Sögur herlæknisins
Sögur herlæknisins (sænska: Fältskärns berättelser) er söguleg skáldsaga eftir finnska rithöfundinn Zacharias Topelius. Sagan kom fyrst út sem framhaldssaga í dagblaðinu Helsingfors Tidningar 1851-1866 og síðan í bókarformi í fimm bindum 1853-1867. Verkið er safn af samtengdum sögum sem byggja á atburðum í sögu Svíþjóðar frá stórveldistímanum og síðar á 17. og 18. öld.
Sögurnar skiptast í 15 frásagnir sem hver skiptist í nokkra kafla. Sögutími nær yfir ríkisár Gústafs 2. Adolfs, Kristínar Svíadrottningar, Karls 10. Gústafs, Karls 11., Karls 12., Úlriku Elenóru, Friðriks 1., Adolfs Friðriks og Gústafs 3.
Þýðingar
[breyta | breyta frumkóða]Matthías Jochumsson þýddi sögurnar á íslensku. Sjöunda frásagan, „Blástakkar“, kom út 1898 í ritröðinni Bókasafn alþýðu sem Oddur Björnsson prentari stóð fyrir í Kaupmannahöfn. Frásagnirnar komu síðan allar út á prenti í sex bindum á Ísafirði 1904-1909 sem hvert heitir eftir þeim Svíakonungi sem ríkti á sögutímanum. Þær voru endurútgefnar 1955 í þremur bindum. Hljóðbókaútgáfan Hlusta.is hóf að gefa þýðinguna út sem hljóðbók árið 2010 og Rafbókavefurinn hóf að gefa þýðinguna út á rafbókarformi 2014.