Wikipedia:Grein mánaðarins/12, 2020

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rússlandsherför Napóleons var innrás í Rússland sem Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hélt í árið 1812. Aðalástæða hennar var sú að Rússland hafði dregið sig úr meginlandskerfi Napóleons; viðskiptabanni gegn Bretlandi sem átti að knésetja þennan helsta keppinaut franska keisaraveldisins.

Í upphafi innrásarinnar stóðu Frakkar betur að vígi en Rússar og bjuggu yfir mun fjölmennari herafla. Frakkar hertóku Moskvu þann 7. september 1812 en eftir það snerist gæfan Rússum í vil. Frakkar neyddust til að hörfa frá gagnáhlaupi Rússa þar sem Rússar eyddu eigin mat og birgðum frekar en að leyfa Frökkum að komast yfir þær og því gat Napóleon ekki haldið uppi her sínum með rússneskum afurðum líkt og hann hafði ætlað sér. Frekar en að takast á við her Napóleons á hans forsendum beittu Rússar skæruhernaði gegn Frakkaher á meðan hann neyddist til að hörfa. Síðan leiddu sjúkdómar, kaldur vetur auk hörku rússneskra hermanna og borgara til þess að Napóleon beið ósigur. Þessi afgerandi ósigur Napóleons markaði þáttaskil í Napóleonsstyrjöldunum og dró svo úr hernaðaryfirburðum Frakka að Napóleon neyddist til að segja af sér árið 1814.

Napóleonsstyrjaldirnar settu mark sitt á rússneska menningu. Lev Tolstoj skrifaði um Rússlandsherförina í skáldsögu sinni, Stríð og friði. Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj var einnig fyrir innblæstri frá henni þegar hann samdi 1812-forleikinn. Í seinni heimsstyrjöldinni fór innrás Þjóðverja í Sovétríkin á svipaðan hátt.