Vanda Sigurgeirsdóttir
Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir (f. 28. júní 1965) er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrum formaður Knattspyrnusambands Íslands. Vanda er landskunn íþróttakona og lék bæði með landsliðinu í fótbolta og körfubolta. Hún er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta, er fyrsta konan sem þjálfaði kvennalandsliðið í fótbolta og varð formaður KSÍ fyrst kvenna.[1]
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Vanda ólst upp á Sauðárkróki og foreldrar hennar eru Sigurgeir Angantýrsson (1939-2012) verkstjóri hjá Sauðárkrókskaupstað og Dóra Þorsteinsdóttir (1946-2009) starfsmaður við Bókasafnið á Sauðárkróki.[2] Eiginmaður Vöndu er Jakob Frímann Þorsteinsson (f.1969) og eiga þau þrjú börn.
Menntun og störf
[breyta | breyta frumkóða]Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, námi í tómstundafræði við Lýðháskólann í Gautaborg í Svíþjóð árið 1989, meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Háskóla Íslands árið 2003[3] og stundar nú doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti.[4] Hún starfaði um árabil í félagsmiðstöðinni Ársel í Árbæ, fyrst frá 1986-1987, og sem aðstoðarforstöðumaður frá 1989-1993 og forstöðumaður frá 1993-1997.[2] Hún hefur verið lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands frá árinu 2008. Frá 1998-2002 gegndi Vanda stöðu varaborgarfulltrúa fyrir hönd Reykjavíkurlistans.
Knattspyrnuferill
[breyta | breyta frumkóða]Vanda hóf knattspyrnuferil sinn með strákaliði Tindastóls á Sauðárkróki er hún var 9 ára gömul.[5] Hún fluttist til Akureyrar og settist á skólabekk í menntaskóla og lék þá í fyrsta sinn með kvennaliði er hún gekk til liðs við KA.[6] Hún lék einnig síðar með ÍA og Breiðablik. Síðasti leikur hennar í úrvalsdeild var með Tindastóli árið 2008 og stóð hún þá í marki í fyrsta sinn á ferlinum, þá 43 ára gömul, en hún var kölluð inn í liðið með klukkustundarfyrirvara vegna meiðsla markmanns liðsins.[7]
Á árunum 1985-1996 spilaði Vanda 37 leiki með kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu og var lengst af fyrirliði landsliðsins. Hún var spilandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks frá 1994-1996, var landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins frá 1997-1999 fyrst kvenna,[8] þjálfari KR frá 1999-2003, þjálfari hjá Tindastóli frá 2005-2007[9] og hjá Þrótti frá 2012-2013.[10]
Árið 2001 varð Vanda fyrsta konan á Íslandi til að vera ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu er hún var ráðin þjálfari þriðju deildarliðs Neista frá Hofsósi.[11]
Körfuboltaferill
[breyta | breyta frumkóða]Um árabil lék Vanda körfubolta með Íþróttafélagi stúdenta og var í lykilhlutverki er liðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 1991 og lék níu körfuboltalandsleiki á árunum 1989-1991.[12]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]Vanda var valin leikmaður ársins í úrvalsdeildinni í knattspyrnu árið 1990. Árið 2019 hlaut hún hvatningarverðlaun Dags eineltis fyrir framlag til rannsókna og forvarna gegn einelti auk úrlausna í einstökum eineltismálum.[13] Vanda var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir störf að kvennaknattspyrnu, jafnréttismálum og fyrir baráttu gegn einelti.[4]
Formaður KSÍ
[breyta | breyta frumkóða]Í október árið 2021 var Vanda kjörin formaður Knattspyrnusambands Íslands. Vanda tók við starfinu í kjölfar mikilla hneykslismála innan sambandsins en Guðni Bergsson fráfarandi formaður og stjórn sambandsins höfðu sagt af sér í kjölfar harðrar gagnrýni fyrir að hafa þagað um og hylmt yfir ofbeldisbrotum leikmanna karlalandsliðsins í knattspyrnu. Vanda var fyrsta konan til að gegna formennsku KSÍ og jafnframt fyrsta konan til að taka við formennsku í aðildarsambandi UEFA.[14] Hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs árið 2023.[15]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Elma Rut Valtýsdóttir (10. desember 2021). „Brennur fyrir því að öll börn útskrifist með bros á vör“. Vísir.is. Sótt 9. nóvember 2024.
- ↑ 2,0 2,1 „Vanda Sigurgeirsdóttir“, Dagblaðið-Vísir, 8. september 1999 (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Hi.is, „Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ 4,0 4,1 Kvan.is, „Vanda Sigurgeirsdóttir“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Ruv.is, „Kvennalandsleikir voru ekki auglýstir“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ „Liðið harðsnúið“ Morgunblaðið, 16. október 1994 (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Fotbolti.net, „Vanda Sigurgeirsdóttir enn að spila - lék í marki Tindastóls“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Visir.is, „Ekki bara þeirra draumur heldur okkar allra“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Feykir.is, „Vanda sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Mbl.is, „Vanda ráðin þjálfari Þróttar“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ „Vanda þjálfar karlalið Neista“, Morgunblaðið, 20. mars 2001 (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Kki.is, „Leikmenn, leikir og stigaskor íslenska kvennalandsliðsins“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Skessuhorn.is, „Vanda Sigurgeirsdóttir hlaut viðurkenningu á degi gegn einelti“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Frettabladid.is, „Vanda nýr formaður KSÍ“ (skoðað 5. október 2021)
- ↑ Hjörtur Leó Guðjónsson (11. júní 2023). „Vanda gefur ekki kost á sér á ný“. Vísir.is. Sótt 9. nóvember 2024.