Fara í innihald

Öldungadeild Bandaríkjaþings

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá United States Senate)
Öldungadeild Bandaríkjaþings fundar í bandaríska þinghúsinu í Washingtonborg.

Öldungadeild Bandaríkjaþings (enska United States Senate) er efri deild Bandaríkjaþings, en neðri deild þess er fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Löggjafarvaldinu er skipt milli þessara þingdeilda, og til þess að lög teljist gild, þarf samþykki beggja deilda. Engar aðrar stofnanir í Bandaríkjunum hafa löggjafarvald, en þingið getur veitt öðrum stofnunum heimildir til setninga reglugerða. Þingdeildirnar starfa í sitthvorri álmunni í þinghúsinu í Washington. Í öldungadeildinni sitja tveir fulltrúar frá hverju fylki Bandaríkjanna, óháð stærð ríkisins, en í fulltrúadeildinni fer fjöldi fulltrúa eftir stærð hvers ríkis.

Þingmenn öldungadeildarinnar eru 100 talsins og hefur hver og einn þar eitt atkvæði. Til samanburðar eru þingmenn fulltrúadeildarinnar um 435 talsins, þar sem hver hefur um 700.000 kjósenda að baki sér. Varaforseti Bandaríkjanna er deildarforseti en er ekki sjálfur öldungadeildarþingmaður og tekur ekki þátt í löggjafarstarfinu nema til að leysa úr jafntefli, ef ekki er hægt að mynda meirihluta. Í fjarveru hans sinnir varaforseti öldungadeildar Bandaríkjaþings starfi hans.

Sögulegur bakgrunnur

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd öldungadeildar Bandaríkjaþings er Rómverska öldungaráðið, en nafnið (enska: senate), er einmitt dregið af latneska orðinu senatus, sem þýðir öldungaráð. Þegar Bandaríkjamenn hlutu sjálfstæði árið 1776, var hugmyndin á bakvið stjórnskipan landsins sú að ríkin skyldu vera fullvalda, en yfir þeim öllum væri alríkisstjórn. Í fyrstu var einungis ein þingdeild starfandi í landinu og kaus þá löggjafarþing hvers ríkis þingmenn. Þessu var breytt árið 1787, þegar 17. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna var breytt og ákveðið var að þingdeildir Bandaríkjanna skyldu verða tvær. Kosningar til beggja deildanna voru þá færðar frá löggjafarþingum ríkjanna í hendur þegna, sem fengu þá rétt til að kjósa til öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar, í beinni kosningu.

Sem ákveðin málamiðlun var ákveðið að hafa tvær þingdeildir, til að mæta kröfum þeirra sem töldu að þar sem ríkin væru fullvalda hvert fyrir sig, ætti að gæta jafnræðis fulltrúa þeirra og þeirra sem töldu að löggjafarvaldið ætti að gæta hagsmuna allra þegna Bandríkjanna. Ennfremur var talið að með því að hafa tvær þingdeildir, myndi temprun valds vera tryggð, þar sem samþykki beggja þingdeilda þarf til að frumvörp verði að lögum. Þannig gæti önnur deildin, fulltrúadeildin, verið fulltrúi þegna, þar sem beinar kosningar fara fram í einmenningskjördæmum. Hin deildin, öldungadeildin væri fulltrúi ríkjanna, og myndu öll ríkin fá jafnmarga fulltrúa til þess að tryggja að ekki yrði vegið að fullveldi smærri ríkja.

Í öldungadeildinni eru starfandi 20 fastanefndir, 68 undirnefndir og fjórir samstarfsnefndir. Þá eru sérstakar nefndir sem ætlað er fara í gegnum umsóknir til forsetaframboðs, sem og sérstakar nefndir sem sjá um að rannsaka ásakanir um misferli. Fastanefndir hafa almennt umboð til löggjafarvalds á sínu sviði, en undirnefndirnar sjá um sérstök málasvið fyrir starfsnefndirnar. Það er svo hlutverk samstarfsnefnda að hafa yfirumsjón og sjá um daglegan rekstur. Formenn og meirihluti nefndarmanna í öllum nefndum eru fulltrúar þess þingflokks sem hefur meirihluta hverju sinni. Þegar þingmenn hafa borið upp frumvörp, eru þau send í nefnd. Þúsundum frumvarpa og samþykkta er vísað til nefnda á hverju tveggja ára þingi. Einungis hluti þeirra er tekinn til skoðunar og settur á dagskrá öldungadeildarinnar, þau frumvörp sem fá ekki umfjöllun í nefndunum eru sjaldnast tekin til frekari skoðunar af þinginu.

Sérstök völd þingsins

[breyta | breyta frumkóða]

Öldungadeildin þarf að samþykkja eða hafna öllum alþjóðasamningum sem framkvæmdavaldið hefur gert. Ennfremur er það hlutverk öldungadeildarinnar að staðfesta skipanir ráðherra, dómara og hershöfðingja. Ef embættismenn eru ákærðir fyrir brot í starfi (enska: impeachment), gegnir öldungadeildin hlutverki dómstóls. Öldungadeildin getur ekki stofnað til löggjafar hvað varðar skattheimtu, fulltrúadeildin fer ein með það vald. Þó getur öldungadeildin gert breytingar á skattafrumvörpum sem koma frá fulltrúadeildinni. Það hefur heldur ekki tíðkast að öldungadeildin leggi fram frumvörp um útgjöld alríkisfjár, það hefur að vísu komið fyrir, en þar sem fulltrúadeildin lítur svo á að það sé ekki málaflokkur öldungadeildarinnar, hefur hún ekki tekið slík frumvörp til umræðu. Þá hefur öldungadeildin ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hæfniskröfur öldungadeildaþingmanna

[breyta | breyta frumkóða]

Til þess að geta boðið sig fram til öldungadeildarinnar þarf viðkomandi að hafa náð 30 ára aldri, hafa verið bandarískir ríkisborgarar í að lágmarki 9 ár og vera með lögheimili í þeim ríkjum þar sem þeir bjóða sig fram.

Kosningar og kjörtímabil

[breyta | breyta frumkóða]

Kosningar til öldungadeildarinnar fara fram á tveggja ára fresti en öldungadeildarþingmenn eru þó kosnir til sex ára í senn. Í hverjum kosningum er einungis einn þriðji hluti þingmanna í kjöri. Þegar þingið hóf störf upprunalega, sat einn hópur þingmanna á þingi í tvö ár, annar í fjögur og þriðji hópurinn í sex ár. Upp frá því hefur svo bæst nokkurn veginn jafnt í hvern hóp. Síðustu kosningar fóru fram í nóvember 2008 en næstu kosningar til öldungadeildar fara fram í nóvember 2010.

Meirihluti og minnihluti

[breyta | breyta frumkóða]

Í Bandaríkjunum er tveggja flokka kerfi, og deila demókrataflokkurinn og repúblikanaflokkurinn sætum í báðum þingdeildum. Frá öldungadeildarkosningunum 2020 hefur sætunum verið skipt hnífjafnt milli flokkanna, sem hafa 50 þingmenn hvor. Þar sem varaforsetinn Kamala Harris fer með oddaatkvæði hafa demókratar þó í reynd eins manns meirihluta.