Sjávarborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sjávarborg, sem í daglegu tali er oft kölluð Borg, er bær í Borgarsveit í Skagafirði, rétt innan við Sauðárkrók, og stendur á klettaborg sem rís upp úr sléttlendinu austan við Áshildarholtsvatn. Út að ströndinni liggja Borgarmýrar og síðan Borgarsandur, sem var áður víðáttumikið sandflæmi en er nú mikið gróinn upp, en sunnan við land jarðarinnar er Miklavatn. Bæði Borgarsandur og Borgarmýrar eru taldar draga nafn sitt af nafni jarðarinnar. Sjávarborg er ekki nefnd í Landnámabók en þar er Borgarsandur nefndur og er því líklegt að lögbýli hafi þá þegar verið á Sjávarborg um 1100 þegar Landnáma er rituð.[1]

Sjávarborg var eitt af stórbýlum héraðsins og löngum í eigu fyrirmenna. Jörðin hefur verið talin til höfuðbóla, þ.e. að verðgildi 60 hundraða eða meira en meðaljörð var 20-24 hundraða virði.[2] Árið 1439 var jörðin metin á 100 hundraða en 80 hundruð árið 1709.[3]

Ábúendur jarðarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Um 1300 var jörðin mögulega í eigu Kolbeins riddara Bjarnasonar frá Auðkúlu í Húnaþingi en hann var einn af fyrirmönnum landsins á 13. öld og er stundum titlaður jarl.[1][4] Á seinni hluta 14. aldar bjuggu á Sjávarborg feðgarnir Sighvatur og Jón Sighvatsson en um 1394 selur Jón séra Steinmóði Þorsteinssyni hinum ríka (d. 1403) jörðina.[5] Óvíst er hvort hann hafi búið þar þar sem hann hélt lengi jörðina Grenjaðarstaði. Íslendingabók.is segir Steinmóð hafa búið á Sjávarborg frá 1399.[6]

Ingileif Eiríksdóttir, dóttir Eiríks Magnússonar auðga á Svalbarði og Möðruvöllum í Eyjafirði, var fylgikona Steinmóðs. Þegar Steinmóður, Ingileif og synir þeirra tveir létust í plágunni 1403 erfðu systur Ingileifar jörðina og komst Sjávarborg þar með inn í miklar erfðadeilur afkomenda þeirra. Virðist sem Sjávarborg hafi endað í höndum Margrétar Eiríksdóttur, dóttir Eiríks ríka á Möðruvöllum og ekkju Benedikts Brynjólfssonar, sonar Brynjólfs ríka (d. 1381) en árið 1432 afhenda Margrét og sonur hennar Magnús Benediktsson Jóni Vilhjálmssyni Craxton biskupi jörðina en þar hafði Margrét búið síðan a.m.k. 1403.[7]

Svo virðist sem Jón biskup hafi stuttu seinna selt Lofti Guttormssyni hirðstjóra Sjávarborg.[7] Loftur gaf Eiríki syni sínum jörðina en hann seldi hana Birni Þorleifssyni hirðstjóra. Eftir dauða hans féll jörðin til Ólafar Loftsdóttur konu hans og þar til Þorleifs Björnssonar hirðstjóra, sonar þeirra. Var jörðin í eigu ættarinnar þar til á fyrri hluta 18. aldar.[1]

Á fjórða áratug 18. öld bjó á Sjávarborg Þorlákur Markússon (d. 1736), lögréttumaður í Hegranesþingi. Hann var höfundur Sjávarborgarannáls en einnig liggja eftir hann önnur ritverk.[8] Undir lok 20. aldar bjó annar fræðimaður á Sjávarborg, Kristmundur Bjarnason (d. 2019), sem skrifaði tugi bóka, einkum héraðssögur og ævisögur en hann var einnig fyrsti héraðsskjalavörður Skagfirðinga.[9]

Sjávarborgarkirkja[breyta | breyta frumkóða]

Á Sjávarborg var lengi prestssetur en Sjávarborgarkirkja var ætíð bændakirkja.[1] Vitað er að kirkja var á Sjávarborg að minnsta kosti frá því í byrjun 14. aldar og sennilega mun lengur. Í elsta máldaga kirkjunnar frá 1318, úr máldagabók Auðunar rauða Þorbergssonar Hólabiskups, er kirkjan sögð helguð heilögum Andrési postula and á þá kirkjan eintak af Andrés sögu postula.[10] Þessi máldagi er jafnframt elsta heimild um Sjávarborg.[1]

Upprunalega stóð kirkjuhúsið rétt norðan gamla torfbæjarins en var síðar fært og stendur núna norðarlega á borginni. Kirkjan var lögð af þegar kirkja var reist á Sauðárkróki 1892 en kirkjuhúsið ekki rifið heldur nýtt af bændum á Sjávarborg sem skemma. Kirkjan var endurbyggð á árunum 1973-1975 og endurvígð árið 1983. Kirkjan sem nú stendur á Sjávarborg er af elstu gerð íslenskra timburkirkna. Hún var hönnuð af Ólafi Guðmundssyni frá Húsey og byggð árið 1853. Guðjón Jónsson snikkari á Akureyri var yfirsmiður verksins en hann var þekktur fyrir listfengi. Grind hússins er úr bindingsverki og er hún klædd utan með slagþili á veggjum en rennisúð á þaki.[11]

Kirkjan er friðuð og hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Húsið er opið gestum daglega frá 8 til 18.[12] Á Þjóðminjasafni eru einnig varðveittir nokkrir gripir úr Sjávarborgarkirkju, m.a. kirkjuklukka með gotnesku lagi sem er talin vera sú klukka sem Kolbeinn jarl gaf kirkjunni um 1300.[1]

Jarðhiti[breyta | breyta frumkóða]

Jarðhiti er í landi Sjávarborgar og fær Hitaveita Sauðárkróks þaðan vatn sitt, fyrst frá uppsprettu við Áshildarholtsvatn en seinna úr borholu á Borgarmýrum, sem nú eru raunar í landi Sauðárkróks.[13]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Helgi Þorláksson. Vaðmál og verðlag: Vaðmál í utanlandsviðskiptum og búskap Íslendinga á 13. og 14. öld, 1991.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar I. bindi. Skefilsstaðahreppur - Skarðshreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 1999. ISBN 978-9979-861-18-8
  • Jón Þorkelsson (ritstj.): Diplomatarium Islandicum: Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bref og gjörnínga, dóma og máldaga, og aðrar skrár er snera Ísland eða íslenzka menn, bd. II, 1893. https://baekur.is/bok/000197700/2
  •  Margrét Hallgrímsdóttir et al. (ritstj.): Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi: Goðdalakirkja, Hvammskirkja, Ketukirkja, Reykjakirkja, Reynistaðarkirkja, Sauðárkrókskirkja, Silfrastaðakirkja, Sjávarborgarkirkja, Víðimýrarkirkja bd. V. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2005.
  • Páll Eggert Ólason (ritstj.): Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 bd. V. Hið íslenzka bókmenntafélag, 1952.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Kirkjur Íslands. Guðmundur L. Hafsteinsson, Margrét Hallgrímsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. 2001-<2017>. ISBN 9979-66-106-2. OCLC 61704563.
  2. Þorláksson., Helgi (1991 [i.e. 1992]). Vaðmál og verðlag : vaðmál í utanlandsviðskiptum og búskap Íslendinga á 13. og 14. öld. [Helgi Þorláksson]. OCLC 264169930.
  3. Katrín Gunnarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir (2003-2004). „Fornleifaskráning fyrir aðalskipulag: Sjávarborg“ (PDF). Sótt 2022.
  4. Diplomatarium Islandicum bd. I. bls. 665.
  5. Diplomatarium Islandicum bd. III. bls. 529.
  6. „Íslendingabók“. www.islendingabok.is. Sótt 22. júní 2022.
  7. 7,0 7,1 Bogi, Benediktsson, (1881-1932). Sýslumannaæfir. bls. 440–441. OCLC 468435479.
  8. Páll Eggert Ólason (1952). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 bd. 5. Hið íslenzka bókmenntafélag. bls. 164.
  9. „Andlát: Kristmundur Bjarnason“. www.mbl.is. Sótt 20. júní 2022.
  10. Diplomatarium Islandicum II. 1893. bls. 467-468.
  11. Guðmundur L. Hafsteinsson (2008). „Byggingarlýsing Sjávarborgarkirkju“ (PDF). Sótt 2022.
  12. „Sjávarborgarkirkja í Skagafirði“. Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 2022.
  13. „Saga hitaveitanna“. Skagafjarðarveitur. Sótt 20. júní 2022.