Tunnuöl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tunnurekki

Tunnuöl er bjór sem er fenginn beint úr öltunnu, hefur hvorki verið síaður né gerilsneyddur og inniheldur ekki viðbætta kolsýru. Bresku samtökin Campaign for Real Ale (CAMRA) hafa notað hugtakið „raunverulegt öl“ („real ale“) yfir þennan bjór frá því þau hófu baráttu fyrir endurvakningu hans 1971. Tunnuöl er flatara og hefur mýkra bragð en hefðbundinn kolsýrður bjór, en getur annars verið nánast hvaða bjórtegund sem er.

Ólíkt „grænum“ bjór sem er fenginn beint úr fyrsta gerjunartanki eða gilkeri er tunnuöli hellt úr gerjunaríláti á tunnu eftir að gerjun er að mestu lokið. Gersetið sem myndast í öltunnunni er því lítið og verður eftir á botninum þegar bjórnum er hellt um krana eða dælt upp með bullu. Þetta er ólíkt því sem gerist þegar hefðbundnum bjór er dælt úr bjórkút með gasi (kolsýru eða blöndu kolsýru og nítrógens) en þá tæmist kúturinn alveg. Eftir umhellingu er tunnan látin hvíla um stund í rekka eða á gólfi áður en farið er að hella eða dæla úr henni til að bjórinn verði tærari. Á þeim tíma heldur kolsýra áfram að myndast í bjórnum við gerjun.

Á börum er tunnuöli yfirleitt dælt upp úr tunnum sem geymdar eru undir bargólfinu í kjallara með einföldum bulludælum. Stundum eru sérstakir stútar á dælunum þar sem hægt er að stilla hversu mikið bjórinn freyðir í glasinu og þar með hversu mikill „haus“ kemur á bjórinn.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]