Fara í innihald

Sófókles

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sófokles)
Sófókles

Sófókles (496/497–406 f.Kr.) var einn af þremur mestu harmleikjahöfundum Forn-Grikkja ásamt Æskýlosi og Evrípidesi. Fyrstu verk hans eru yngri en verk Æskýlosar en eldri en Evrípidesar. Sófókles mun hafa verið afkastamikið skáld og er talið að hann hafi samið allt að 123 leikrit. Af þeim eru aðeins sjö varðveitt, það eru Antigóna, Ödipús konungur, Elektra, Ajax, Trakynjur, Fíloktetes og Ödipús í Kolónos. Sófókles naut mikillar virðingar samtímamanna sinna og hlaut oftar en nokkur annar verðlaun fyrir leikrit sín á Lenaju- og Díonýsosarhátíðunum. Þá mun hann hafa tekið þátt í fjölmörgum leikritakeppnum og aldrei lent neðar en í öðru sæti.

Sófókles samdi mikinn fjölda harmleikja, um eða yfir 120 leikrit. Leikritin voru send inn í keppni á Díonýsosarhátíðinni en hver höfundur sendi inn þrjá harmleiki og einn satýrleik. Sófókles vann fyrstu verðlaun um 20 sinnum, oftar en nokkurt annað harmleikjaskáld, og ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurn tímann lent neðar en í öðru sæti.

Frægustu harmleikir Sófóklesar eru Þebuleikirnir en þeir eru Antigóna, Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos. Sófókles hafði mikil áhrif á þróun leiklistarinnar. Hann fjölgaði leikurum úr tveimur í þrjá sem rýrði hlutverk kórsins mjög. Kórmeðlimum fjölgaði hann úr tólf í fimmtán, innleiddi nýjar tegundir búninga og málaðar sviðsmyndir.

Sófókles fæddist í Kolónos nærri Aþenu. Hann var af auðugu fólki en faðir hans, Sófillos, er talinn hafa verið vopnaverksmiðjueigandi. Mörg leikrita Sófóklesar gerast í fæðingarbæ hans. Fáeinum árum fyrir fæðingu hans átti orrustan við Marathon sér stað. Sófókles þótti mjög efnilegur strax á unga aldri. Hann var mikill atgervismaður að vexti og yfirbragði og talinn ljóngáfaður. Hann var íþróttamaður góður og framúrskarandi hörpuleikari. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á enda var engin þörf á sparnaði hjá fjölskyldu hans.

Fyrsti sigur Sófóklesar á listasviðinu var árið 468 f.Kr. þegar hann hlaut fyrstu verðlaun fyrir leikrit á Díonýsosarhátíðinni. Þar sigraði hann meistarann Æskýlos en samkvæmt Plútarkosi vannst sigurinn á óvenjulegan hátt. Í stað þess að fylgja venjunni og velja dómara með hlutkesti bað stjórnandi hátíðarinnar Kímon og fleiri hæstráðendur að ákveða sigurvegarann. Sófókles naut kunningsskapar við Períkles og Kímon sem á þessum tíma voru forystumenn í stjórnmálunum. Þrátt fyrir að Plútarkos segi að um hafi verið að ræða fyrstu leiksýningu Sófóklesar er ekki víst að það sé alveg rétt því líklegt þykir að sú sýning hafi farið fram 470 f.Kr. Triptolemos er talið meðal fyrstu leikrita Sófóklesar á Díonýsosarhátíðinni.

Sófókles varð jafn mikilvægur maður í stjórnsýslu Aþenuborgar og í leikhúsinu. Hann var sextán ára gamall þegar hann var valinn til að leiða sigursöng til guðanna eftir afgerandi sigur Grikkja á Persum við Salamis. Sófókles naut trausts samborgara sinna sem völdu hann til ýmissa ábyrgðarstarfa. Kringum árið 443 f.Kr. var hann einn féhirða Aþenu og þá tók hann einnig þátt í hernaðarstjórn, meðal annars í herleiðangri Aþenumanna gegn Samos sem gert hafði uppreisn árið 441 f.Kr. Hann sat í nefnd manna árið 413 f.Kr. sem ætlað var að rétta af hag ríkisins eftir ósigur Aþeninga við Sikiley. Sófókles mun hafa umgengist marga þekktustu samtímamenn sína, til dæmis heimspekinginn Arkelaosi og sagnaritarann Heródótosi.

Sófókles var guðhræddur maður og trúrækinn. Var hann prestur ýmissa lækningaguða og árið 420 f.Kr. mun hann hafa gert hús sitt að helgidómi Asklepíosar lækningaguðs.

Sófókles lést um nírætt, kringum árið 406 f.Kr. Hann hafði upplifað sigur Grikkja í Persastríðunum og einnig blóðsúthellingar Pelópsskagastríðsins. Líkt og með marga aðra þekkta menn fornaldar varð dánarorsök Sófóklesar mönnum mikið íhugunarefni. Meðal annars eru sögur til um að hann hafi dáið eftir að hafa reynt að flytja langar setningar úr Antígónu án þess að taka sér hvíld til að anda og önnur um að hann hafi kafnað við að borða vínber á Anthesteriahátíðinni í Aþenu. Stuttu fyrir dauða hans reyndu synir hans að fá því lýst yfir að hann væri óábyrgur gjörða sinna en hann mun hafa afsannað það með því að lesa úr ófullgerðu leikriti sínu, Ödipús í Kolónos. Íófón sonur hans og barnabarn hans, Agaþon, fetuðu í fótspor hans og urðu skáld.

Leikrit Sófóklesar

[breyta | breyta frumkóða]

Ein af fyrstu breytingum Sófóklesar á leikritagerðinni var fjölgun leikara úr tveimur í þrjá sem dró úr hlutverki kórsins og skapaði frekari tækifæri á að þróa persónurnar og átök milli þeirra. Aiskýlos var helsta leikritaskáld Grikkja á fyrstu árum Sófóklesar og fylgdi hann stefnu arftaka síns og tók upp þriðja leikarann í leikrit sín á síðustu árum ævi sinnar. Aðalheimild um þróun formsins er verk Aristótelesar Um skáldskaparlistina og segir hann meðal annars þar að Sófókles hafi verið frumkvöðull leiktjaldamálunar. Eftir dauða Æskýlosar árið 456 f.Kr. varð Sófókles fremsta leikritaskáld Grikkja.

Sófókles sigraði í leikritakeppnum átján Díonýsosarhátíða og sex Lenaiahátíða. Auk breytinga á formi leikritsins er Sófókles þekktur fyrir fullkomnari úrvinnslu á persónum leikrita sinna heldur en fyrri skáld. Orðspor hans var slíkt að erlendir stjórnendur buðu honum að koma og dvelja við hirðir sínar en ólíkt Aiskýlosi, sem dó á Sikiley, og Evrípidesi, sem dó í Makedóníu, þekktist Sófókles aldrei slík boð.

Einungis tvö af sjö varðveittum verkum Sófóklesar er mögulegt að tímasetja með vissu en það eru Fíloktetes (409 f.Kr.) og Ödipús í Kolónos (401 f.Kr., sett á svið eftir dauða Sófóklesar af barnabarni hans). Elektra þykir sýna lík stíleinkenni og þessi tvö leikrit sem bendir til að það hafi verið ritað á svipuðum tíma. Ajax, Antígóna og Trakynjur eru almennt taldar meðal fyrri verka Sófóklesar og er sú tillaga byggð á líkindum með stílbrögðum leikritanna. Ödipús konung er hann talinn hafa samið um miðja ævina.

Varðveitt verk

[breyta | breyta frumkóða]

Ártöl eru ekki alltaf nákvæm

Þebuleikirnir

[breyta | breyta frumkóða]

Önnur leikrit

[breyta | breyta frumkóða]

Leikrit varðveitt í brotum

[breyta | breyta frumkóða]

Brot leikritsins Satýrarnir (Ikknevtæ) uppgötvuðust í Egyptalandi árið 1907. Það er annar tveggja satýrleikja sem fundist hafa.

Brot leikritsins Afkomendurnir (Epigonoi) fundust í apríl árið 2005 þegar fornfræðingar við Oxford University gátu lesið þau með hjálp innrauðra ljósgeisla sem áður voru notaðir í ljósmyndun frá gervitunglum. Harmleikurinn segir sögu af umsátri um Þebu.

Þebuleikirnir

[breyta | breyta frumkóða]

Þebuleikirnir samanstanda af þremur leikritum: Antígónu, Ödipús konungi og Ödipús í Kolónos. Leikritin þrjú fjalla öll um örlög Þebu um og eftir stjórnartíð Ödipúsar konungs. Þau hafa oft verið gefin út í einu bindi erlendis og á Íslandi gaf Menningarsjóður Þebuleikina út í einu bindi árið 1978 í þýðingu Jóns Gíslasonar. Sófókles sjálfur ritaði leikritin hvert í sínu lagi og með margra ára millibili. Þebuleikirnir teljast heldur ekki raunverulegir þríleikir (þrjú leikrit sett fram sem óslitin frásögn). Hver Þebuleikanna telst sjálfstætt verk og seinni tvö verkin eru ekki framhald á fyrsta verkinu. Fyrst skrifaði Sófókles Antígónu en Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos lýsa atburðum sem eiga að gerast á undan atburðum Antígónu.

Önnur leikverk

[breyta | breyta frumkóða]

Að undanskildum Þebuleikunum eru fjögur önnur varðveitt: Ajax, Trakynjur, Elektra og Fíloktetes.

  • Ajax (eða Ajant) fjallar um hina drambsömu hetju Trójustríðsins, Ajant Telamonsson. Ajant verður sturlaður þegar herklæði Akkillesar falla Ódysseifi í skaut en ekki honum. Hann fyrirfer sér en þrátt fyrir óvináttu Grikkja gagnvart honum átelur Ódysseifur Menelás konung til að veita Ajant sómasamlega útför.
  • Trakynjur (nefndar eftir meyjunum í Trakhis sem kórinn samanstendur af) færa í leikbúning söguna um Deianiru sem drap Heracles óviljandi eftir að hann hafði lokið við sínar frægu tólf áraunir. Deianiru er talin trú um að hún hafi undir höndum ástarseið. Hún setur seiðinn á föt Heraclesar en við það verða þau baneitruð og valda kvalafullum dauða hans. Er hún kemst að hinu sanna sviptir hún sig lífi.
  • Elektra segir frá systkinunum Elektru og Orestesi sem hefna morðsins á föður þeirra, Agamemnoni, sem framið var af móður þeirra Klytamnestru og ástmanni hennar Aegisthusi.
  • Fíloktetes er um bogmanninn Fíloktetes sem yfirgefinn var á eynni Lemnos af gríska flotanum á leið í Trójustríðið. Grikkir finna það út að þeir geti ekki unnið Tróju án boga Fíloktetesar og senda því Ódysseif og Neoptolemus eftir honum. Vegna svika Grikkja gagnvart honum neitar Fíloktetes að ganga til liðs við herinn á ný. Vegna óvæntrar lausnar Heraclesar fæst Fíloktetes þó að lokum til að halda af stað til Tróju.

Fjölmörg brot úr öðrum leikverkum Sófóklesar hafa fundist og eru enn að finnast. Síðast árið 2005 uppgötvuðu fornfræðingar við Oxfordháskóla brot úr harmleiknum Afkomendurnir (Epigonoi). Af öllum þessum leikritabrotum má nefna Aias Lokros, Hermíóna, Níóba, Triptolemos og Þýestes. Árið 1907 fannst um helmingur leikritsins Satýrarnir (Ikknevtæ) í Egyptalandi.

  • „Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvar er best að finna heimildir um leiklist Forn-Grikkja?“. Vísindavefurinn.
Varðveitt leikrit Sófóklesar

Villa í segð: Óþekkt orð „f”.