Sjávarborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sjávarborg er bær í Borgarsveit í Skagafirði, rétt innan við Sauðárkrók, og stendur á klettaborg sem rís upp úr sléttlendinu austan við Áshildarholtsvatn. Út að ströndinni liggja Borgarmýrar og síðan Borgarsandur, sem var áður víðáttumikið sandflæmi en er nú mikið gróinn upp, en sunnan við land jarðarinnar er Miklavatn. Jarðhiti er í landi Sjávarborgar og fær Hitaveita Sauðárkróks þaðan vatn sitt, fyrst frá uppsprettu við Áshildarholtsvatn en seinna úr borholu á Borgarmýrum, sem nú eru raunar í landi Sauðárkróks.

Sjávarborg var eitt af stórbýlum héraðsins og var í eigu Ásbirninga á 13. öld. Þar bjuggu ýmsir höfðingjar og á 18. öld bjó þar Þorlákur Markússon (d. 1736), höfundur Sjávarborgarannáls. Nú býr annar fræðimaður á Sjávarborg, Kristmundur Bjarnason, sem skrifað hefur tugi bóka, einkum héraðssögur og ævisögur.

Vitað er að kirkja var á Sjávarborg að minnsta kosti frá því í byrjun 14. aldar og sennilega mun lengur. Þar var líka lengi prestssetur. Kirkjan var lögð af þegar kirkja var reist á Sauðárkróki 1892 en kirkjuhúsið ekki rifið, heldur nýtt af bændum á Sjávarborg. Það var svo endurbyggt á árunum 1973-1975 og endurvígt það ár. Kirkjan er friðuð og í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Hún er af elstu gerð íslenskra timburkirkna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar I. bindi. Skefilsstaðahreppur - Skarðshreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 1999. ISBN 978-9979-861-08-8

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]