Sigvaldi Kaldalóns
Sigvaldi Kaldalóns (Stefánsson) (13. janúar 1881- 28. júlí 1946) var íslenskt tónskáld og læknir.
Meðal þekktustu laga Sigvalda eru t.d. Ísland ögrum skorið; Á Sprengisandi; Suðurnesjamenn; Svanasöngur á heiði; Erla, góða Erla; Ave María; Draumur hjarðsveinsins, Þú eina hjartans yndið mitt og Ég lít í anda liðna tíð.
Sigvaldi nam læknisfræði við Læknaskólann í Reykjavík og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen. Þegar heim kom starfaði hann vetrarlangt sem læknir á Hólmavík en fékk síðan veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni vorið 1911. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns árið 1916. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Hann fluttist frá Ármúla 1921. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað árið 1926 og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið og þar söng Eggert Stefánsson óperusöngvari, bróðir hans það fyrst opinberlega. Í Flatey var hann þar til hann fluttist í Keflavíkurhéraðið. Sigvaldi var læknir við héraðslæknisembættið í Keflavík árin 1929-45, búsettur í Grindavík. Dvöl hans þar hefur verið líkt við "menningarlega vígslu" í héraðinu. Þar dvöldu löngum hjá honum eða í návist hans þjóðkunnir listamenn eins og Gunnlaugur Scheving, Halldór Laxness, Ríkharður Jónsson, Steinn Steinarr o.fl.
Sigvaldi Kaldalóns var yfirleitt mjög hógvær í garð laga sinna en um Ísland ögrum skorið, sem er eitt þekktasta lag hans, sagði hann þó að það ætti e.t.v. eftir að verða þjóðsöngur Íslands. Meðal annara þekktustu laga hans sem allir landsmenn þekkja má nefna: Ave maria, Fjallið eina, Hamraborgin, Kirkjan ómar öll, Nóttin var sú ágæt ein, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Svanasöngur á heiði.
Minnisvarði um Sigvalda er við Menningarmiðstöð Grindavíkur en Sigvaldi bjó og starfaði í Grindavík í 16 ár frá 1929 - 1945. Einnig eru minnisvarðar um Sigvalda í Kaldalóni og í Flatey. Hann er eitthvert ástsælasta tónskáld Íslendinga.
Nokkur valin lög eftir Sigvalda
[breyta | breyta frumkóða]Hlekkir
[breyta | breyta frumkóða]- Æviágrip Sigvalda Kaldalóns, skrifað rétt eftir andlát hans (Morgunblaðið, 174. tölublað (07.08.1946), Blaðsíða 7)
- Umfjöllun um Sigvalda Kaldalóns á Glatkistunni