Fara í innihald

Antígóna (Sófókles)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Antígóna er harmleikur eftir Sófókles ritað um 442 f.Kr. eða fyrr en á því ári var hann frumsýndur í Aþenu. Harmleikurinn er eitt þriggja leikrita sem kölluð hafa verið Þebuleikirnir og byggjast á arfsögnum um konungsættina í Þebu. Hin tvö leikritin eru Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos, samin seinna en lýsa atburðum sem eiga að hafa gerst fyrr í sögunni en efni Antígónu.

Bakgrunnur sögunnar[breyta | breyta frumkóða]

Í elstu gerðum sögunnar fer útför Pólíneikesar fram á meðan Ödipús er enn konungur í Þebu. Í verki Sófóklesar á hún sér ekki stað fyrr en eftir útlegð og dauða Ödipúsar. Þegar Ödipús fór frá sem konungur Þebu lét hann konungdæmið í hendur sona sinna Eteóklesar og Pólíneikesar sem samþykktu að skiptast á að fara með konungdóm á hverju ári. En þeir sviku loforðið við föður sinn sem bölvaði þeim fyrir vanræksluna. Eftir fyrsta árið neitaði Eteókles að stíga niður fyrir bróður sinn sem þá réðst á Þebu ásamt stuðningsmönnum sínum. Báðir bræðurnir falla í átökunum og Kreon kemst til valda.

Kreon er ættingi Ödipúsar, hann er bróðir Jóköstu drottningar Lajosar konungs af Þebu. Véfrétt Apollons hafði ráðið Laiusi frá því að geta börn þar sem sonur hans mundi vega hann og ganga að eiga móður sína. Jókasta elur honum engu að síður son og lét Laius þá bera hann út. Sveinninn var skilinn eftir á Kíþaironsfjalli með gegnumstungna fætur. En ekki beið hann bana heldur fann smalamaður konungs Korinþu barnið og færði Polýbosi konungi þeirrar borgar það. Polýbos elur sveininn upp sem sinn eigin son og kallar Ödipús. Ödipús stendur í þeirri trú að hann sé sonur Polýbosar og drottningar hans, Meropu, en dag einn lendir hann í rifrildi við jafnaldra sína sem gefa í skyn að ekki sé allt með felldu varðandi foreldra hans. Heldur þá Ödipús til véfréttarinnar í Delfí til að komast að sannleikanum og fær það svar að hann skuli forðast föðurland sitt því þar muni hann drepa föður sinn og giftast móður sinni.

Laius lagði konungdæmið í hendur Kreoni við brottför sína til véfréttarinnar í Delfí þar sem hann vildi leita ráða vegna hins ógurlega sphinx sem þá hrjáði íbúa í Þebu. Laius mætir Ödipúsi á leiðinni sem neitar að víkja úr vegi fyrir honum. Endar fundur þeirra á því að Ödipús drepur Laius, grunlaus um að hann hafi verið faðir hans. Þegar boð koma um dauða Laiusar konungs býður Kreon konungdæmið og hönd systur sinnar hverjum þeim sem geti frelsað borgina undan sphinxnum. Ödipús svarar gátum sphinxins rétt og sigrar hann með þeim hætti. Hann giftist Jóköstu og verður konungur Þebu. Eignast Ödipús og Jókasta fjögur börn, synina Eteókles og Pólíneikes og dæturnar Antígónu og Ísmenu. Af hjónabandi þeirra hlaust það að drepsótt mikil kom í landið og véfréttin í Delfí sagði að henni myndi ekki létta fyrr en banamaður Lajosar yrði gerður útlægur úr ríkinu. Setti Ödipús af stað rannsókn um þetta mál og komst loksins sannleikurinn upp á borðið, Ödipús hafði óafvitandi banað föður sínum og gifst móður sinni. Þebuleikir Sófóklesar, þ.e. leikritin Antígóna, Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos fjalla um þessa sögu, en Antígóna tekur síðasta hluta sögunnar fyrir.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Leikritið segir frá Kreoni, nýjum konungi Þebu, sem bannar Antígónu að greftra lík bróður síns, Pólíneikesar, þar sem hann hefur gerst sekur um landráð. Konungurinn vill að Pólíneikes hljóti þá refsingu sem landráðamanni beri og að lík hans verði hundum og hræfuglum að bráð öðrum til viðvörunar. Antígóna telur sér siðferðilega skylt að veita bróður sínum sómasamlega útför og gerir það gegn vilja konungs sem dæmir hana þá til dauða. Dauðadómur konungs yfir Antígónu veldur konunginum mikilli óhamingju. Sonur Kreons konungs og unnusti Antígónu er Hemon sem ann henni svo mikið að hann sviptir sig lífi. Dauði Hemons veldur mikilli geðshræringu hjá móður hans, Evrídíku drottningu, og verður til þess að hún sviptir sig einnig lífi. Kreon iðrast stórlega yfir ákvörðunum sínum og í lok leikritsins er hann niðurbrotinn maður og fullur eftirsjár.

Bæði eru Kreon og Antígóna einstrengingsleg en hafa bæði nokkuð til síns mál. Hvorugt vill láta undan fyrir hinu. Heimspekingurinn Georg Wilhelm Friedrich Hegel taldi Antígónu eitt besta dæmi heimsbókmenntanna um átökin milli einstaklingsins og ríkisvaldsins. Í forngrískum trúarbrögðum var það viðhorf manna að fengju menn ekki greftrun kæmust þeir ekki til undirheima og gætu ekki sameinast forfeðrum sínum. Kreon er kominn út fyrir svið ríkisvaldsins með því að meina Antígónu að grafa lík bróður síns. Antígóna neitar að samþykkja að réttvísi og refsingar gildi jafnt um látna sem lifandi. Systir hennar, Ísmena, er raunsærri og gerir mikið úr því að þær séu konur sem ekki eigi að skipta sér af stjórn ríkisins.

Viðtökur[breyta | breyta frumkóða]

Leikritið var vinsælt á 20. öld og var Kreoni þá gjarnan líkt við einræðisherra þeirrar aldar. Mikið var gert í því að heimfæra verkið yfir á nútímann. Leikritið var flutt í þýðingu Jóns Gíslasonar í útvarpi árið 1959. Árið 1969 var það sett upp og tengdu gagnrýnendur það við ýmsa atburði sem þá voru að gerast, til dæmis stúdentauppreisnir, hungursneyð í Bíafra og Víetnamstríðið. Árið 2009 var Antígóna aftur flutt í útvarpi og þá til heiðurs Helga Hálfdanarsyni sem einnig hefur þýtt verkið.

Frásögnin um Antígónu hefur verið vinsælt efni í bækur, leikrit og tónsmíðar. Hún hefur til dæmis verið notuð í óperum af Carl Orff og Ton de Leeuw.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  • Ríkið eftir Platon þar sem sama hugmynd kemur upp varðandi lög og lögmæti ríkisstjórna.

Enskar útgáfur af verkinu[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Varðveitt leikrit Sófóklesar