Fara í innihald

Umboðsmaður skuldara

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Embætti Umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem heyrir undir velferðarráðuneyti á að gæta hagsmuna skuldara gagnvart lánastofnunum og veita umbjóðendum sínum aðstoð til að komast úr skuldavanda. Embættið tók til starfa 1. ágúst 2010 samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010. Stofnunin er byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem starfað hafði síðan á tíunda áratug síðustu aldar.

Runólfur Ágústsson lögfræðingur var skipaður umboðsmaður skuldara og tók við embættinu þann 1. ágúst 2010. Tveimur dögum síðar, þann 3. ágúst, sagði Runólfur sig frá embættinu eftir að fjölmiðlar höfðu fjallað um fjárhagsleg málefni hans. Þann 4. ágúst 2010 var Ingi Valur Jóhannsson þáverandi deildarstjóri í í félags- og tryggingamálaráðuneytinu settur tímabundið til að gegna embætti umboðsmanns skuldara. Ásta Sigrún Helgadóttir lögfræðingur tók svo við embættinu 5. ágúst 2010. Hún hafði áður gegnt forstöðu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Hlutverk umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum er m.a. að gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á. Einnig á hann að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar. Í kjölfarið að hafa hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi. Önnur hlutverk eru að veita aðstoð við gerð samninga um greiðsluaðlögun og að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Þá á Umboðsmaður skuldara að vera félags- og tryggingamálaráðherra til ráðuneytis um málefni skuldara og stefnumörkun á því sviði og útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega og taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds.

Hjá umboðsmanni starfa í dag um 70 starfsmenn.