Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson (f. 27. júlí 1968) er íslenskur stjórnmálamaður, sveitastjórnarmaður og fyrrum bæjarfulltrúi Miðflokksins.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Sveinn fæddist 27. júlí 1968 á Selfossi. Hann lauk grunnskólaprófi frá Grunnskólanum á Hellu í Rangárvallarsýslu og síðar studentsprófi af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1990. Árið 1995 útskrifaðist hann með BA gráðu frá Háskóla Íslands í hagfræði og heimspeki. Lokaverkefni hans í hagfræði fjallaði um sparnað og fjárfestingu í Asíu með áherslu á Kína og í heimspeki ritaði hann lokaverkefni um fjölskyldugildin annars vegar hjá Konfúsíus og hins vegar hjá Aristóteles og bar þau saman í fræðilegu samhengi. Leiðbeinandi hans í hagfræðiverkefninu var dr. Guðmundur Magnússon hagfræðiprófessor og í heimspekiverkefninu dr. Mikael M. Karlsson heimspekiprófessor. Árin 1996-1997 stundaði hann rannsóknir og nám við Peking University. Árið 1997 lauk hann námi í löggildingu til eignaskipta á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Árið 2000 lauk hann námi í löggildingu sem fasteignasali á vegum Dómsmálaráðuneytisins. Árið 2004 lauk hann MBA meistaranámi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og árið 2011 MSc meistaranámi í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands.
Ferill í stjórnmálum
[breyta | breyta frumkóða]Sveinn var varaformaður Fjölnis FUS (félag ungra sjálfstæðismanna) í Rangárvallasýslu frá 1990 til 1991, síðar formaður félagsins frá 1991 til 1994 og kjörinn varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna[1] (SUS) 1991. Árið 1993 var hann kjörinn aðalmaður í stjórn SUS og sat í þeirri stjórn til ársins 1995.
Árið 2010 var Sveinn Óskar kjörinn sem formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga, sat um tíma í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.[2] Hann tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi árið 2016 og sat á lista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fóru 26. október 2016.[3]
Árið 2018 gekk Sveinn Óskar úr Sjálfstæðisflokknum yfir í Miðflokkinn og skipaði oddvitasæti Miðflokksins í sveitarstjórnarkosningunum það ár á lista flokksins í Mosfellsbæ. Hann hefur setið þar sem aðalmaður í bæjarráði Mosfellsbæjar og verið 1. varaforseti bæjarstjórnar um hríð. Sveinn átti sæti í svæðisskipulagsnefnd SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarssvæðinu).[4]
Æfi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Sveinn hefur ritað um félags- og réttindamál almennings um árabil. Gaf hann m.a. út ritið Fjölni og fjallaði um atvinnumál í Rangárvallasýslu á þeim tíma sem áform voru uppi um að höfuðstöðvar Sláturfélags Suðurlands flytti að Hvolsvelli. Einnig barðist hann gegn því að meðferðarheimilið að Gunnarsholti yrði lagt niður en það var gert í tíð Guðmundar Árna Stefánssonar þáverandi heilbrigðisráðherra, fv. sendiherra og núverandi varaformanns Samfylkingarinnar. Að Gunnarsholti var rekið vistheimili fyrir langlegusjúklinga, m.a. fólk sem átti afar erfitt og lenti síðar m.a. götum höfuðborgarinnar. Var almenn óánægja með þessi áform ráðherrans í samfélaginu.[5][6][7]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Fyrri stjórnir“. Ungir sjálfstæðismenn. Sótt 28. júní 2020.
- ↑ „Sveinn Óskar Sigurðsson“. Sjálfstæðisflokkurinn. 24. ágúst 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. júní 2020. Sótt 28. júní 2020.
- ↑ „Sveinn Óskar í prófkjör“. RÚV (enska). 19. ágúst 2016. Sótt 28. júní 2020.
- ↑ „SSH - Forsíða“. ssh.is. Sótt 28. júní 2020.
- ↑ „Öll rök mæla með rekstri Gunnarsholtshælisins“. www.timarit.is. 6. október 1993. Sótt 13. maí 2023.
- ↑ „Stjórnleysi á stjórnarheimilinu“. www.timarit.is. 15. nóvember 1993. Sótt 13. maí 2023.
- ↑ „Vistheimilinu í Gunnarsholti lokað um áramót 26 langlegusjúklingar verða að leita annarrar vistunar“. www.mbl.is. 1993-10-2. Sótt 13. maí 2023.