Risinn á Ródos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Risinn á Ródos (áður fyrr nefnd Styttan af Apollon Helíos) stóð upp yfir hafnarmynninu á grísku eyjunni Ródos í Eyjahafinu og var reist af Karesi frá Lindos á 3. öld f.Kr. Hún er eitt af sjö undrum veraldar.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Styttan á Ródos.

Alexander mikli hafði ekki gert neinar áætlanir um hver skyldi taka við stórveldinu þegar hann dó og brutust því út deilur á milli hershöfðingjana hans, en þrír þeirra deildu um yfirráð yfir veldi hans á Miðjarðarhafinu. Á meðan deilunum stóð gekk Ródos á vald Ptólemajosar III. Þegar hann tók völdin á Egyptalandi var myndað bandalag sem stjórnaði stórum hluta af versluninni um austur Miðjarðarhaf.

Antigonos, einn af hershöfðingjum Alexanders, var ósáttur við þessa tilhögun mála. Árið 305 f.Kr. lét hann son sinn Demetríos, þá frægur hershöfðingi, gera árás á Ródos með 40.000 manns. Hann lét smíða marga háa umsátursturna. Sá fyrsti var fluttur í land á sex skipum en féll í hafið í roki áður en hann var notaður. Hann reyndi aftur, þá með mun stærri turn en Ródosbúar hröktu hann tilbaka. Árið 304 f.Kr. sendi Ptólemajos mikinn skipflota þangað til varnar, svo her Demetríosar flúði og skyldu eftir mest af herútbúnaði sínum. Til þess að halda upp á sigurinn, þá ákváðu Ródosbúar að byggja risavaxna styttu af verndara sínum, guðinum Apollon Helios.

Eyðilegging[breyta | breyta frumkóða]

Styttan stóð í 56 ár þangað til Ródos varð fyrir jarðskjálfta árið 226 f.Kr., hún brotnaði í sundur við hnén og féll á land. Ptólemajos III bauðst til að borga fyrir endurbyggingu hennar, en Rhódosbúar ráðguðust við véfrétt sem sagði þeim að þeir hefðu móðgað Helios, þannig að þeir afþökkuðu boð hans. Leifar styttunnar lágu á jörðinni í meira en 800 ár og brotin voru sögð svo mikilfengleg, þó styttubrotin lægju við jörðu, að margir ferðuðust langar leiðir til að sjá þau. Pliníus eldri sagði að fáir gætu tekið um þumalinn og að hver fingur væri töluvert stærri en gengi og gerðist.

Árið 654 e.Kr náðu Arabar Rhódos undir stjórn Muawiyah I og skv. annálum Þeofanesar, þá seldu þeir leifarnar af styttunni farandsölumanni frá Edessu. Sagan segir að kaupandinn hafi látið brjóta leifarnar niður og svo látið flytja bronsstykkin á 900 kameldýrum heim til sín.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Heimamaðurinn Kares, kenndur við bæinn Lindos, var fenginn til að teikna og smíða styttuna en hann hafði verið viðriðinn miklar styttur áður. Til eru mismunandi heimildir sem lýsa styttunni en henni hefur verið lýst sem svo að hún standi ofan á 15 m háum fótstalli úr marmara nálægt höfninni. Innviðir hennar áttu að hafa verið steinblokkir. Járnbjálkar voru svo festir við blokkirnar og utan á þá féllu bronsplötur sem eiga að hafa verið vandlega steyptar og svo festar við járngrindina. Stór hluti bronsins sem var í styttunni var bræddur úr útbúnaðinum sem skilinn var eftir í árásinni. Sjálf styttan var svo um 34 m á hæð eða um 60 m allt í allt með stallinum. Samkvæmt Pliníusi eldri á verkið að hafa tekið 12 ár og hafi klárast árið 282 f.Kr.

Samkvæmt sumum heimildum á styttan að hafa staðið klofvega yfir inngang hafnarinnar og eru til margar myndir og lýsingar sem sýna styttuna þannig. Því er hins vegar alfarið neitað af fræðimönnum og er talinn hugarburður seinni tíma. Það hefði þótt bæði ósæmilegt að sýna Helios í þessari stellingu og hefði verið mjög óhagkvæmt því þá hefði þurft að loka höfninni meðan á smíðinni stóð. Einnig hefði brotna styttan þá fallið í hafið í stað þess að falla á land, svo allt bendir til þess að hún hafi verið í hefðbundinni grískri stellingu, með fætur saman.

Frelsisstyttan[breyta | breyta frumkóða]

Frelsisstyttan í New York.

Þótt styttan sé okkur nú horfin, þá er til mjög fræg stytta sem hefur styttu Helios að fyrirmynd. Það er Frelsisstyttan í New York en franski myndhöggvarinn Auguste Bartholdi varð fyrir innblástri frá hinni fornu styttu. Þær eru um það bil jafnstórar, þó að Frelsisstyttan standi á mun hærri stalli sem lætur hana virka stærri. Þær voru báðar reistar til að fagna frelsi, standa báðar við höfn og með fætur saman, kyndil í annarri hendi og báðar með geislakórónu. Reyndar eru til mismunandi lýsingar af Helíosstyttunni en í mörgum er henni einmitt lýst með kyndillinn og kórónuna og með skikkju um sig, þó enn aðrar lýsa honum með spjóti í einni hönd og notar hina til að skýla augunum fyrir sólu. Það er engu að síður margt sameiginlegt með þessum tveimur styttum.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]