttúrulegum óvinum fækkað, því nú er fénu víðast hvar haldið innan girðingar og eftirlit haft með því. Margar sauðfjártegundir eru hyrndar til að verjast árás en einnig til að berjast um tign og stöðu í fjárhópnum. Einnig eru til hnýflóttar kindur (sem hafa lítil og/eða óregluleg horn) og kollótt fé, sem hefur ekki horn.

Fengitími ánna er hjá flestum kynjum að hausti og kallast það að kindin sé blæsma, eða gangi, 30 til 36 klukkustundum fyrir egglos. Beiðslishringurinn tekur 16 til 17 daga, það er að ærnar ganga á svo margra daga fresti. Meðganga er nokkuð mismunandi milli tegunda, en algeng lengd er 142 dagar. Þegar ærin fæðir afkvæmi sitt kallast það burður. Mjög algengt er að ærnar eigi 2 lömb hver, en bæði færri og fleiri afkvæmi eru einnig algeng. Ekki gengur burðurinn alltaf sem skyldi og því þarf maðurinn stundum að grípa inn í, sérstaklega ef lömbin eru flækt saman, þau komi einungis með höfuð aftur í grind eða komi á afturlöppunum. Við eðlilegan burð liggur höfuð lambsins milli beggja framlappanna.

Mislitar Merino-kindur

Í heiminum eru margar sauðfjártegundir sem hafa ólíka eiginleika. Sumar eru ræktaðar til kjötframleiðslu, aðrar til ullarframleiðslu og sumar til mjólkurframleiðslu. Margar tegundir búa yfir ólíkum eiginleikum, t.d. íslenska sauðkindin, sem bæði er nýtt til kjöt- og ullarframleiðslu. Ólíkar tegundir hafa ólíka liti og líkamsbyggingu, auk þess sem ullin er ólík milli þeirra. Sumar tegundir hafa í raun ekki ull, heldur eru frekar hærðar og missa undirhárin (þelið) á sumrin og haustin. Þessar tegundir þrífast frekar þar sem er heitt í veðri og eru einnig vinsælar sem tómstundadýr eða félagar.

Líffræði

[breyta | breyta frumkóða]

Litaerfðir

[breyta | breyta frumkóða]

Sauðfé hefur 3 megin-litaerfðasæti, A-, B- og S-sæti. A-sæti hefur 5 erfðavísa sem erfast eftir röðinni, mest ríkjandi efst en

  • Awh sem kallar fram hvítan lit og ríkir yfir öllum öðrum litum í A-sæti
  • Ag - grátt
  • Ab - golsótt
  • At - botnótt, en grunnliturinn ræðst af grunnlit í B-sæti
  • Agt - grábotnótt, en deilt er um hvort erfðavísirinn er til eða ekki
  • a - hlutlaus, litur skilgreindur í B-sæti kemur fram

B-sætið segir til um hvort kind verður svört eða mórauð. Svart, B, ríkir yfir mórauðu, b. Þannig er arfhrein svört kind með erfðavísinn BB, arfblendin svört Bb en mórauð bb. Til að litur í B-sæti komi fram þarf að vera aa-erfðavísir í A-sæti.

S-sætið segir til hvort kind verði einlit eða tvílit (flekkótt). Einlitt er ríkjandi yfir tvílitu svo flekkóttar kindur eru allar með ss-erfðavísi. Í hvítum kindum kallar S-sætið fram gult (ríkjandi) eða hreinhvítt sé kindin arfhrein víkjandi (ss).

Afkvæmi kinda kallast lömb, hrútlömb eru karlkyns en gimbrar kvenkyns. Fullorðin kvenkyns kind kallast ær en karlkynið nefnist hrútur. Geltur hrútur kallast geldingur fyrsta veturinn en síðar sauður. Kindur á fyrsta vetri kallast einu nafni gemlingar eða gemsar.

Móðurlaus lömb sem gefið er úr pela eða flösku kallast heimalningar (heimaalningar) eða heimalingar, heimagangar eða pelalömb. Lömb sem eru móðurlaus en fá ekki mjólk úr pela kallast graslömb.

Menningararfur

[breyta | breyta frumkóða]
Hrúturinn (Aries), fyrsta stjörnumerki dýrahringsins. Myndin er fengin úr gömlu stjörnukorti.

Í kristinni trú merkir lamb hið saklausa og góða en jafnframt var Jesús Kristur góði fjárhirðirinn. Fjárhirðar koma fram á fleiri stöðum í kristinni trú, en einnig í gyðingdómi, þar sem gyðingar fagna frelsi sínu frá Egyptalandi.

Hrúturinn (Aries) er eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Tímabil hrútsins varir frá vorjafndægri 21. mars til 19. apríl samkvæmt vestrænni stjörnuspeki, en frá 19. apríl til 13. maí samkvæmt Hindúatrú og austurlenskri stjörnuspá.

Orðið sauður hefur verið notað sem meinyrði á karlmönnum gegnum tíðina. Ef karlmaður er borinn saman við sauð, þá er verið að benda á karlrembu, sóðaskap eða fávisku.

  1. Groundbreaking Scientific Experiments, Inventions & Discoveries of the Ancient World; ISBN 0-313-31342-3
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Domestic sheep“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. júní 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Aries“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. júní 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Even-toed ungulate“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. júní 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Sau“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. júní 2006.
  • „Hrútaskrá Sauðfjársæðingarstöðvar Suðurlands 2005-2006“ (PDF). Sótt 9. júní 2006.