Straumfjörður
Straumfjörður er fjörður á Mýrum í Borgarbyggð. Þar var verslunarstaður og nú eyðibýli. Þaðan var stundað útræði og er talið að Hamborgarkaupmenn hafi siglt þangað fyrr á öldum. Einokunarkaupmenn sigldu þangað um hríð, eða frá 1669 til 1672, en skip sigldu þangað tíðum að afléttri einokun á verslun og 1863 varð Straumfjörður löggiltur verslunarstaður. Eftri að Borgarnes varð einnig löggiltur verslunastaður fjórum árum síðar, tók verslun í Straumfirði hins vegar að hnigna og lagðist hún alveg af um aldamótin 1900. Síðastur til að versla þar var Ásgeir Eyþórsson (1869-1942), faðir Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrum forseta Íslands, frá 1896-1901. Eftir að Ásgeir Eyþórsson lét af verslun var stórt verslunarhús, sem þar hafði verið reist skömmu fyrir aldamót tekið í sundur og flutt að Borg á Mýrum og endurreist til afnota sem prestssetur 1902.
Siglingin inn Straumfjörð var ávalt varasöm og fórust þar kaupskip í gegn um tíðina. Þá varð þar eftirminnilegt sjóslys, er steytti á skerinu Hnokka og brotnaði í spón, franska rannsóknaskipið Pourquoi pas? í miklu fárviðri haustið 1936. Allir þeir sem með skipinu voru, 39 alls fórust, utan einn skipverja er tókst að komast lífs af.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
- Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.