Málrækt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Málrækt er það þegar málhafi leggur rækt við málfar og vandar mál sitt án þess að úr verði ofvöndun. Málrækt er einnig hugtak sem haft er um þá menningarstefnu þar sem lögð er áhersla á að efla tungumálið sem samskipta- og tjáningartæki í víðum skilningi og gæta þess að breytingar á því verði ekki svo gagngerar að sögulegt samhengi rofni.

Málrækt Íslendinga[breyta | breyta frumkóða]

Málrækt var helsti boðskapur Fjölnismanna, sem börðust fyrir því í tímariti sínu, að menn vönduðu mál sitt. Með skrifum sínum þar létu þeir hverja hugsun njóta sín á klassískri íslensku, og létu málrækt sína varða ris þjóðarinnar til betri tíma. Þeir börðust gegn því að menn slettu dönsku („tyggðu upp á dönsku“) og vonuðust til þess að landar sínir myndu hreinsa hugsun sína með betra málfari og þannig einnig aukið sér menntun og virðingu meðal þjóða. Þeir áttu sér brautryðjanda í Baldvini Einarssyni sem skrifaði í Ármann á Alþingi:

„En það væri hin mesta skömm ef vér nú týndum móðurmálinu, þessum gimsteini, sem forfeðurnir hafa nú varðveitt í landinu, lengur en um 900 ár, og eftirlátið eftirkomurunum til ævinlegrar minningar um uppruna þjóðarinnar, og hennar forna heiður; er afturför í tungumálunum jafnan samfara afturför í hugarfari og velgegni sjálfra þjóðanna, þeirra er á þau mæla.“ [1]

Seinna skrifaði Jón Sigurðsson álíka klausu í Ný félagsrit:

„Og það er sannreynt í allri veraldarsögunni, að með hnignun málsins hefur þjóðunum hnignað, og viðrétting þess eða endursköpun hefur fylgt eða öllu heldur gengið á undan viðréttingu og endursköpun þjóðanna.“

Sama hugsun er einnig að finna í einu ljóða Stephan G. Stephansson:

Ið greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð
er skemmdir á tungunni að vinna.

Hinn danski Rasmus Kristján Rask skrifaði einu sinni um mikilvægi þess að forðast miklar umbreytingar á tungunni þegar hann ræddi tilgang Bókmenntafélagsins:

„Þetta gamla tungumál er það eina sem íslands þjóð hefir eftir af sínum fyrri blóma. Hennar makt og eigin stjórn er farin, hennar skógarrækt og akuryrkja er engin. Hennar skipagangur og ríkdómur er ekki töluverður; ekkert er eftir henni til ágætis nema sú en forna tunga sem allar þjóðir á Norðurlöndum þurfa að stunda til þess að útskýra vel sín eigin tungumál. Þykir því vel vert að bera sig að vanda hana af ýtrasta megni og láta hana ekki umbreytast í neinu né spillast eður tapast af hirðuleysi, og að vaka yfir því er einmitt þessa félags [Bókmenntafélagsins] tilgangur og áform." [2]

Helgi Hálfdanarson, þýðandi, varaði við of miklu frjálslyndi við málrækt og taldi viturlegt að halda fast í íhaldsemina. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1984 og segir meðal annars:

„Oft heyrist sagt, að mál hljóti að breytast, það sé eðli þess að taka ýmislegum breytingum, og er það stundum kallað náttúrleg og jafnvel æskileg þróun lifandi máls. Þetta er að því leyti rétt, að tungumál breytist „sjálfkrafa" og líður reyndar smám saman undir lok, ef ekki er sinnt um að varðveita það. Hitt sýnir öðru fremur menningarstig hverrar þjóðar, hversu annt hún lætur sér um að varðveita tungu sina. Ég vil því ljúka þessu spjalli á sama hátt og ég er vanur, þegar íslenzka málrækt ber á góma, og rifja upp þau tvö boðorð, sem ég tel þar skipta mestu máli: Hið fyrra er íhaldsemi; og hið síðara er gífurleg íhaldsemi“. [3]

Um rétt og rangt[breyta | breyta frumkóða]

Málrækt snýst oft um það sem er rétt og rangt í málfari þjóðar og einstaklings. Erfitt getur verið að greina í sumum tilfellum hvort hefð sé fyrir „villu“ og hversu gömul villan þarf að vera til að hún teljist vera orðin hluti af málsögu tungumálsins, eða málvenju svonefndri. Engar fastar reglur eru til um þetta, heldur er oftast stuðst við þær málvenjur sem bundið hafa saman tunguna í máli þjóðarinnar. Höskuldur Þráinsson segir í Skímu, málgagni móðurmálskennara, árið 1985:

Ég held að það sé nauðsynlegt að gera skólanemendum skýra grein fyrir hugtökunum rétt, rangt, gott og vont í máli. Langeðlilegast er að fara þá leið sem Baldur Jónsson fer í margnefndu erindi sínu að útskýra fyrir mönnum að rétt er það sem samrýmist einhverri málvenju, rangt það sem fer í bága við allar málvenjur... [4]

Skólarnir og málrækt[breyta | breyta frumkóða]

Skólum á Íslandi hefur löngum verið legið á hálsi fyrir að stuðla ekki að eflingu tungumálsins, sérstaklega fyrir að leggja of mikla áherslu á stafsetningu og málfræði í lægri bekkjum, en svo til ekkert á tjáningu eða orðaskilning. Halldór Laxness segir frá því í Vettvángi dagsins, sem kom út árið 1941, að:

Það er rexað árum saman í únglingum skólana útaf y og z, tvöföldum samhljóða og kommusetníngu í stað raunhæfrar lífrænnar ástundunar á auðæfum túngunnar, enda árángurinn sá að menn útskrifast ósendibréfsfærir vegna orðfæðar úr skólum þessum, óhæfir til að láta í ljós hugsanir sínar svo mynd sé á í rituðu máli, hrokafullir reglugikkir sem bera lítið skynbragð á stíl og mál...

Laxness bæti við þetta fálæti skólans frammi fyrir auðlegð tungunnar í Gjörníngabók sinni, sem kom út 1958, en þar segir hann:

Tröllmögnuð skólagánga allra þjóðfélagsþegna hefur ekki heldur komið í veg fyrir það að hér gángi fólk um götu sem hefur glutrað niður íslensku túngutaki í öllum þessum skólum, svo jafnvel ólæsar öskukellíngar í afdölum voru betur máli farnar til skamms tíma. Að hafa gott mál var eitt meðal annars talið til andlegs þrifnaðar fyrrum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Morgunblaðið 1994
  2. Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1990
  3. Í bakkafullan læk; grein í Morgunblaðinu 1984
  4. Skíma, málgagn móðurmálskennara 1. tölublað 1985

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]