Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2020

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hundrað ára stríðið var stríð á milli Frakka og Englendinga sem stóð með hléum í 116 ár, eða frá 1337 til 1453. Meginástæða stríðsins var að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar eftir að hin gamla ætt Kapetinga dó út með Karli 4. árið 1328. Valois-ætt tók þá við í Frakklandi en Játvarður 3. Englandskonungur, systursonur Karls, taldi sig réttborinn til arfs. Stríðið var háð að langmestu leyti í Frakklandi og lauk með því að Englendingar misstu öll lönd sín í Frakklandi fyrir utan Calais og nánasta umhverfi.

Heiti þessara stríðsátaka, hundrað ára stríðið, er seinni tíma hugtak sem sagnfræðingar nota yfir tímabilið. Stríðinu hefur einnig verið skipt niður í þrjú til fjögur styttri tímabil: Játvarðsstríðið (1337-1360), Karlsstríðið (1369-1389), Lankastrastríðið (1415-1429) og svo síðasta tímabilið, þar sem Jóhanna af Örk kom fram á sjónarsviðið og síga fór smátt og smátt á ógæfuhliðina hjá Englendingum.

Stríðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þótt það væri fyrst og fremst átök á milli konungsætta varð það til þess að þjóðerniskennd mótaðist bæði með Englendingum og Frökkum, ný vopn komu fram á sjónarsviðið (til dæmis langboginn) og ný herkænskubrögð drógu úr mikilvægi gömlu lénsherjanna, sem einkennst höfðu af þungvopnuðum riddaraliðssveitum. Í stríðinu komu stríðsaðilar sér upp fastaherjum, þeim fyrstu í Evrópu síðan á tímum Rómverja, og þurftu því ekki lengur að treysta á liðstyrk bænda í sama mæli og áður. Vegna alls þessa og vegna þess hve lengi stríðið stóð er það með mikilvægustu átökum miðalda.