Rupert Murdoch
Rupert Murdoch | |
---|---|
Fæddur | 11. mars 1931 |
Þjóðerni | Ástralskur (til 1985) Bandarískur (frá 1985) |
Menntun | Worcester College, Oxford (BA) |
Störf | Fjölmiðlamaður |
Maki | Patricia Booker (g. 1956; sk. 1967) Anna Maria Torv (g. 1967; sk. 1999) Wendi Deng (g. 1999; sk. 2013) Jerry Hall (g. 2016; sk. 2022) |
Börn | 6 |
Keith Rupert Murdoch (f. 11. mars 1931) er bandarískur viðskipta- og fjölmiðlajöfur af áströlskum uppruna. Hann er eigandi fjölmiðlasamsteypunnar News Corporation og í gegnum hana á hann fjölda dagblaða og fréttamiðla um allan heim, meðal annars The Sun og The Times í Bretlandi, The Daily Telegraph, Herald Sun og The Australian í Ástralíu og The Wall Street Journal og The New York Post í Bandaríkjunum. Vegna eignarhalds síns í svo stórum hluta enskumælandi fjölmiðla í þessum löndum er Murdoch gjarnan talinn njóta verulegra áhrifa í bandarískum, breskum og áströlskum stjórnmálum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Faðir Ruperts Murdoch, Sir Keith Murdoch, var virtur stríðsfréttaritari í fyrri heimsstyrjöldinni fyrir blaðið Melbourne Herald, stærsta blað Ástralíu á þeim tíma. Rupert fór ungur að árum til Bretlands í nám við Oxford-háskóla. Eftir að hann útskrifaðist úr námi hóf hann störf við blaðamennsku hjá blöðunum Daily Express og News Chronicle.[1]
Murdoch sneri brátt aftur til Ástralíu. Þegar faðir hans lést árið 1952 erfði Murdoch 57 prósenta eignarhlut hans í dagblaðinu Adelaide News.[2] Blaðið átti á þeim tíma minnkandi vinsældum að fagna en eftir að Rupert Murdoch tók við stjórn þess jukust áhrif þess verulega.[1] Árið 1960 keypti Murdoch samsteypu sem átti og gaf út 24 héraðsdagblöð í Nýja Suður-Wales, auk þess sem hann eignaðist miðlana Daily Mirror og The Truth í Sydney og Brisbane. Tveimur árum síðar keypti Murdoch jafnframt meirihluta í sjónvarpsstöðinni Nine Network TV og árið 1964 hóf hann útgáfu á dagblaðinu The Australian, sem var dreift á landsvísu um Ástralíu.[3]
Murdoch keypti upp fjölda dagblaða sem rekin voru með hallarekstri og tókst að koma rekstri margra þeirra á réttan kjöl. Hagnaðinn notaði hann til að fjármagna frekari yfirtökur. Meðal annars reyndi hann að kaupa sér leið inn á ástralska sjónvarpsmarkaðinn með yfirtöku á sjónvarpsstöð í Wollongong en gat það ekki þar sem áströlsk lög bönnuðu honum að eiga bæði dagblað og sjónvarpsstöð í sömu borg. Murdoch beitti dagblöðum sínum óspart til þess að kalla eftir því að þessum lögum yrði breytt.[3]
Árið 1969 keypti Murdoch dagblöðin The Sun og News of the World í Bretlandi. Hann lét leysa fjölda starfsmanna blaðanna frá störfum og komst þannig upp á kant við bresku verkalýðshreyfinguna í deilum sem enduðu með uppþotum. Á áttunda áratugnum seildist veldi Murdochs til áhrifa í Bandaríkjunum með yfirtöku á blöðunum San Antonio Express árið 1973 og The New York Post árið 1976. Hann hélt jafnframt áfram útþenslu í breskri dagblaðaútgáfu með kaupum á blöðunum The Times og The Sunday Times.[3] Murdoch hét því við þessi tilefni að hann myndi virða sjálfstæði ritstjórna The Times en margir Bretar treystu ekki þessum fyrirheitum hans.[3]
Murdoch stofnaði fjölmiðlasamsteypuna News Corporation utan um dagblaða- og sjónvarpsstarfsemi sína árið 1980.[2] Á níunda áratugnum jók Murdoch mjög umsvif sín í sjónvarpsrekstri með stofnun Fox Network í Bandaríkjunum og yfirtöku á 20th Century Fox.[3] Á tíunda áratugnum varð Murdoch að selja talsverðan hluta þeirra dagblaða sem hann hafði keypt í Bandaríkjunum vegna mikilla skulda sem fyrirtækjasamsteypa hans hafði safnað upp.[2]
Árið 2011 lenti fjölmiðlasamsteypa Murdochs í miðju hneykslismála þegar upplýst var um að blöð hans hefðu beitt símhlerunum og innbrotum í talhólf til þess að afla upplýsinga.[4] Blöð Murdochs voru sökuð um að hafa hlerað farsíma allt að 4.000 manns og mútað lögreglumönnum til að komast yfir upplýsingar.[5] Ásakanirnar leiddu til þess að Murdoch lét hætta útgáfu á blaðinu News of the World.[6]
Murdoch tilkynnti í september 2023 að hann hygðist setjast í helgan stein og að sonur hans, Lachlan Murdoch, myndi taka við af honum sem stjórnarformaður Fox-samsteypunnar og News-samsteypunnar.[7][8]
Stjórnmálaskoðanir og pólitísk umsvif
[breyta | breyta frumkóða]Rupert Murdoch er hægrisinnaður og fjölmiðlaveldi hans er gjarnan talið draga taum Repúblikanaflokksins í bandarískum stjórnmálum. Gagnrýnendur Murdochs hafa gjarnan sakað hann um að beita miðlum sínum óspart til að greiða veg hægrisinnaðra stjórnmálamanna á borð við Ronald Reagan, Margaret Thatcher, John Howard og George W. Bush. Í aðdraganda Íraksstríðsins árið 2003 lýstu öll 173 dagblöðin í eigu Murdochs yfir stuðningi við stríðið.[3] Í þingkosningum Bretlands árið 1997 fóru Murdoch og blöð hans hins vegar að styðja Tony Blair og „nýja Verkamannaflokkinn“ í Bretlandi.[9] Murdoch snerist síðar gegn eftirmanni Blair, Gordon Brown, og blöð hans fóru aftur að styðja Íhaldsflokkinn frá og með þingkosningum ársins 2010.[4]
Í dægurmenningu
[breyta | breyta frumkóða]Persónan Elliot Carver, illmennið í James Bond-kvikmyndinni Tomorrow Never Dies, er sagður byggður á Rupert Murdoch.[3] Sjónvarpsþættirnir Succession eru jafnframt taldir byggja á sögu Murdochs.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Rupert Murdoch: Á blöð í þremur heimsálfum“. Morgunblaðið. 1. febrúar 1981. bls. 22-23.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Grétar Júníus Guðmundsson (9. ágúst 2007). „Þræðir Murdochs liggja víða“. Morgunblaðið. bls. 7.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 Helgi Mar Árnason (17. nóvember 2005). „Murdoch og heimsveldið“. Morgunblaðið. bls. 20.
- ↑ 4,0 4,1 Bogi Þór Arason (20. júlí 2020). „Kveðst ekki bera ábyrgðina“. Morgunblaðið. bls. 17.
- ↑ Kristján Jónsson (9. júlí 2011). „Murdoch í vörn“. mbl.is. Sótt 11. desember 2022.
- ↑ „Útgáfu á News of the World hætt“. Viðskiptablaðið. 7. júlí 2011. Sótt 11. desember 2022.
- ↑ „Rupert Murdoch lætur af stjórnarformennsku“. mbl.is. 21. september 2023. Sótt 21. september 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (21. september 2023). „Rupert Murdoch sest í helgan stein“. Vísir. Sótt 21. september 2023.
- ↑ 9,0 9,1 Sunna Valgerðardóttir (4. desember 2022). „Mógúllinn sem getur fórnað lýðræði fyrir heimsveldi“. RÚV. Sótt 5. desember 2022.