Fara í innihald

Göngu-Hrólfur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rollon)
Stytta af Rollo í Rúðuborg.

Rollo (franska: Rollon) – í íslenskum heimildum kallaður Göngu-Hrólfur – (um. 846 - um. 932) var víkingahöfðingi sem lagði undir sig það svæði í Frakklandi sem síðar kallaðist Normandí, og var fyrsti jarlinn þar. Í sumum heimildum er hann kallaður Róbert af Normandí, en það nafn tók hann upp þegar hann var skírður. Af Rollo eru Rúðujarlar komnir og enska konungsættin er rakin til hans.

Nafnið Rollo er að öllum líkindum latnesk útgáfa af norræna nafninu Hrólfur (sbr. nafnið Roluo = Hrólfur kraki í Gesta Danorum).

Sögulegar heimildir

[breyta | breyta frumkóða]

Rollo var nafnkunnur víkingahöfðingi, en ekki er full vissa um uppruna hans. Norskir og íslenskir sagnfræðingar hafa haldið því fram að Rollo sé sami maður og Göngu-Hrólfur, sonur Rögnvalds Eysteinssonar Mærajarls í Vestur-Noregi. Þetta er byggt á norskum og íslenskum ritum frá 12. og 13. öld, sem segja að Göngu-Hrólfur hafi lagt undir sig Normandí. Elsta heimildin um þetta er Historia Norvegiae, latínurit, samið í Noregi í lok 12. aldar. Þar segir að Hrólfur hafi fallið í ónáð hjá Haraldi hárfagra, og verið gerður útlægur af Noregi. Hann fór þá í hernað, og varð síðar jarl í Normandí. Viðurnefnið fékk hann af því að hann var svo stór, að enginn hestur gat borið hann (eða a.m.k. ekki norskir smáhestar þeirra tíma). Um Göngu-Hrólf, sjá t.d. Haralds sögu hárfagra í Heimskringlu – og Orkneyinga sögu.

Danskir sagnfræðingar hafa haldið á lofti dönskum uppruna Rollos. Sagnaritarinn Dudo frá St. Quentin, segir í riti sínu: De moribus et actis primorum Normannorum ducum, sem er samið eftir 1015, að Rollo hafi verið danskur (frá Dacia, sem getur átt við stærra svæði en Danmörku nútímans). Þar segir frá tveimur dönskum höfðingjasonum, Gurim og Rollo. Gurim var drepinn en Rollo hraktist úr landi. Hann varð síðar leiðtogi víkinga sem lögðu undir sig Normandí. Rit Dudos er mikil lofgjörð um hertogana, og þykir ekki mjög traust heimild. Gustav Storm hefur með samanburði við samtíma annála sýnt fram á að Dudo blandi saman atburðum og mönnum. Telur hann hugsanlegt að sagnir um danska víkingahöfðingjann Sigfreð (Sigurð orm í auga), hafi færst yfir á Rollo, sem var síðar á ferðinni. Einnig hefur því verið haldið fram að þegar Dudo vann að riti sínu hafi hertogunum þótt henta að leggja áherslu á tengsl við dönsku konungsættina, sem hafði þá lagt undir sig England. Vilhjálmur frá Jumièges er á sömu skoðun um uppruna Rollos í riti sínu Gesta Normannorum Ducum, sem samið er um 1070 og notar Dudo sem heimild. Benoit frá Sainte-Maure, sem um 1170 samdi rit um hertogana (Chronique des ducs de Normandie), segir að Rollo hafi verið frá þorpinu Fasge, sem Johannes Steenstrup telur að geti verið Fakse á Austur-Sjálandi.

Spurningin um hvort Rollo var af dönskum eða norskum uppruna, var heitt deilumál milli danskra og norskra sagnfræðinga á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar, einkum þegar nær dró 1000 ára afmælishátíð Normandís árið 1911. Enn eru skiptar skoðanir um þetta meðal sagnfræðinga, en flestir eru þó sammála um að ekki sé hægt að komast að öruggri niðurstöðu í málinu.

Innrásin í Frakkland

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 885 réðst fjölmennur her víkinga undir forystu Sigfreðs, á París, og er líklegt að Rollo og menn hans hafi verið í þeim hópi. Sagt er að franski konungurinn hafi sent fulltrúa sinn til að reyna að semja við leiðtoga víkinganna. Þegar hann spurði eftir höfðingjanum, svöruðu víkingar að þeir væru allir höfðingjar, hjá þeim stæði enginn einn öðrum framar. Árið 886 yfirgáfu víkingarnir París gegn háu gjaldi.

Síðar sneri Rollo aftur með fylgismönnum sínum (Norðmönnum og Dönum, sumum frá Englandi), og sótti inn í héruðin umhverfis ána Signu, í norðvesturhluta Frakklands, þar sem nú heitir Normandí. Árið 911 beið herlið Rollos lægri hlut fyrir her Karls einfalda, í orustunni við Chartres. Karl gerði sér grein fyrir að hann gæti ekki komið í veg fyrir strandhögg og ránsferðir vikinga. Venjan hafði verið að kaupa þá af sér með fé, en í staðinn ákvað hann að setja Rollo yfir héruðin sem hann hafði lagt undir sig, með þeim skilmála að hann sæi um landvarnir gegn víkingum. Í sáttmála, sem gerður var 911 í Saint-Clair-sur-Epte, gerðist Rollo lénsmaður konungsins, lét skírast til kristinnar trúar, og mun hafa tekið upp skírnarnafnið Robert. Hann var þá settur yfir héruðin umhverfis neðri hluta Signu, með Rúðuborg sem höfuðborg og miðju svæðisins.

Yfirleitt er talið að Rollo hafi verið jarl, en ekki hertogi (latína: dux) eða greifi (comes). Sagan segir að þegar Rollo var skipað að kyssa fót Karls konungs, samkvæmt gerðum skilmálum, neitaði hann að auðmýkja sig svo. Þegar konungurinn rétti fótinn fram, skipaði Rollo einum hermanni sínum að taka að sér skítverkið. Sá lyfti fætinum upp að vörum sér, og féll kóngurinn við það aftur fyrir sig.

Í fyrstu stóð Rollo við samningana um að verja strandhéruð Frakklands og svæðin meðfram Signu. En brátt kom í ljós að hann og fylgismenn hans höfðu allt aðrar hugmyndir. Rollo byrjaði að skipta landinu milli ánna Epte og Risle milli liðsforingja sinna og námu þeir þar land með Rúðuborg sem höfuðstöðvar. Þegar þeir höfðu komið sér þar vel fyrir, hófu þeir að herja lengra inn í landið frá þessu örugga baklandi, í stað þess að stunda strandhögg frá skipum. Hermenn Rollos tóku sér innlendar konur, og eignuðust börn, sem alin voru upp í franskri menningu. Fékk yfirstéttin því brátt franskt yfirbragð. Nokkur merki um norræna landnámið lifðu þó í örnefnum o.fl. Um 1025 lifði norrænan enn í takmörkuðum mæli, t.d. meðal vissra hópa í Bayeux.

Minnismerki um Rollo í dómkirkjunni í Rúðuborg, þar sem hann var grafinn.

Um 927 var Rollo farinn að lýjast, og afhenti syni sínum, Vilhjálmi langasverði valdataumana í Normandí. Rollo hefur líklega lifað nokkur ár eftir það, en hann var örugglega dáinn 933. Sagnaritarinn Adémar segir frá því, að þegar Rollo fann dauðann nálgast, varð hann óður og lét hálshöggva fyrir framan sig 100 kristna fanga, til að friða norrænu goðin, sem hann hafði trúað á í æsku. Síðan skipti hann 100 pundum af gulli milli helstu kirkna í Normandí, til dýrðar hinum eina sanna guði, sem hann hafði viðurkennt með skírn sinni. Samkvæmt þessu hefur einhver trúarlegur efi komið upp á yfirborðið í ellinni.

Rollo setti ströng lög á yfirráðasvæði sínu í Normandí, sem munu hafa verið sniðin eftir norrænum lögum. Hann og eftirmenn hans byggðu upp einstaklega skilvirkt stjórnkerfi, sem hafði víðtæk áhrif þegar fram liðu stundir.

Rollo var forfaðir Vilhjálms sigursæla, sem lagði undir sig England 1066. Af Vilhjálmi er breska konungsættin komin, allt til núverandi þjóðhöfðingja, Elísabetar drottningar.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Kona Rollos var Poppa af Bayeux. Hún var dóttir mikilsmetins manns þar í borg og var hertekin þegar víkingar rændu Bayeux og drápu flesta borgarbúa. Þau Rollo eignuðust a.m.k. tvö börn:

Talið er að Rollo hafi síðar fengið viðurkenningu kirkjunnar á hjónabandi sínu og Poppu til þess að ríkisarfinn teldist skilgetinn. Ótraustari heimildir eru um eftirtalin börn:

  • Gerletta giftist Vilhjálmi öðrum greifa af Akvitaníu (og þriðja af Auvergne).
  • Krispína, giftist Grimaldusi prins af Mónakó. Af þeim er komin Grímaldí-ættin í Mónakó.

Þegar Rollo var skírður (912) skildi hann að nafninu til við Poppu og giftist Giselu, dóttur Karls einfalda Frakkakonungs. Hún mun þá hafa verið á barnsaldri. Eftir að Gisela dó (919), tók Rollo aftur saman við fyrri konu sína. Almennt er talið að þau Rollo og Gisela hafi verið barnlaus, en samkvæmt öðrum heimildum var dóttir þeirra:

  • Grisella, eiginmaður hennar var Thorbard (síðar kallaður Herbert de la Mare).

Samkvæmt íslenskum heimildum (Landnámu og Laxdælu) eignaðist Göngu-Hrólfur dóttur á Skotlandi, áður en hann hóf hernað í Normandí:

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  • David C. Douglas, „Rollo of Normandy“, English Historical Review, Vol. 57 (1942), 414-436
  • Rosamond McKitterick, The Frankish Kingdom under the Carolingians, 751-987, (1983)
  • Dudonis gesta Normannorum - Dudo frá St. Quentin Gesta Normannorum Latnesk útgáfa frá Bibliotheca Augustana
  • Dudo of St. Quentin's Gesta Normannorum Geymt 15 ágúst 2009 í Wayback Machine - Ensk þýðing
  • Gwyn Jones. A History of the Vikings. Second edition: Oxford University Press. (1984).
  • William W. Fitzhugh og Elizabeth Ward. Vikings: The North Atlantic Saga. Smithsonian Institute Press. (2000)
  • Eric Christiansen. The Norsemen in the Viking Age. Blackwell Publishers Ltd. (2002)
  • Agnus Konstam. Historical Atlas of the Viking World. Checkmark Books. (2002)
  • Holgar Arbman. Ancient People and Places: The Vikings. Thames and Hudson. (1961)
  • Eric Oxenstierna. The Norsemen, New York Graphics Society Publishers, Ltd. (1965)
  • Bjarni Aðalbjarnarson (útg.): Heimskringla I, 124-125. Íslensk fornrit 26. (1941)
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Rollo“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. september 2008.

Erlendir tenglar:


Fyrirrennari:
Enginn
Hertogar af Normandí
(911 – 927)
Eftirmaður:
Vilhjálmur 1. af Normandí