Rupert Murdoch

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rupert Murdoch
Rupert Murdoch árið 2012.
Fæddur11. mars 1931 (1931-03-11) (93 ára)
ÞjóðerniÁstralskur (til 1985)
Bandarískur (frá 1985)
MenntunWorcester College, Oxford (BA)
StörfFjölmiðlamaður
MakiPatricia Booker (g. 1956; sk. 1967)
Anna Maria Torv (g. 1967; sk. 1999)
Wendi Deng (g. 1999; sk. 2013)
Jerry Hall (g. 2016; sk. 2022)
Börn6

Keith Rupert Murdoch (f. 11. mars 1931) er bandarískur viðskipta- og fjölmiðlajöfur af áströlskum uppruna. Hann er eigandi fjölmiðlasamsteypunnar News Corporation og í gegnum hana á hann fjölda dagblaða og fréttamiðla um allan heim, meðal annars The Sun og The Times í Bretlandi, The Daily Telegraph, Herald Sun og The Australian í Ástralíu og The Wall Street Journal og The New York Post í Bandaríkjunum. Vegna eignarhalds síns í svo stórum hluta enskumælandi fjölmiðla í þessum löndum er Murdoch gjarnan talinn njóta verulegra áhrifa í bandarískum, breskum og áströlskum stjórnmálum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Ruperts Murdoch, Sir Keith Murdoch, var virtur stríðsfréttaritari í fyrri heimsstyrjöldinni fyrir blaðið Melbourne Herald, stærsta blað Ástralíu á þeim tíma. Rupert fór ungur að árum til Bretlands í nám við Oxford-háskóla. Eftir að hann útskrifaðist úr námi hóf hann störf við blaðamennsku hjá blöðunum Daily Express og News Chronicle.[1]

Murdoch sneri brátt aftur til Ástralíu. Þegar faðir hans lést árið 1952 erfði Murdoch 57 prósenta eignarhlut hans í dagblaðinu Adelaide News.[2] Blaðið átti á þeim tíma minnkandi vinsældum að fagna en eftir að Rupert Murdoch tók við stjórn þess jukust áhrif þess verulega.[1] Árið 1960 keypti Murdoch samsteypu sem átti og gaf út 24 héraðsdagblöð í Nýja Suður-Wales, auk þess sem hann eignaðist miðlana Daily Mirror og The Truth í Sydney og Brisbane. Tveimur árum síðar keypti Murdoch jafnframt meirihluta í sjónvarpsstöðinni Nine Network TV og árið 1964 hóf hann útgáfu á dagblaðinu The Australian, sem var dreift á landsvísu um Ástralíu.[3]

Murdoch keypti upp fjölda dagblaða sem rekin voru með hallarekstri og tókst að koma rekstri margra þeirra á réttan kjöl. Hagnaðinn notaði hann til að fjármagna frekari yfirtökur. Meðal annars reyndi hann að kaupa sér leið inn á ástralska sjónvarpsmarkaðinn með yfirtöku á sjónvarpsstöð í Wollongong en gat það ekki þar sem áströlsk lög bönnuðu honum að eiga bæði dagblað og sjónvarpsstöð í sömu borg. Murdoch beitti dagblöðum sínum óspart til þess að kalla eftir því að þessum lögum yrði breytt.[3]

Árið 1969 keypti Murdoch dagblöðin The Sun og News of the World í Bretlandi. Hann lét leysa fjölda starfsmanna blaðanna frá störfum og komst þannig upp á kant við bresku verkalýðshreyfinguna í deilum sem enduðu með uppþotum. Á áttunda áratugnum seildist veldi Murdochs til áhrifa í Bandaríkjunum með yfirtöku á blöðunum San Antonio Express árið 1973 og The New York Post árið 1976. Hann hélt jafnframt áfram útþenslu í breskri dagblaðaútgáfu með kaupum á blöðunum The Times og The Sunday Times.[3] Murdoch hét því við þessi tilefni að hann myndi virða sjálfstæði ritstjórna The Times en margir Bretar treystu ekki þessum fyrirheitum hans.[3]

Murdoch stofnaði fjölmiðlasamsteypuna News Corporation utan um dagblaða- og sjónvarpsstarfsemi sína árið 1980.[2] Á níunda áratugnum jók Murdoch mjög umsvif sín í sjónvarpsrekstri með stofnun Fox Network í Bandaríkjunum og yfirtöku á 20th Century Fox.[3] Á tíunda áratugnum varð Murdoch að selja talsverðan hluta þeirra dagblaða sem hann hafði keypt í Bandaríkjunum vegna mikilla skulda sem fyrirtækjasamsteypa hans hafði safnað upp.[2]

Árið 2011 lenti fjölmiðlasamsteypa Murdochs í miðju hneykslismála þegar upplýst var um að blöð hans hefðu beitt símhlerunum og innbrotum í talhólf til þess að afla upplýsinga.[4] Blöð Murdochs voru sökuð um að hafa hlerað farsíma allt að 4.000 manns og mútað lögreglumönnum til að komast yfir upplýsingar.[5] Ásakanirnar leiddu til þess að Murdoch lét hætta útgáfu á blaðinu News of the World.[6]

Murdoch tilkynnti í september 2023 að hann hygðist setjast í helgan stein og að sonur hans, Lachl­an Mur­doch, myndi taka við af honum sem stjórnarformaður Fox-sam­steyp­unn­ar og News-sam­steyp­unn­ar.[7][8]

Stjórnmálaskoðanir og pólitísk umsvif[breyta | breyta frumkóða]

Rupert Murdoch er hægrisinnaður og fjölmiðlaveldi hans er gjarnan talið draga taum Repúblikanaflokksins í bandarískum stjórnmálum. Gagnrýnendur Murdochs hafa gjarnan sakað hann um að beita miðlum sínum óspart til að greiða veg hægrisinnaðra stjórnmálamanna á borð við Ronald Reagan, Margaret Thatcher, John Howard og George W. Bush. Í aðdraganda Íraksstríðsins árið 2003 lýstu öll 173 dagblöðin í eigu Murdochs yfir stuðningi við stríðið.[3] Í þingkosningum Bretlands árið 1997 fóru Murdoch og blöð hans hins vegar að styðja Tony Blair og „nýja Verkamannaflokkinn“ í Bretlandi.[9] Murdoch snerist síðar gegn eftirmanni Blair, Gordon Brown, og blöð hans fóru aftur að styðja Íhaldsflokkinn frá og með þingkosningum ársins 2010.[4]

Í dægurmenningu[breyta | breyta frumkóða]

Persónan Elliot Carver, illmennið í James Bond-kvikmyndinni Tomorrow Never Dies, er sagður byggður á Rupert Murdoch.[3] Sjónvarpsþættirnir Succession eru jafnframt taldir byggja á sögu Murdochs.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Rupert Murdoch: Á blöð í þremur heimsálfum“. Morgunblaðið. 1. febrúar 1981. bls. 22-23.
  2. 2,0 2,1 2,2 Grétar Júníus Guðmundsson (9. ágúst 2007). „Þræðir Murdochs liggja víða“. Morgunblaðið. bls. 7.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 Helgi Mar Árnason (17. nóvember 2005). „Murdoch og heimsveldið“. Morgunblaðið. bls. 20.
  4. 4,0 4,1 Bogi Þór Arason (20. júlí 2020). „Kveðst ekki bera ábyrgðina“. Morgunblaðið. bls. 17.
  5. Kristján Jónsson (9. júlí 2011). „Murdoch í vörn“. mbl.is. Sótt 11. desember 2022.
  6. „Útgáfu á News of the World hætt“. Viðskiptablaðið. 7. júlí 2011. Sótt 11. desember 2022.
  7. „Rupert Murdoch lætur af stjórnarformennsku“. mbl.is. 21. september 2023. Sótt 21. september 2023.
  8. Samúel Karl Ólason (21. september 2023). „Rupert Murdoch sest í helgan stein“. Vísir. Sótt 21. september 2023.
  9. 9,0 9,1 Sunna Valgerðardóttir (4. desember 2022). „Mógúllinn sem getur fórnað lýðræði fyrir heimsveldi“. RÚV. Sótt 5. desember 2022.