Íslendingabók (ættfræðigrunnur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íslendingabók er gagnagrunnur líftæknifyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar og Friðriks Skúlasonar með upplýsingum um ættir allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Í febrúar 2017 innihélt grunnurinn upplýsingar um rúmlega 854.000 manns. Grunnurinn inniheldur líklega upplýsingar um um það bil helming allra þeirra Íslendinga sem búið hafa á Íslandi frá landnámi.

Ýmsar heimildir eru notaðar við samantekt ættfræðiupplýsinga: Manntöl, þjóðskrá, kirkjubækur og niðjatöl eru helstu heimildirnar. Auk þess er notast við stéttatöl, ábúendatöl, íbúaskrár, minningargreinar, annála, alþingisbækur, dómabækur og ýmis fornrit.

Íslendingabók er eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Íslensk erfðagreining setti grunninn saman í samstarfi við Friðrik Skúlason með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir fyrirtækisins. Íslendingar geta fengið aðgang að grunninum til að skoða upplýsingar um sjálfa sig og leita upplýsinga um ættir sínar.

Íslendingabók fær nafn sitt frá Íslendingabók Ara fróða, en þar er saga Íslands rakin frá landnámi og fram á 12. öld, eða til u.þ.b. 1120.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]