Viðeyjarbiblía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Viðeyjarbiblía, 1841, er sjötta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Viðey á Sundum, í prentsmiðju Ólafs Stephensens.

Á titilblaði stendur: Biblía, Það er: Heilög ritning. Í 5ta sinni útgéfin[sic], á ný yfirskoðuð og leiðrétt, að tilhlutun ens íslenska Biblíu-félags. (Er í raun 6. útgáfa)[1]

Á fyrri hluta 19. aldar fór af stað vakning um málrækt, sem náði inn á svið kirkjunnar. Hið íslenska biblíufélag var stofnað 1815, og vildu forráðamenn þess sníða af Biblíunni dönskuskotið málfar og þýða nákvæmar eftir frumtextunum, en þekking á þeim hafði aukist mikið. Um 1818 var byrjað að endurskoða Nýja testamentið og kom það út í tveimur hlutum í Viðey 1825 og 1827. Geir Vídalín biskup var meðal þýðenda, ásamt kennurum Bessastaðaskóla og fleirum. Árið 1827 var ákveðið að endurskoða Gamla testamentið. Að því stóðu Árni Helgason prestur í Görðum, og kennarar á Bessastöðum, einkum Sveinbjörn Egilsson. Biblían kom svo út í Viðey árið 1841.

Dómur sögunnar er að þarna hafi margt verið afar fagurlega þýtt, enda skáld að verki. Einkum þykir Sveinbjörn Egilsson hafa unnið gott verk, en hann þýddi Aðra Mósebók, Esajas (= Jesaja), Ezekíel, Daníel, alla hina minni spámenn (frá Hósea til Malakí) og Opinberun Jóhannesar, alls 17 rit. Er hann sagður hafa þýtt úr frummálunum, hebresku og grísku. Alþýðlegur blær var á orðavali í anda Fjölnismanna. Fræðimenn eru sammála um að Viðeyjarbiblía sé mikil framför frá útgáfunum í Kaupmannahöfn 1747 og 1813.

Viðeyjarbiblían telst vera fyrsta nýþýðing Biblíunnar á íslensku, þ.e. þar sem textinn er endurþýddur í heild sinni.

Vandað var til útgáfunnar, bókin er í stærra broti en Grútarbiblían, prentuð með gotnesku letri, eins og aðrar bækur Viðeyjarprentsmiðju. Varðveittar biblíur eru yfirleitt í alskinnsbandi og stundum gyllt á kjöl. Viðeyjarbiblía var gefin út í 1.400 eintökum og kostaði hvert eintak 4 ríkisdali og 48 skildinga.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 1. október 2006.
  • Jón Árnason: Æfisaga Sveinbjarnar Egilssonar. Framan við Ljóðmæli Sveinbjarnar Egilssonar, Rvík 1952.
  1. Eins og fram kemur í bókaskrám og grein Sigurðar Ægissonar er þetta 6. útgáfa