Hengigarðarnir í Babýlon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málmristumynd frá 16.öld eftir hollenska listamanninn Martin Heemskerck. Babelturn sést í bakgrunni.

Hengigarðarnir í Babýlon (eða Svifgarðarnir í Babýlon) voru eitt af sjö undrum veraldar. Ekki er fullvíst hvort þeir voru til í þeirri mynd sem þeim er lýst í heimildum. Enginn af þeim sem skrifaði um þá hafði séð þá með eigin augum, heldur studdust við sögur.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hengigarðarnir og veggirnir umhverfis Babýlon voru byggðir af kónginum Nebúkadnesar II, að því er talið er um 600 f.Kr. Babýlon var forn borg í Babýlóníu, sem var ríki eða fylki í Mesópótamíu til forna, sem var um það bil þar sem Írak nútímans er.

Samkvæmt sögnum, þá var ástæðan fyrir byggingu Hengigarðana sú, að kona Nebúkadnesars, Amyitis, var með heimþrá. Hún var dóttir konungsins frá Medes og land hennar var stórgert, með fjöllum og með eindæmum grænt og ræktað. Svo henni leiddist óskaplega sólbökuð flatneskjan í Mesópótamíu. Þess vegna datt konungi í hug að gleðja hana með því að reisa risastórt gervifjall til þess að endurgera heimkynni hennar.

Hengigörðunum hefur verið lýst af forngrískum sagnfræðingum, meðal annars Straboni og Díodórosi frá Sikiley, en annars er lítil sönnun fyrir tilvist þeirra. Sumir telja að þetta sé jafnvel bara einhver saga sem átti sér aldrei neina stoð í raunveruleikanum. Ein rök fyrir því er sú staðreynd að gríski sagnfræðingurinn Heródótos gerði góða grein fyrir Babýlonborg en minntist aldrei á Hengigarðana. Það var árið 450 f.Kr., um 150 árum eftir byggingu þeirra. Hann gerir ítarlega grein fyrir hinum geysimikla vegg sem umkringdi borgina og einnig fyrir Babelturninum, sem reis fyrir ofan borgina. En ekkert um garðana.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Gríski landafræðingurinn Strabon (á 1. öld f.Kr.) og gríski sagnfræðingurinn Díodóros frá Sikiley, höfðu báðir lýst görðunum sem eins konar hvelfingum sem risu hver ofan á annarri og hvíldu á ferköntuðum súlum. Þær voru holar að innan og innihéldu mold til þess að planta stærstu trjánum í. Súlurnar og hvelfingarnar áttu að vera úr bökuðum múrsteinum og asfalti. Síðan hékk gróðurinn út yfir svalir og brúnir. Það hefur verið tilkomumikið að sjá þetta gróðri þakta risafjall gnæfa upp úr sólbakaðri sléttunni.

En það sem virkilega gerir Hengigarðana jafnmerkilega og raun ber vitni er sú staðreynd að fólk undraðist mikið hvernig allur þessi gróður hélst lifandi því það þurfti að vökva hann allan. Það hafa fundist töflur sem útskýra nokkuð sem líkist skrúfu Arkímedesar sem notuð var til þess að lyfta vatninu upp þessa miklu hæð. Þaðan hefur það síðan runnið niður fjallið og vökvað plönturnar á hverjum palli.

Þýðing[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Hengigarðarnir, eða Svifgarðarnir eins og þeir eru stundum nefndir, valda stundum misskilningi, þar eð fólk sér fyrir sér garða sem hanga eða svífa í lausu lofti. Íslensku heitin gefa slíkt eilítið í skyn, þó ekki alveg, þar eð þau tengja sig við orð eins og hengibrú eða svifferju, svo eitthvað sé nefnt, en þau fyrirbæri hanga ekki í lausu lofti. En merkingin brenglaðist í sumum málum þegar þýtt var úr forngrísku (krematos) eða latínu (pensilis). Þessi orð merkja í raun: „slútir yfir“. Í sumum tungumálum valda þýðingarnar misskilningi þar eð fólk sér fyrir sér garða sem hanga í lausu lofti bókstaflega.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]