Fara í innihald

Valréttarsamningur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vilnun)

Valréttarsamningur (e. option) er ein tegund afleiða þar sem einn aðili hefur gert samning við annan um möguleikann á því að eiga viðskipti um einverja tiltekna undirliggjandi eign á ákveðnum degi í framtíðinni, eða á ákveðnu tímabili, við fyrirfram ákveðnu verði. Valréttarsamningurinn er afleiða vegna þess að verðmæti valréttarsamningsins er háð verðmæti hinnar undirliggjandi eignar á þeim degi sem viðskiptin geta átt sér stað. Valréttarsamningar eru stundum kallaðir vilnanir.

Valréttarsamningar er svo kallaðir vegna þess að annar aðilinn að samningnum getur valið hvort hann nýtir sér réttinn til þess að eiga viðskiptin eða ekki.

Í því tilviki að valréttarsamningurinn er um kauprétt (e. call option) er valrétturinn í höndum þess sem kaupir, en í því tilviki að um sölurétt (e. put option) er að ræða er valrétturinn í höndum þess sem selur.

Sá sem á réttinn þarf yfirleitt að greiða hinum fyrir eða uppfylla einhverja aðra skyldu t.d. að vinna hjá viðkomandi yfir eitthvert tímabil einsog tíðkast þegar gerðir eru kaupréttarsamningar við starfsmenn.

Dæmi um kauprétt

[breyta | breyta frumkóða]

Hugsum okkur 1. janúar hafi Jón og Guðrún samið um að Guðrún hafi rétt til, en ekki skyldu, að kaupa af Jóni hlutabréf í Hlut hf. að nafnvirði 1 milljón króna þann 1. júlí á genginu 5, þ.e. borga fimm krónur fyrir hverja krónu nafnverðs og þar með 5 milljónir fyrir öll hlutabréfin. Ef markaðsverð bréfa í Hlut hf. er hærra en 5 þann 1. júlí þá er þetta verðmætur samningur fyrir Guðrúnu. Ef gengið er til dæmis 5,5 þennan dag þá er samningurinn (5,5-5)*1.000.000 eða 500.000 króna virði. 500.000 krónur eru munurinn á því sem Guðrún þarf að greiða Jóni fyrir að kaupa bréfin af honum samkvæmt samningnum þann 1. júlí og því sem hún hefði þurft að borga ef hún hefði keypt bréfin á markaðsverði af öðrum. Ef gengið hefði hins vegar orðið lægra en 5, til dæmis 4, þá hefði samningurinn verið einskis virði því að það hefði ekki borgað sig fyrir Guðrúnu að nýta hann. Stundum er sagt að sá sem hefur keypt sölurétt hafi tekið ,,stöðu með“ hinni undirliggjandi eign, þ.e. hafi trú á að hún hækki í verði.

Dæmi um sölurétt

[breyta | breyta frumkóða]

Ari og Birna gætu til dæmis samið um að Ari hafi rétt en ekki skyldu til að selja Birnu 1 milljón evra fyrir krónur 1. nóvember næstkomandi á genginu 90, það er 90 krónur fyrir hverja evru. Ef gengi evrunnar er lægra en 90 þennan dag, þá er samningurinn einhvers virði fyrir Ara. Ef gengið er til dæmis 80 þá er samningurinn 10 milljóna króna virði fyrir Ara og hann mun vilja nýta hann. Ef gengið er hærra en 90 þennan dag þá er samningurinn einskis virði fyrir Ara og hann nýtir hann ekki. Ari þarf væntanlega að greiða Birnu eitthvað fyrir að selja Ara söluréttinn. Sumir valréttir eru þannig að ekki er kveðið á um réttinn til að eiga viðskipti á tilteknum degi heldur á ákveðnu tímabili. Til dæmis gæti verið samið um rétt til að kaupa 1.000 hluti í IBM á genginu 100 dalir á hlut hvenær sem er næstu þrjá mánuði. Stundum er sagt að sá sem hefur keypt kauprétt hafi tekið ,,stöðu gegn“ hinni undirliggjandi eign, þ.e. hafi trú á að hún lækki í verði. Önnur leið til þess að taka stöðu gegn einhverjum verðmætum er að taka svokallaða skortstöðu í þeim.

Vörn gegn áhættu

[breyta | breyta frumkóða]

Valréttarsamninga er hægt að nýta í margvíslegum tilgangi, t.d. sem vörn gegn áhættu. Hugsum okkur til dæmis fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi sem er með útgjöld í krónum en tekjur í evrum. Það gefur út verðskrá í evrum að vori og selur þjónustu yfir sumarið. Þegar sumarið er gert upp að hausti þarf það að greiða starfsmönnum og birgjum í krónum með evrunum sem það fékk. Ef gengi evrunnar gagnvart krónu lækkar á þessum tíma (þ.e. gengi krónunnar styrkist) þá verður fyrirtækið fyrir gengistapi. Ef tekjurnar eru til dæmis 1 milljón evra og gengi evrunnar lækkar úr 90, því sem fyrirtækið gerði ráð fyrir, í 80, þá verða tekjur þess í krónum 10 milljónum lægri en gert var ráð fyrir.

Hægt væri að verja sig gegn þessu með því til dæmis að kaupa af banka að vori sölurétt á milljón evrum á tilteknu gengi að hausti. Þá væri sölurétturinn vörn gegn gengisáhættu. Gallinn við vörnina er að hún getur verið dýr en það fer þó eftir því hvaða verði samið er um. Þannig er réttur til að selja á 90 dýrari en réttur til að selja á 80 enda sá síðari allt að 10 milljónum króna verðmætari þegar upp er staðið. Ef gengið er 70 þegar upp ef staðið þá er rétturinn til að selja hverja evru á 90 krónur 20 milljóna króna virði en rétturinn til að selja á 80 einungis 10 milljóna króna virði.

Söluréttur á evru hefur þann eiginleika að verja einungis gegn óhagstæðum sveiflum (gengislækkun evrunnar) en fyrirtækið myndi njóta gengishækkunar evrunnar til fulls og þá ekki nýta söluréttinn. Ódýrara kann að vera fyrir fyrirtækið að gera framvirkan samning um sölu á evru en þá ver það sig fyrir gengislækkun en nýtur ekki gengishækkunar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]