Sæþjóðirnar
Sæþjóðirnar eru taldar hafa verið bandalag sjóræningja í Miðjarðarhafi undir lok bronsaldar. Sæþjóðirnar gætu hafa komið frá vesturhluta Litlu-Asíu eða Suður-Evrópu, sérstaklega Eyjahafi. Sæþjóðirnar réðust á ríkin fyrir botni Miðjarðarhafs frá 14. til 11. aldar f.Kr. Þær koma aðallega fyrir í fornegypskum heimildum frá 19. og 20. konungsættinni (um 1291 f.Kr. til 1077 f.Kr.). Sumir höfundar tengja sæþjóðirnar við Bronsaldarhrunið þegar ríki Hittíta, Mýkenumenningin á Grikklandi, Nýja ríkið í Egyptalandi og borgin Úgarít féllu öll á svipuðum tíma. Fornleifarannsóknir benda til þess að nær allar borgir fyrir botni Miðjarðarhafs hafi verið eyðilagðar og svo yfirgefnar frá því um 1200 f.Kr. til um 1150 f.Kr.
Ekki er vitað með vissu hverjar sæþjóðirnar voru og ýmsar kenningar þar um. Í egypskum heimildum eru nefndir Ekwesh (hugsanlega Akkear Forn-Grikkir), Teresh (mögulega Tyrrhenar, hugsanlegir forfeður Etrúra), Denyen (sem sumir telja hina grísku Danáa), Lukka (sem hugsanlega stofnuðu ríkið Lykíu í Litlu-Asíu), 'Sherden (hugsanlega íbúar Sardiníu), Shekelesh (hugsanlega íbúar Sikileyjar), Peleset (almennt taldir Filistear) og Tekrur (hugsanlega hinir grísku Tevkrar) frá Krít.