Svalur og górilluaparnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Svalur og górilluaparnir (franska: Le gorille a bonne mine) er ellefta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1959. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var gefin út á íslensku árið 1978 og telst fjórða í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur halda í leiðangur til Afríku til þess að taka myndir af fjallagórillum í sínu náttúrulega umhverfi. Auk ljósmyndabúnaðar, hefur Valur í fórum sínum dularfullan pakka, en fæst ekki til að upplýsa um innihald hans.

Í námaþorpinu Molomonga hitta félagarnir hóp hjátrúarfullra svertingja, sem segja stóra apa ræna sínum mönnum, en einnig vestræna starfsmenn gullnámafyrirtækisins. Forstjórinn hr. Badman tekur þeim vel en verkfræðingarnir Góðdalín og Hvítalín sjá öll tormerki á ferðinni og þræta fyrir að nokkrar górillur sé þar að finna. Fram kemur að fáeinum mánuðum fyrr hafi læknirinn dr. Zwart horfið sporlaust á svæðinu.

Þrátt fyrir dularfull spellvirki halda Svalur og Valur inn í frumskóginn. Þar rekast þeir á þjóð innfæddra stríðsmanna sem reynist hafa rænt fjölda manna að undirlagi hins illa dr. Zwart. Eru hinir ánauðugu menn látnir starfa í gullnámu sem læknirinn og þeir Góðdalín og Hvítalín starfrækja á laun. Svalur og Valur hundsa gylliboð dr. Zwarts og ákveða að tilkynna yfirvöldum um athæfi hans.

Að lokum komast félagarnir á górilluslóðir og ná frábærum myndum, ekki hvað síst vegna hins dularfulla pakka Vals, sem reynist innihalda fullkomið górillugervi.

Aukasagan, Viðburðarlítið sumarleyfi (franska: Vacances sans histories), segir frá því þegar Svalur og Valur eru á leið í sumarfrí á sportbíl þess síðarnefnda. Vellríkur arabískur olíufursti, Ibn Maksúd, tekur bílinn í misgripum og klessukeyrir hann. Furstinn er alræmdur sem versti ökumaður í heimi, en bætir félögunum tjónið með því að gefa þeim lúxusbíl sinn, Túrbó 2, sem átti eftir að koma við sögu í fleiri bókum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Hið franska heiti bókarinnar Le gorille a bonne mine merkir í raun Górillur í góðu skapi, það felur þó líka í sér orðleik sem vísar í námarekstur.
  • Viggó viðutan kemur lítillega við sögu í Viðburðarlitlu sumarleyfi.
  • Ökujói (franska: Roulebille) er bílasalinn sem seldi furstanum í Viðburðarlitlu sumarleyfi Túrbó 2-bílinn og lýsir kostum bílsins fyrir Sval og Val. Hann kom einnig við sögu í Baráttunni um arfinn og La corne de rhinocéros en í íslenskri útgáfu fyrrnefndu bókarinnar gekk hann undir nafninu Eldibrandur.
  • Í Viðburðarlitlu sumarleyfi bregður Franquin og eiginkonu hans fyrir sem gangandi vegfarendum.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bókin Svalur og Górilluaparnir var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var fjórða bókin í íslensku ritröðinni.