Helgi Höskuldsson
Helgi Höskuldsson (d. 1561) var síðasti ábóti Þingeyraklausturs, var vígður 1519 og lét af starfi 1549 en tók aftur við haustið 1550 og stýrði klaustrinu til næsta sumars, þegar það var lagt niður.
Helgi áóti kom með mikið fjölmenni á Sveinsstaðafund 1521 og gekk þar á milli hinna stríðandi fylkinga en þar tókust á annarsvegar Jón Arason biskupsefni og hins vegar Teitur Þorleifsson ríki, lögmaður í Glaumbæ, og var honum þakkað að mannfall var ekki meira. Jón kunni Helga þó litlar þakkir og stefndi honum til Hóla fyrir dóm Jóns Finnbogasonar officialis og tólf presta fyrir ýmsar sakir en tókst ekki að fá hann dæmdan. Þeir Helgi og biskup sættust þó á endanum og er þess meðal annars getið að Helgi var á meðal gesta í brúðkaupi Þórunnar Jónsdóttur biskups og Ísleifs Sigurðssonar á Grund á Hólum 1533.
Helgi þótti góður ábóti en helsti ljóður á ráði hans var kvensemi og átti hann nokkur börn „með meinlausum konum“, segir í Skarðsárannál. Árið 1539 setti Jón biskup Helga ábóta skriftir fyrir barneign og skikkaði hann til að fara þrívegis í suðurgöngu til Rómar til að fá aflausn og það virðist hann hafa gert. Björn Jónsson á Melstað, sonur biskups, gengdi ábótastarfinu á meðan og var ætlun Jóns biskups að Björn tæki við af Helga.
Helgi lét af starfi árið 1549 sakir elli og sjúkleika. Björn Jónsson annaðist stjórn klaustursins, eða var Helga til aðstoðar, en varð þó ekki ábóti. Og þegar hann var líflátinn haustið 1550 tók Helgi aftur við og stýrði klaustrinu til næsta sumars. Þá lagðist klausturlifnaður af með öllu en munkar fengu að vera þar áfram. Helgi lifði áratug til viðbótar og dó fjörgamall 1561.