Fara í innihald

Sel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Urðarsel, Svarfaðardalur.

Sel voru hús, eitt eða fleiri, sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar. Sel voru gjarnan í útjaðri jarða og nýttu beitiland eða svæði sem að öðrum kosti hefði ekki verið nýtt.

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi miklu fyrr. Ekki er ljóst af hverju seljabúskapur lagðist af á Íslandi en slíkur landbúnaður er enn iðkaður í Suður-Evrópu og í Noregi. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna margvíslega hamfara ásamt meiri áherslu á kjötframleiðslu.[1]

Samkvæmt rituðum heimildum fólst seljabúskapur í að reka mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, í sel og hafa þær þar á beit yfir sumarmánuðina. Fornleifarannsóknir hafa sýnt fram á að seljabúskapur á Íslandi var flóknari en áður var talið og þar hafi líka farið fram önnur framleiðsla (t.d. járnvinnsla), veiðar og fleira. Enn fremur hefur verið bent á að seljabúskapur hafi verið breytilegur í tímanna rás og sel frá víkingaöld hafi gegnt flóknara og öðru hlutverk en yngri tíma sel. [2]

Einkenni selja og landshættir þeirra

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt ritheimildum skiptust sel í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús.[3] Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá. Sel sem hafa verið skráð af fornleifafræðingum sýna hins vegar að á seli gat verið allt frá einni rúst (sem skiptist í mörg hólf) yfir í flókna minjastaði með mörgum rústum. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna (þ.e. dýrleika þeirra), staðbundna þátta, hlutverki, aldri þeirra og fleiri þáttum.[4]

Greining á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 bendir til þess að sel hafi verið misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu.[3] Greining á skráningu fornleifagagna bendir til þess sama: selin eru t.d. fæst í Rangárvallasýlu en þar er þau helst að finna í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum.[5]

Sel eru oftast 1,5-2 km frá bæ. Sel á jörðum sem höfðu hátt jarðamat voru lengra frá bæ og flóknari að gerð en sel á jörðum sem metnar voru lægra. Flest sel eru staðsett hærra í landinu og á hrjóstugra svæði en bæjarstæði lögbýla. Þó þekkjast sel sem víkja frá þessari reglu, eins og Meyjasel á Ströndum.[5]

Uppgreftir og aðrar fornleifarannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]
Sogasel á Reykjanesi

Aðeins einn heildar uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Pálstóftir voru í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóðu af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Þar fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum og ummerki um að þarna hafi skartgripir verið gerðir.[2]

Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar með smávægilegum rannsóknum (t.d. skurðum), t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð eftir 1100.

Háskóli Íslands, Fornleifastofnun Íslands og fl. stóðu að fyrstu stóru fjölfaglegu rannsókn á seljabúskap á Íslandi. Þar fór fram náin, þverfagleg samvinna fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði til þess að svara spurningum er varða upphaf og hnignum búskaparins og hvaða vísbendingar það gefur um vistkerfi, félagskerfi, hagkerfi og landbúnaðarkerfi á Íslandi. Grafið var í 20 sel, tíu sel í Eyjafirði og tíu sel á suðvesturhorni landsins. Í Eyjafirði voru flest sel byggð eftir 1200. Þá fundust vísbendingar um að sel hafi í fyrstu verið byggð á gróðurlitlum svæðum, t.d. beint ofan á skriðum, og seljum hafi því einnig verið ætlað að rækta upp áður ógróið land.[6]

  1. Birna Lárusdóttir (2011). Mannvist.
  2. 2,0 2,1 Lucas, Gavin (2008). Pálstóftir: A Viking Age Shieling in Iceland.
  3. 3,0 3,1 Hitzler, Egon (1979). Sel – Untersuchungen zur Geschichte des isländisches Snnwesens seit der Landnahmzeit.
  4. Albína Huld Pálsdóttir (2005). Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum.
  5. 5,0 5,1 Gylfi Helgason (2023). Shielings in Eyjafjörður, N-Iceland: Some landscape pointers.
  6. Elín Ósk Hreiðarsdóttir; og fleiri (2023). „Transhumance in Eyjafjörður“ (PDF). Fornleifastofnun Íslands ses. Sótt 2023.