Sel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kýr í seli í Svissnesku Ölpunum. Þótt á Íslandi hafi verið mest um sauðfé í selum voru þar oft einnig kýr.

Sel voru hús sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar um Evrópu, einkum í fjallendi. Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi snemma á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap fólst það að mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, voru reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina.

Fólk af bænum, gjarnan vinnukonur ásamt smala, höfðust við í selinu á meðan og hirtu um skepnurnar. Sel voru gjarnan fjarri bæjunum, t.d. í afskekktum fjalladölum, og nýttu þannig beitiland sem annars hefði verið óaðgengilegt; þannig voru selin eins konar árstíðabundin útibú bæjanna.

Einkenni selja[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús. Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar. Seljarústir sem rannsakaðar hafa verið af fornleifafræðingum staðfesta þetta að nokkru leyti, því algengt er að rústirnar skiptist í þrjú hólf. Í tíunda hluta rústanna er þó aðeins eitt hólf en í sumum geta verið fleiri en tíu. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna, fjölda vinnufólks eða annarra staðbundinna þátta.

Uppgreftir[breyta | breyta frumkóða]

Aðeins einn uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Selið hafði verið í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóð af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Regluleg áfokslög milli gólflaga bentu til að selið hafi (eðlilega) aðeins verið í notkun árstíðabundið. Einnig fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum. Þó er ólíklegt að selið hafi í raun aðeins verið veiðikofi því þar fundust einnig ýmis konar áhöld, myntir og skartgripir sem höfðu verið smíðaðir á staðnum, en þetta bendir til langtímadvalar á staðnum.

Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar að einhverju marki, t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð fyrir 1300.

Dreifing[breyta | breyta frumkóða]

Ritheimildir, t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, benda til að sel hafi verið mjög misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu. Þessi munur kemur hins vegar ekki heim og saman við könnun fornleifa og örnefni, en örnefni tengd seljum eru algeng um allt land. Rétt eins og sel virðast hafa verið breytileg að gerð og stærð, er einnig mjög misjafnt hversu langt þau eru staðsett frá þeim bæjum sem þau heyrðu undir. T.d. er sel við Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu aðeins 1 km frá bænum en Garðar og Innri Hólmur á Akranesi áttu sel í allt að 30 km fjarlægð.

Hnignun[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifafræðingum er ekki að fullu ljóst hvers vegna seljabúskapur lagðist af á Íslandi á 18.-19. öld. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna stórubólu, sem gekk yfir landið 1707-1709; eða það að fráfærur lögðust af á sama tíma, samfara aukinni kjötframleiðslu. Undir lok 18. aldar þótti ýmsum sýnilega miður að seljabúskapurinn væri að leggjast af og reyndu að halda á lofti kostum hans í riti.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Birna Lárusdóttir (2011). Mannvist. Opna. ISBN 978-9935-10-045-0.