Fara í innihald

Fjallagórilla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjallagórilla

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Animalia
Fylking: Chordata
Flokkur: Mammalia
Ættbálkur: Primates
Ætt: Hominidae
Ættkvísl: Gorilla
Tegund:
Undirtegundir:

G. b. beringei

Þrínefni
Gorilla beringei beringei
Matschie, 1903

Fjallagórilla er ein af tveimur undirtegundum austur-górilla. Þeim má skipta í tvo hópa eftir búsvæði. Annan þeirra er að finna í hinum eldvirku Virunga-fjöllum í Mið-Afríku, í þremur samliggjandi þjóðgörðum. Þeir eru: Mgahinga, í Suðvestur-Úganda, eldfjallaþjóðgarðurinn í Norðvestur-Rúanda og Virunga-þjóðgarðurinn í austurhluta Kongó er einnig búsvæði fyrir górillurnar. Hinn hópinn er að finna í Bwindi Impenetrable-þjóðgarðinum í Úganda. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN skráðu górillurnar sem tegund í bráðri hættu árið 2008 en tíu árum síðar, þegar áætlaður fjöldi þeirra var kominn yfir 1000, var þeirri skráningu breytt í tegund í hættu

Búsvæði og vistsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Fjallagórilla.

Búsvæði fjallagórillanna eru í fjallaregnskógum Albertine-misgengisins og í hinum eldvirku Virunga-fjöllum. Þau eru allt frá 2.200 upp í 4.300 metra hæð yfir sjó. Flestar górillur er að finna í hlíðum óvirku eldfjallanna Karisimbi, Mikeno og Visoke. Gróðurinn er mjög þéttur neðst í fjöllunum, en eftir því sem kemur hærra upp verður hann dreifðari. Í skógunum þar sem górillan lifir er oft skýjað, mikill raki og kalt.

Fjallagórillan er fyrst og fremst jurtaæta. Meirihlutinn af mataræði hennar eða allt að 85% eru laufblöð og stilkar. Þær nærast einnig á berki (um 7%), rótum (um 3%), blómum ( 2% og ávöxtum (um 2%), auk smærri hryggleysingja. Fullorðin karldýr geta étið allt að 34 kg af gróðri á dag, en kvendýrin um 18 kíló.

Útlitslýsing[breyta | breyta frumkóða]

Fjallagórilla í makindum sínum.

Feldur fjallagórillunnar er oft þykkari og síðari en hjá öðrum tegundum górilla. Þetta gerir þeim kleift að búa á kaldari stöðum. Meðalþyngd karlapa er 195 kg, þegar þeir standa uppréttir eru þeir allt að 150 cm og yfirleitt eru þeir tvisvar sinnum þyngri en apynjurnar. Meðalþyngd þeirra er 100 kg og hæðin getur orðið 130 cm. Fullorðin karldýr eru kallaðir silfurbakar vegna grárra eða silfurlitaðra hára sem þeir fá á bakið þegar þeir eldast. Þeir hafa lengri kjálka og tennur en láglendisgórillur, en örlítið styttri handleggi.

Fjölgun[breyta | breyta frumkóða]

Fjallagórillur fjölga sér mjög hægt. Apynjurnar ala fyrsta barn sitt um 10 ára, þær munu svo eignast fleiri afkvæmi á þriggja eða fjögurra ára fresti. Karldýrið byrjar að stunda æxlun á aldrinum 12 til 15 ára, en það gerist einungis ef hann hefur náð stjórn á eigin hópi. Tvíburar eru óþekktir hjá fjallagórillum.

Nýfæddar górillur eru veikburða og pínulitlar, þær vega um 1,8 kg. Í upphafi eiga ungarnir jafnerfitt og mannabörn með hreyfingar, en þroski þeirra er um það bil tvisvar sinnum hraðari og þegar þeir eru á 3. eða 4. mánuði geta górilluungar setið uppréttir og einnig staðið með stuðningi stuttu eftir það. Þeir eru hafðir á brjósti í rúmt ár en eftir það smádregur úr þar til þeir hætta alveg um þriggja og hálfs árs, og verða þá sjálfstæðari.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]