Wikipedia:Gæðagreinar/Adam Smith
Adam Smith (skírður 16. júní 1723 – 17. júlí 1790) var skoskur heimspekingur og er meðal áhrifamestu hagfræðinga allra tíma. Smith er einnig einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar og mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Rit hans Auðlegð þjóðanna, sem kom út 1776, var ein fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun viðskipta og iðnaðar í Evrópu. Óumdeilt er að ritið hefur haft mikil áhrif á alla kenningasmíð um efnið allar götur síðan. Smith greiddi þannig veginn fyrir tilurð hagfræðinnar en auk þess er rit hans enn þá eitt helstu rita um kapítalisma.
Adam Smith fæddist í smábænum Kirkcaldy í Skotlandi, faðir hans var tollgæslumaður en hann lést um hálfu ári fyrir fæðingu Adams. Fæðingardagur hans er óþekktur en vitað er að hann var skírður þann 16. júní 1723. Þegar Adam var aðeins fjögurra ára gamall rændi hópur sígauna honum en maður nokkur sem átti leið hjá lét vita af staðsetningu barnsins og því tókst að endurheimta hann heilu og höldnu. Á árunum 1729-37 stundaði Adam nám í latínu, stærðfræði, sögu og skrift við Burgh-grunnskólann.