Fara í innihald

Sósíalíski einingarflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sósíalíski einingarflokkur Þýskalands
Sozialistische Einheitspartei Deutschlands
Aðalritari Wilhelm Pieck og Otto Grotewohl (1946-1950)
Walter Ulbricht (1950-1971)
Erich Honecker (1971-1989)
Egon Krenz (1989)
Stofnár 21. apríl 1946
Samruni eftirtalinna hreyfinga Austur-þýskra deilda Kommúnistaflokksins og Jafnaðarmannaflokksins
Lagt niður 16. desember 1989
Gekk í Lýðræðislega sósíalistaflokkinn
Félagatal 2.260.979 (1989)[1]
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi
Marx-lenínismi
Stalínismi (fyrir 1953)
Einkennislitur Rauður

Sósíalíski einingarflokkur Þýskalands (þýska: Sozialistische Einheitspartei Deutschlands eða SED) var kommúnískur stjórnmálaflokkur í Alþýðulýðveldinu Þýskalandi. Sósíalíski einingarflokkurinn leiddi svokallaða þjóðfylkingu (þýska: Nationale Front) sem var bandalag stjórnmálaflokka sem fengu að starfa með náð austur-þýskra stjórnvalda. Þar sem Sósíalíski einingarflokkurinn var eini stóri stjórnmálaflokkurinn sem var leyfður fór flokkurinn í raun fyrir flokksræði í Austur-Þýskalandi og hafði tögl og hagldir á öllum pólitískum völdum í landinu.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Í apríl árið 1946, eftir ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, neyddu Sovétmenn meðlimi þýska Jafnaðarmannaflokksins (SPD) og Kommúnistaflokksins (KPD) innan sovéska hernámssvæðisins í Þýskalandi til að sameinast í einn marx-lenínískan stjórnmálaflokk. Deildir flokkanna á hernámssvæðum Vesturveldanna tóku ekki þátt í samrunanum og Jafnaðarmannaflokkurinn starfaði því áfram sjálfstætt í Vestur-Þýskalandi. Þrátt fyrir að Sósíalíski einingarflokkurinn væri því að nafninu til samfylking þýskra vinstriafla varð flokkurinn í reynd að mestu framhald af Kommúnistaflokknum þar sem sjónarmið hófsamari jafnaðarmanna hlutu engan hljómgrunn.

Sósíalíski einingarflokkurinn hafði skipulag Kommúnistaflokks Sovétríkjanna að fyrirmynd.[2][3] Í áróðri kommúnista var látið líta út fyrir að samruni flokkanna hefði farið fram af frjálsum vilja beggja aðila.[4] Kommúnistinn Wilhelm Pieck og jafnaðarmaðurinn Otto Grotewohl fóru sameiginlega með formennsku í flokknum á fyrstu árum hans.

Þrátt fyrir nokkuð ítarlegar hreinsanir, sér í lagi innan stjórnsýslunnar, taldist sagnfræðingnum Jan Foitzik svo til að árið 1954 hefði um 27% flokksmeðlima Sósíalíska einingarflokksins verið gamlir félagar úr Nasistaflokknum.[5] Í skýrslu frá árinu 1954 hafði gömlum félögum úr Nasistaflokknum numið 8,6% af félagatali Sósíalíska einingarflokksins.[6] Mögulega má skýra þetta með því að báðir flokkarnir voru fjöldahreyfingar (meðlimir Nasistaflokksins voru 8,5 milljónir talsins árið 1945 og meðlimir Sósíalíska einingarflokksins voru 2,3 milljónir árið 1989). Aftur á móti voru gamlir meðlimir Nasistaflokksins sem ekki höfðu verið bendlaðir við kúgun nasistastjórnarinnar fjölmennari innan Þjóðarlýðræðisflokksins (þ. National-Demokratische Partei Deutschlands).[7][8]

Sósíalíski einingarflokkurinn var í forsvari fyrir „Þjóðfylkingu þýska alþýðulýðveldisins“, sem taldi til sín alla löglega stjórnmálaflokka og fjöldahreyfingar landsins. Aðildarflokkar Þjóðfylkingarinnar buðu fram á austur-þýska þingið á sameiginlegum kosningalista undir forystu Sósíalíska einingarflokksins.[9]

Flokkurinn glataði smám saman völdum í Austur-Þýskalandi eftir hrun Berlínarmúrsins í nóvember árið 1989. Í fyrstu frjálsu þingkosningunum sem haldnar voru í mars 1990 vann austur-þýsk deild Kristilega demókrataflokksins sigur og lagalegir yfirburðir Sósíalíska einingarflokksins, sem höfðu verið innsiglaðir í stjórnarskrá Austur-Þýskalands frá árinu 1968, voru afnumdir í desember 1989. Tveimur dögum síðar sagði öll miðnefnd flokksins af sér.[10]

Við upplausn þýska alþýðulýðveldisins breytti Sósíalíski einingarflokkurinn nafni sínu í Lýðræðislega sósíalistaflokkinn árið 1990 og endurskilgreindi sig sem lýðræðislegan sósíalistaflokk undir forystu lögfræðingsins Gregors Gysi. Sá flokkur hélt áfram störfum eftir sameiningu Þýskalands og skilgreindi sig vinstra megin við Jafnaðarmannaflokkinn. Sanntrúaðir kommúnistar, þar á meðal gamli flokksforinginn Erich Honecker, stofnuðu hins vegar nýjan Kommúnistaflokk, en þessi flokkur hlaut aðeins 0,1% atkvæða í fyrstu og síðustu frjálsu þingkosningum Austur-Þýskalands.

Í aðdraganda þýsku þingkosninganna árið 2005 myndaði Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn kosningabandalag við flokkinn WASG (Arbeit und soziale Gerechtigkeit – Die Wahlalternative), klofningsflokk Oskars Lafontaine úr Jafnaðarmannaflokknum. Flokkarnir sameinuðust formlega árið 2007 og mynduðu með sér Vinstriflokkinn (þýska: Die Linke), sem er í dag sjötti stærsti flokkurinn á þýska þinginu.

Leiðtogar Sósíalíska einingarflokksins

[breyta | breyta frumkóða]
# Mynd Nafn Tók við embætti Lét af embætti
Formenn Sósíalíska einingarflokksins
Vorsitzende der Sozialistischen Einheitspartei Deutschlands
Wilhelm Pieck
(1876–1960)
22. apríl 1946 25. júlí 1950
Otto Grotewohl
(1894–1964)
Aðalritarar miðnefndarinnar
(titlaðir Fyrstu ritarar miðnefndarinnar 1953–1976)
Generalsekretär/Erster Sekretär des Zentralkommitees
1 Walter Ulbricht
(1893–1973)
25. júlí 1950 3. maí 1971
2 Erich Honecker
(1912–1994)
3. maí 1971 18. október 1989
3 Egon Krenz
(1937–)
18. október 1989 3. desember 1989
Heiðursformaður miðnefndarinnar
Vorsitzender des Zentralkommitees
Walter Ulbricht
(1893–1973)
3. maí 1971 1. ágúst 1973

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dirk Jurich, Staatssozialismus und gesellschaftliche Differenzierung: eine empirische Studie, bls. 31. LIT Verlag Münster, 2006, ISBN 3825898938
  2. Heinrich August Winkler (2005). Histoire de l’Allemagne, [[:Snið:Sp-]]. Paris: Fayard. ISBN 2-213-62443-7. {{cite book}}: Árekstur í URL og wikihlekki (hjálp)
  3. Gilbert Badia (1987). L’histoire de l’Allemagne contemporaine. 2. árgangur. Messidor / Editions sociales.
  4. Lutz Priess (1. janúar 1986). „Fjörutíu ára Sósíalískur einingarflokkur Þýskalands (SED)“. Réttur. bls. 50-54.
  5. „Des nazis chez les communistes de la RDA“. Europe 1. 23. september 2012. Sótt 20. október 2021.
  6. Deutscher Bundestag (4. október 2019). „Kurzinformation. Zur Zahl der ehemaligen Mitglieder der NSDAP in der Sozialistischen Einheitspartei Deutschlands (SED)“ (PDF) (þýska). Sótt 20. október 2021.
  7. Gilbert Badia. Histoire de l'Allemagne contemporaine. bls. 346.
  8. Andreas Herbst, Winfried Ranke, Jürgen Winkler: So funktionierte die DDR, bls. 714.
  9. Bjarni Benediktsson (13. október 1954). „Þjóðfylking um frið“. Þjóðviljinn. bls. 7; 9.
  10. Jean Mortier. „Compte rendu – Ausschluss. Das Politbüro vor dem Parteigericht. Das Verfahren 1989/1990 in Protokollen und Dokumenten“. Regards sur la RDA et l'Allemagne de l'Est. Sótt 20. október 2021.