Skiltakarlarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Skiltakarlarnir eru mótmælendatvíeyki sem er þekkt fyrir skilti sín með boðskap gegn spillingu. Skiltakarlarnir eru þeir Ólafur Sigurðsson og Leifur Benediktsson og hafa þeir verið virkir síðan 2013.

Þeir félagar kynntust í framboði fyrir Lýðræðisvaktina sem fyrst reyndi framboð í Alþingiskosningum 2009 en dró þá framboð til baka. Lýðræðisvaktin reyndi aftur framboð í Alþingiskosningum 2013 en náði þá ekki manni á þing. Þeir Ólafur og Leifur leituðu því annara leiða til að sýna andstöðu gegn spillingu, þeim fannst umræða á Facebook ekki skila nægum árangri og úr varð að þeir útbjuggu skilti sem þeir stilltu upp á umferðareyjum og á öðrum áberandi stöðum með skilaboðum til ráðamanna og almennings en þannig er viðurnefni þeirra tilkomið. Auk þess að stilla upp skiltum og breiða þannig út boðskap sinn hafa þeir Ólafur og Leifur tekið þátt í og staðið fyrir fjölda mótmæla. Þeirra vilji er að stöðva spillingu í landinu.[1]

Mótmæli Skiltakarlanna árið 2016[breyta | breyta frumkóða]

Mótmælin 4. apríl 2016[breyta | breyta frumkóða]

Skiltakarlarnir voru í hópi skipuleggjanda stærstu mótmæla Íslandssögunnar en þau fóru fram á Austurvelli 4. apríl 2016, daginn eftir að Kastljós sýndi þátt um Panamaskjölin svokölluðu. Í þeim Kastljós þætti var flett var ofan af þremur ráðamönnum þjóðarinnar sem áttu hluta í aflandsfélögum í skattaskjóli á Bresku- jómfrúareyjum [2][3]. Þeir ráðamenn sem um ræðir voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra og Ólöf Norðdal, þáverandi innanríkisráðherra. Talið er að um 26.000 manns hafi sótt mótmælin á Austurvelli þennan dag[4].

Mótmæli við Landsbankann vegna Borgunarmálsins 26. janúar 2016[breyta | breyta frumkóða]

Skiltakarlarnir skipulögðu mótmæli við aðalútibú Landsbankans þann 26. janúar 2016 vegna sölu á hlut bankans í Borgun. Þeim fannst stjórnendur Landsbankans ekki hafa sinnt meginskyldu sinni, að verja hagsmuni eigenda (sem er almenningur í landinu) þegar þeir seldu hlut bankans í Borgun á undirverði. Afhentu þeir bankastjóra Landsbankans, Steinþóri Pálssyni, táknrænt uppsagnabréf og kröfðust þess að salan yrði dregin til baka. Mótmælin báru yfirskriftina "Lokað vegna spillingar [5], Um 100 manns sótti mótmælin[6].

Mótmæli við Borgun vegna Borgunarmálsins 2.mars 2016[breyta | breyta frumkóða]

Skiltakarlarnir mótmæltu einnig fyrir utan höfuðstöðvar Borgunar þar sem þeir settu skilti á ljósastaura á móti skrifstofubyggingunni sem á stóð "Borgunarmenn skilið þýfinu". Einnig höfðu þeir meðferðis "Spillingarsprey" sem þeir úðuðu á bifreiðar og glugga Borgunar og vildu með því reyna að þrífa spillinguna burt á táknrænan máta. Þeim gafst tækifæri á að ræða við forstjóra Borgunar, Hauk­ Odds­son, í anddyri Borgunar.[7]

Fagnaðarstund við Landsbankann 1. desember 2016[breyta | breyta frumkóða]

Skiltakarlarnir héldu fagnaðarstund við Landsbankann í Austurstræti, í hádeginu 1. desember 2016, þar sem þeir fögnuðu brottvikningu Steinþórs Pálssonar úr starfi bankastjóra Landsbankans. En Steinþór hafði hlotið mikla gagnrýni í kjölfar sölu á hlut bankans í Borgun.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bára Huld Beck (2016)
  2. Obermaier, Frederik and Obermayer, Bastian (e.d.)
  3. Þórður Snær Júlíusson (2016)
  4. Þórður Snær Júlíusson (2016)
  5. Ólafur Sigurðsson og Leifur Benediktsson (2016)
  6. Bjarni Pétur Jónsson (2016)
  7. Auður Albertsdóttir (2016)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]