Skjaldabjarnarvík
Skjaldabjarnarvík er nyrsta víkin á Ströndum sunnan Geirólfsgnúps og var áður nyrsta býli í Strandasýslu. Landamerki voru við Geirólfsgnúp að norðan, en um Bjarnarfjarðará í botni Bjarnarfjarðar nyrðri að sunnan. Bæjarhúsin stóðu norðarlega í víkinni sem kölluð var Skjaldarvík í daglegu tali. Víkin fór í eyði árið 1947.
Sunnan til í Skjaldarvík er Sunndalur ásamt samnefndu eyðibýli og á milli hans og Bjarnarfjarðar er fjallið Rönd. Fram af því gengur nes sem á er holtaröð sem heita Þúfur. Sagt er að í einu holtinu sé landnámsmaðurinn Skjalda-Björn Herfinnsson heygður, hundurinn hans í öðru og skip hans skjöldum prýtt í þeirri þriðju.
Á leiðinni frá Þúfum inn í Bjarnarfjörð er lítið nes á miðri hlíðinni sem heitir Skaufasel. Hinu megin við fjörðinn er síðan Meyjarsel í landi Dranga. Líklegt er að þarna hafi verið býli til forna, en síðar selstaða og beitarhús.
1393 eða 1394 keypti Björn Einarsson Jórsalafari Skjaldabjarnarvík frá Þórði Flosasyni.[1]
Einn þekktasti bóndi í Skjaldabjarnarvík er Hallvarður Hallsson (um 1723–1799). Hann var sonur Halls Erlendssonar frá Horni, þótti forn í skapi og einrænn. Hallvarður er grafinn í túninu í Skjaldarbjarnavík og er vel hugsað um leiði hans. Það hefur tíðkast allt fram á okkar daga að heita á Hallvarð.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jón Þorkelsson: Íslenzkar ártíðaskrár eða Obituaria Islandica, Kaupmannahöfn 1893–1896, bls. 70 (Google Books).