Sædjöfull

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sædjöfull
Hrygna með dverghæng, fastgróinn við hana
Hrygna með dverghæng, fastgróinn við hana
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Kjaftagelgjur (Lophiiformes)
Ætt: Sædjöflaætt (Ceratiidae)
Ættkvísl: Sædjöflar (Ceratias)
Tegund:
C. holboelli

Tvínefni
Ceratias holboelli
Krøyer, 1845

Sædjöfull (fræðiheiti:Ceratias holboelli Kr) er fiskur af ættkvísl sædjöfla.

Fræðiheiti tegundarinnar er að nafni Carl Peter Holbøll, dönskum náttúrufræðingi, þekktum fyrir rannsóknir sínar í grænlenskri fánu.

Íslenska nafnið var gefið af Bjarna Sæmundssyni vegna sérkennilegs útlíts fisksins[1].

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Sædjöfullinn (hrygnan) er ófrýnilegur og stórvaxinn fiskur; getur orðið 1 m á lengd, eða meira, hávaxinn og þunnvaxinn. Bakið er all-beint en kviðurinn mikill og síður. Höfuðið er stórt, kjaftur víður og rís svo mikið upp, að efri skolturinn er nærri lóðréttur og fiskurinn því yfirmyntur. Tennur eru í meðallagi og oddhvassar, eingöngu á skoltunum[1][2].

Augun eru svo smá, að þau sjást varla, og hérumbil í hæð við snjallbroddinn, oft vaxin himnu á eldri fiskum. Tálknabogarnir eru tindalausir og tálknaopin lítil (þriðji hluti af fjarlægð augans frá snjáldri). Bolurinn er á lengd við höfuðið og mjókkar mjög aftur, því að stirtlan er mjó og mun styttri en hann[1][2].

Fremri bakuggi er aðeins 2 geislar; annar þeirra er á höfðinu, á milli augnanna, afar langur (álíka og allur fiskurinn að sporði) og mjór. Á enda hans er ljósfæri sem lítur út eins og dálítil kúla með stuttan anga upp úr. Hinn geislin er á miðju baki og miklu styttri. Framan við aftari bakuggann eru tveir holdmiklir separ, þar sem geisli fremri bakugga kemur út. Aftari bakugginn og raufarugginn eru svipaðir, báðir stuttir, með 4 óklofna geisla; raufarugginn er aðeins styttri. Aftari bakuggi allhár og þakinn himnu á milli uggageislanna; raufaruggi er andspænis aftari bakugga. Sporðurinn er mjög stór, með sterka geisla og eru 4 miðgeislarnir klofnir í tvent og teygðir aftur í langa, sundurlausa anga; himna á milli geislanna. Eyruggarnir eru mjög lítlir, en breiðir, það eru 18-20 geislar á þá; kviðugga vantar. Roðið er alsett smáum beinkörtum, með broddi á miðju og stendur hann út úr roðinu. Rák er engin[1][2].

Liturinn er allstaðar svartgrár, ljósfærinn á enda angans er hvítur[1][2].

Kynsmunur er afar mikill hjá þessari tegund. Hængurinn er örlítill dvergur og fastgróinn við hrygnuna. Í vexti og öðrum ytri atriðum er hann svipaður henni, nema hvað snjáldrið, sem hann að nokkru leyti er fastur á, er tiltölulega miklu lengra, en munnurinn minni og liggur beint fram. Hina 2 löngu geisla fremri bakuggans vantar alveg. Geislatala ugganna er annars hin sama; roðið sett hvassyddum körtum, sem eru stærstar á bolnum og liturinn eins. Meltingarfærin eru vanþroskuð[1].

Heimkynni[breyta | breyta frumkóða]

Heimkynni sædjöfuls eru í öllum heimshöfum. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hann veiðst við Austur-Grænland, á Íslandsmiðjum, suðvestur af Írlandi og við Asóreyjar. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Kanada, Bandaríkin og víðar[3].

Á Íslandi varð sædjöfuls fyrst vart á 120 m dýpi á utanverðum Selvogsbanka á 120 m dýpi í maí 1914; annar þar nálægt á 140 m dýpi í maí 1917, í bæði skipti á íslensk skip. Báðir voru þeir fullvaxnar hrygnur (100-103 cm)[1]. Um 100 sædjöfulshrygnur veiddust á Íslandsmiðum á árunum 1914-2000; þeir eru af öllum stærðum, allt frá 13 til 125 cm langir[2].

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Sædjöfull er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem lifir á 120-1100 m dýpi eða dýpra[3].

Hængjarnir eru dvergkríli (flestir eru 4-6 cm langir, en geta orðið 19 cm), en þeir sem lifa sníkjulífi á hrygnunni og hafa því eina hlutverki að gegna að frjóvga hrogn hennar. Þeir hanga festir á kvið hrygnunnar, grónir á grönunum fastir við stutta húðtotu á hrygnunni, stundum fleiri en einn á þeirri sömu. Þá vantar augu, tennur og veiðstöng og innýfli þeirra eru öll vanþroskuð, nema lifur og kynfæri, en svilin fylla mestallt kviðarholið. Loft geta þeir fengið með sjónum gegnum munnvikin[1][2][3].

Annars er lítið kunnugt um lífshætti og fæðu þessa fisks, en stundum hafa fundist leifar fiska og marglytta í maga sædjöfla sem veiðst hafa[3].

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Bjarni Sæmundsson (1926). Íslensk dýr I. Fiskarnir (Pisces Islandiæ). Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. bls. 202-204.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Gunnar Jónsson (1983). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Fjölvaútgáfan. bls. 477-480.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Gunnar Jónsson; Jónbjörn Pálsson (2013). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 294-295. ISBN 978-9979-3-3369-2.