Fara í innihald

Söguþráður Eneasarkviðu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Söguþráður Eneasarkviðu er latneskur kvæðabálkur í 12 bókum eftir rómverska skáldið Virgil og er í grófum dráttum þannig:

Fyrsta bók

[breyta | breyta frumkóða]

Virgill byrjar kviðuna á orðunum:

Arma virumque cano... („Kveð ég um hervopn og mann“)

en sá maður er Eneas, sem fyrstur kom frá Trójuströndum til Ítalíu, rekinn á flótta að ætlun forlaganna, að stofna borg og ættir Latverja. (Bláupphafið er sögugangur kviðunnar í hnotskurn).

Eftir það ákallar Virgill sönggyðjuna með orðunum: Seg mér, Sönggyðja, hvað hafði hann [Eneas] gert henni [Júnó] í mót, hvað gramdist guðanna drottning svo, að hún lét þann mann, svo trúfastan, rata í aðrar eins hættur. Þá segir frá því að Júnó ann Karþagóborg, en hatast við þá Tróverja sem sluppu úr eyðingu borgarinnar og sigla nú frá Sikiley á leið til Latíums.

Eólus vindakonungur tekur að æsa stórviðri á hendur Tróverjum að ósk Júnóar, en Neptúnus lægir ofviðrið.

Trójumenn ná landi á Afríkuströnd. Venus talar máli Tróverja við Júpíter. Hann skýrir henni frá mikilfengleika Rómaborgar í framtíðinni.

Júpíter sendir Merkúríus á fund Dídóar, svo að hún taki Tróverjum með vinsemd.

Venus, í gervi veiðimeyjar, birtist Eneasi. Hún segir honum sögu Dídóar og Karþagóborgar og hylur hann og Akkates þokuhjúpi.

Eneas og Akkates koma til Karþagóborgar, dást að Júnóarhofi að lágmyndum úr Trójustríði. Dídó heldur til hofs. Skipreika förunautar Eneasar ganga fyrir drottninguna og biðja hana ásjáar. Eneas brýst út úr þokuhjúpinum og ávarpar Dídó.

Venus lætur Kúpídó taka á sig gervi Askaníusar Eneassonar, svo að Dídó felli hug til Eneasar. Kúpídó kemur til hallar Dídóar. Þar er haldin veisla. Dídó biður Eneas að rekja sögu sína.

Önnur bók

[breyta | breyta frumkóða]

Eneas hefur upp sögu sína og segir frá tréhestinum (þ.e. Trójuhestinum). Að tróverskir hirðar hafi leitt fram fangann Sínon, grískan mann og að hann hafi talið Tróverja á að draga tréhestinn upp í borgina. Laókóon varar við hestinum (quidquid id est, timeo danaos et dona ferentes = hvað sem það er, þá óttast ég Danáa, jafnvel þegar þeir færa gjafir), en af hafi kemur höggormur og drepur hann og syni hans. Hesturinn dreginn inn í Trójuborg.

Tróverjar sofa. Sínon fær merki um að hleypa Grikkjum úr hestinum. Svipur Hektors birtist Eneasi. Hann segir honum að forða sér úr borginni með dýrgripi Tróju og húsgoð.

Barist á strætum Trójuborgar. Eneas berst með fámennri sveit.

Pyrrhus brýst inn í höll Príamusar og Príamus er veginn.

Eneas kemur augu á Helenu hina fögru í Vestuhofi, hyggst hefna falls borgarinnar með því að drepa hana. Venus birtist Eneasi og biður hann fremur að huga að heill fjölskyldu sinnar.

Guðlegt teikn birtist, eldslogi um höfuð Júlusar. Eneas heldur á braut, ber Ankíses föður sinn á baki og leiðir son sinn. Kreúsa kona hans fylgir í humátt á eftir.

Kreúsa hverfur. Eneas leitar hennar, en finnur ei. Ofurstór svipur hennar birtist honum, segir að hann skuli ótrauður halda leiðar sinnar að vilja forlaganna.

Dagur rennur. Eneas heldur til fjalls ásamt föður sínum og syni.

Þriðja bók

[breyta | breyta frumkóða]

Eneas og förunautar smíða flota og sigla burt í sumarbyrjun út í óvissuna. Eneas leggur grundvöll að borg í Þrakíu. Pólýdórus Príamusson kallar til Eneasar úr jörðu og segir að hann hafi verið myrtur í Þrakíu. [Hér, þar sem lýst er af hverju Pólýdórus hafi verið myrtur, kemur fyrir hin fræga setning: quid non mortalia pectora cogis, auri sacra fames = því til hvaða verka neyðir þú ekki hjörtu dauðlegra manna, þú bölvaða gullgirnd]. Tróverjar afráða að sigla á braut.

Þeir sigla til Deloseyjar. Eneas spyr Apolló frétta. Ankíses ræður véfréttina ranglega svo að siglt er til Krít.

Tróverjar taka að hlaða borgarmúra á Krítey. Húsgoðin birtast Eneasi á nóttu og segja honum að borg fyrirheitana sé ekki á Krit, heldur í Hesperíu. Tróverjar sigla á braut.

Tróverjar hreppa stórviðri og ná landi á fjórða degi á Strófadeseyjum. Tróverjar drepa nautgripi sér til matar og Harpýjurnar, hálfmennsk illfygli, gera aðsúg að þeim. Þeir hrekja kvikindin burt, en Kelenó, þeirra elst, spáir því að þeim auðnist ekki að finna borgarstæði fyrr en þeir hafa etið matborð sín.

Þeir sigla fram hjá Íþöku og lenda við Levkateshöfða. Tróverjar færa fórnir og halda leika við Aktíum. Þeir sigla áfram og til Búþrótumsborgar. Þar finna Tróverjar fyrir Helenus Príamusson og konu hans Andrómökku, sem Hektór átti áður.

Eneas spyr Helenus ráða vegna illspár Kelenóar. Helenus segir honum spá sína, að Tróverjar eigi enn langa ferð fyrir höndum, þurfi ekki að óttast óheillaspá Kelenóar, skuli forðast Karybdísi og Skyllu, færa Júnó fórnir og lenda loks við Kúmu og spyrja völvuna Síbyllu frétta.

Helenus færir Tróverjum ríkulegar gjafir í kveðjuskyni og Andrómakka gefur Askaníusi gjafir til minningar um Astýanax, son þeirra Hektors.

Tróverjar dveljast náttlangt við Keráníu.

Lent við „Castrum Minervae“. Tróverjar komast klakklaust fram hjá Karybdísi að strönd Sikileyjar allskammt frá Etnu.

Akkemenídes, maður úr liði Ódysseifs, leitar ásjár Tróverja og segir þeim af Pólýfemusi Kýklópa.

Pólýfemus og aðrir Kýklópar birtast. Tróverjar hraða sér burt fullum seglum suður með strönd Sikileyjar.

Tróverjar koma loks til Drepanum og þar sálast Ankíses. Eneas lýkur þar frásögu sinni frammi fyrir Dídó drottningu, segir að þeir hafi hrakist fyrir illviðrum þaðan og til Karþagóborgar.

Fjórða bók

[breyta | breyta frumkóða]

Dídó kvelst af ást til Eneasar og trúir systur sinni Önnu fyrir því. Anna hvetur hana til að láta eftir þrá sinni og gefast Eneasi. Dídó færir fórnir til að vinna hylli guðanna, einkum Júnóar hjúskapargyðju. Dídó er ær af ást og lætur alla landstjórn reka á reiðanum.

Júnó og Venus leggja á ráðin um samfund Dídóar og Eneasar, og með því vill Júnó koma í veg fyrir að Trójumenn nemi land á Ítalíu. Venus treystir því hins vegar að Júpíter muni aldrei fallast á þá ráðagjörð.

Dídó og Eneas halda til veiða með fylgdarsveitum sínum. Júnó lætur óveður skella á, svo að Dídó og Eneas leita skjóls ein í helli. Dídó lítur á samfund þeirra þar sem hjónavígslu, náttúruvættir séu vottar að henni.

Orðrómurinn, Fama, kemur af stað illum rógi um ást Dídóar og Eneasar. Fregnin berst loks til Jarabasar konungs, vonbiðils Dídóar.

Júpíter sendir Merkúríus til Eneasar í því skyni að minna hann á vilja forlaganna og skipa honum að sigla burt frá Karþagó. Eneas hyggst sigla burt sem skjótast, en veit ekki hvernig hann geti fært Dídó tíðindin. Dídó skynjar að Eneas undirbýr brottför, æðir um sem Bakkynja, og talar til hans örvingluð. Eneas segir Dídó frá boðum Merkúríusar, og að hann haldi ófús á braut. Dídó þylur Eneasi bölbænir og heitir honum hefndum.

Eneas heldur til flota síns og Tróverjar búa skipin til ferðar. Dídó sendir önnu á fund Eneasar að biðja hann að fresta brottförinni um sinn. Eneas haggast hvergi.

Dídó vill deyja en blekkir systur sína, biður hana að hjálpa sér við að reisa bálköst til athafnar sem muni leysa sig undan ástinni til Eneasar.

Merkúríus birtist Eneasi í svefni og hvetur hann til að sigla sem skjótast vegna hættu á árás. Eneas vekur menn sína og þeir hraða sér á haf út.

Dídó sér í höll sinni að Tróverjar sigla brott. Hún ákallar sól, guði og Hefndanornir, biður þess að þau og Karþagómenn megi hefna sín með því að ofsækja Eneas og alla þjóð hans.

Dídó kastar sér í bálköstinn, lætur fallast fram á sverðsodd. Harmakvein fer um borgina þegar fréttist af voðaverki drottningar. Anna ryður sér leið að kestinum, en þá verður Dídó ekki lengur bjargað.

Júnó sendir Írisi ofan af himni til að skera lokk úr hári Dídóar, til að leysa líf hennar úr fjötrum.

Fimmta bók

[breyta | breyta frumkóða]

Eneas siglir til Sikileyjar og kemur að landi nærri gröf Ankísesar föður síns. Akestes tekur á móti Tróverjum.

Eneas setur leika til heiðurs föður sínum. Þar fer fram kappróður, kapphlaup, hnefaleikur, bogaskotfimi og riddaraleikur pilta.

Júnó sendir Írisi ofan af himni, og æsir hún Trójukonur til að leggja eld að skipunum.

Eneas ákallar Júpíter. Guðinn sendir steypiregn, svo að öll skipin bjargast nema fjögur. Eftir skipabrunann er Eneas að því kominn að falla frá ferð lengra. Öldungurinn Nátes ræður honum að skilja sumt af fólkinu eftir á Sikiley og halda áfram ásamt öðrum til Ítalíu. Ankíses birtist syni sínum og segir honum að fylgja ráði Nátesar; hann skuli þó koma til fundar við sig í undirheimum áður en hann stofni borg.

Borgin Akesta grundvölluð handa þeim sem eftir sitja. Að loknum hátíðahöldum siglir Eneas áleiðis til Ítalíu. Venus fer þess á leit við Neptúnus, að Tróverjar komist óskaddaðir leiðar sinnar þrátt fyrir óvild Júnóar.

Svefnguðinn yfirbugar Palínúrus stýrimann og steypir honum fyrir borð.

Sjötta bók

[breyta | breyta frumkóða]

Lending við Kúmu. Eneas heldur að hofi Apollós til fundar við völvuna Síbyllu. Í helli völvunnar flytur hún honum véfrétt sem er innblásin af Apolló. Hún er þannig að Eneas komist ekki til undirheima fyrr en hann hafi náð hinni gullnu trjágrein og jarðsett einn manna sinna sem ógrafinn sé.

Stuttu eftir það finnst Mísenus, lúðurþreyttari, dauður. Tvær dúfur vísa Eneasi á gullnu trjágreinina.

Fórnfæring.

Eneas og Síbylla halda til undirheima. Þar mæta þau ferjukarlinum Karoni. Svipur Palínúrusar verður á vegi Eneasar. Karon fær gullnu trjágreinina og ferjar Eneas og Síbyllu yfir Stýgarfljót. Þau rekast á varðhundinn Kerberos, Mínos dómsforseta og sjálfsmorðingja.

Þau koma að Sorgarvöllum. Dídó ber fyrir augu Eneasi. Þau mæta stríðsköppum og þar á meðal Deífóbus Príamusson, sem var vopnabróðir Eneasar.

Komið að Tartarus sem er hinn mesti kvalarstaður og síðan að Sæluvöllum. Eneas á tal við Ankíses föður sinn. Þau mæta sálunum við Leþuelfi.

Ankíses sýnir Eneasi merkismenn Rómar, sem bíða þess að fæðast, konunga Albverja, Rómúlus, Ágústus, Rómarkonunga og frægðarmenn á dögum komandi Rómarlýðveldis.

Komið að hliði Somnusar. Ankíses fylgir Eneasi og Síbyllu út úr undirheimum.

Sjöunda bók

[breyta | breyta frumkóða]

Útför Kæjetu fóstru Eneasar. Tróverjar sigla fram með landi Kirku og ná til Tíberósa.

Latínus konungur kemur til sögu og Lavinía dóttir hans, sem örlögin ætla að muni giftast útlendingi.

Tróverjar eta „matborðin“.

Eneas sendir mann á fund Latínusar konungs og reisir virkisborg. Latínus skynjar að Eneasi muni ætlað að eignast Laviníu.

Júnó sendir meinvættina Allektó til að spilla friðarsáttmála. Æði Amötu drottningar, sem er andsnúin ráðahagnum.

Júlus Eneasson á hjartveiðum. Allektó kemur ófriði af stað með því að etja hundum Júlusar á eftirlætishjört Silvíu. Hirðar Latínusar konungs rísa óvægir upp.

Allektó gefur ófriðarmerki. Hjarðmenn berjast. Allektó segir Júnó að verki hennar sé lokið „farsællega“.

Lýsing á foringjum og hersveitum Latverja.

Áttunda bók

[breyta | breyta frumkóða]

Túrunus dregur upp gunnfána. Fljótsguðinn Tíberínus talar til Eneasar og segir honum að leita liðsinnis Evanders konungs.

Eneas slátrar gyltunni. Arkadar halda fórnarhátíð til heiðurs Herkúlesi. Eneas og menn hans sigla til þeirra upp Tíberfljót. Evander heitir Eneasi liðveislu.

Evander greinir frá því hvernig Herkúles réð niðurlögum skrímslisins Kakusar.

Herkúlesarhátið er fram haldið. Evander segir Eneasi sögu Latíums og sýnir honum borg sína.

Venus fær Volkanus til að smíða vopn handa Eneasi. Kýklópar hefja smíðina.

Eneas og Evander eiga viðræður. Evander sendir son sinn Pallas til stríðs í fylgd Eneasar.

Venus fær Eneasi vopn frá Volkunusi. Lýsing á skildi Eneasar.

Níunda bók

[breyta | breyta frumkóða]

Júnó sendir Írisi á fund Túrnusar, segir honum að ráðast á búðir Tróverja, því að Eneas sé fjarstaddur. Skipum Tróverja er borgið frá bruna og breytt í dísir. Nísus og Evrýalus ætla að brjótast gegnum óvinaraðir og komast á fund Eneasar.

Þeir ráðast á Rútula, sem eru sofand og falla í hendur óvium og eru báðir vegnir. Rútúlar ganga fram til orrustu, bera í fylkingarbrjósti höfuð Nísusar og Evrýalusar á spjótsoddum. Móðir Evrýalusar harmar dauða sonar síns.

Ráðist að búðum Tróverja. Sagt frá framgöngu Túrnusar og vígfimi hans. Fyrsta dáð Askanísar í hernaði. Apolló spáir honum glæstri framtíð.

Bitías og Pandarus ljúka upp hliði á búðum Tróverja. Rútular fara halloka uns Túrnus kemur þeim til liðisinnis. Túrnus kemst inn í Tróverjabúðir og vegur margan mann. Loks verður hann að láta undan síga, steypir sér í Tíberfljót og nær aftur til liðsmanna sinna.

Tíunda bók

[breyta | breyta frumkóða]

Júpíter kallar guðina til stefnu á Ólympusfjalli. Venus og Júnó deila. Júpíter úrskurðar að örlögin skuli hafa sinn gang.

Rútular gera enn atlögu að búðum Tróverja.

Eneas siglir til búða sinna úr liðsbónarför. Sagt frá bandamönnum Eneasar.

Sjávardísirnar, sem áður voru skip, verða á vegi Eneasar og gera honum viðvart, að bardagi bíði hans. Eneas kemur að landi, við mikinn fögnuð Tróverja í búðunum.

Orrustan hefst. Eneas ryðst fram og vinnur sigra, en lengi er bardaginn tvísýnn. Framgöngu Pallasar lýst í orrustunni. Túrnus vegur Pallas. Eneas fer hamförum um vígvöllinn, leitar hefnda eftir Pallas.

Samtal Júpíters og Júnóar. Hann leyfir henni að halda hlífiskildi yfir Túrnusi um sinn. Hún gerir tálmynd með yfirbragði Eneasar. Túrnus eltir tálmyndina á skip eitt. Þannig kemur Júnó honum úr bardaganum.

Mezentíus gengur til bardagans og vinnur margar dáðir. Eneas og Mezentíus berjast. Mezentíus særist. Eneas vegur Lásus Mezentíusson. Mezentíus fer til að hefna sonar síns. Eneas særir hann til ólífis.

Ellefta bók

[breyta | breyta frumkóða]

Eneas helgar Mars vígverjur Mezentíusar sem sigurmerki. Þá er sagt frá líkfylgd Pallasar. Latverjar beiðast vopnahlés og Eneas fellst á málaleitan þeirra.

Harmur í Pallasborg. Evander heitir á Eneas að hefna sonar síns með því að vega Túrnus. Tróverjar, og eins Latverjar, jarðsetja fallna menn.

Díómedes synjar þess að berjast að nýju við Tróverja, allra síst við slíkan garp sem Eneas. Latínus konungur heldur ræðu, segir baráttu Latverja tapaða og leggur til að gerður verði friðarsáttmáli við Eneas. Drankes tekur undir orð konungs.

Túrnus andmælir Drankesi og Latínusi. Hann segist reiðubúinn að heyja einvígi við Eneas. Meðan á deilum stendur í herbúðum Latverja, sækir Eneas fram. Túrnus fréttir það og býst óðara herklæðum.

Herkonan Kamilla kemur til liðs við Túrnus. Þá er Vígaferlaþáttur Kamillu. Opis hefnir Kamillu. Ringulreið meðal Latverja, borg þeirra umsetin. Túrnus fregnar dauða Kamillu og hraðar sér til borgar

Tólfta bók

[breyta | breyta frumkóða]

Verk í vinnslu.